Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 469/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 469/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18100023 og KNU18100024

 

Beiðni […] og […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 26. júlí 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2018, um að taka umsóknir […], fd. […], ríkisborgara Indlands (hér eftir nefnd K), og […], fd. […], ríkisborgara Indlands (hér eftir nefndur M), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda þau til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 30. júlí 2018. Kærendur óskuðu eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 6. ágúst 2018. Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 27. september 2018.

Þann 12. október 2018 óskuðu kærendur eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Greinargerð kærenda barst kærunefnd þann sama dag. Viðbótargögn bárust þann 22. október 2018. Krafa kærenda um endurupptöku máls þeirra er byggð á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku málsins á því að aðstæður hafi verulega breyst frá því að ákvörðun kærunefndar hafi verið tekin. Er í því samhengi vísað til 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

K hefur lagt fram vottorð læknis um að hún sé barnshafandi og komin um fjóra mánuði á leið. Að mati kærenda sé lífi og velferð barnsins stefnt í hættu ef kærendum verði gert að snúa aftur til Þýskalands. Íslenskum stjórnvöldum beri að líta til sjónarmiða um bestu hagsmuni barnsins við mat á því hvort veita skuli fjölskyldunni alþjóðlega vernd hér á landi. Það séu réttindi barns að foreldrar þess séu færir um að ala það upp með viðunandi hætti og tryggja því öruggt umhverfi og góð uppeldisskilyrði, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sú staðreynd að K skuli vera barnshafandi teljist vera upplýsingar sem kalli á nýtt mat í málinu. Bendi kærendur á að hafa beri í huga að börn, þar með talið ófædd börn, séu sérstaklega viðkvæmur hópur og íslenskum stjórnvöldum beri að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Þá bendi kærendur á að ógnanir og ofbeldi gagnvart flóttafólki sé vaxandi vandamál í Þýskalandi, og því væri það andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum að senda tilvonandi foreldra til Þýskalands. Telji kærendur því skilyrði til endurupptöku á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga vera fyrir hendi og krefjast þess að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kærenda þann 26. júlí sl. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kærenda til Þýskalands bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kærenda, þ.e. kærendur hefðu ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærendur byggja beiðni um endurupptöku á því að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Í læknisvottorði, dags. 12. október 2018, kemur fram að K sé barnshafandi og hafi þann dag verið gengin 11 vikur og 3 daga. Telja kærendur m.a. að lífi og velferð barnsins sé stefnt í hættu ef þeim verði gert að snúa aftur til Þýskalands, og að íslenskum stjórnvöldum beri að líta til þeirra sjónarmiða sem þjóni best hagsmunum barnsins við mat á því hvort veita skuli fjölskyldunni alþjóðlega vernd á Íslandi.

Í málum kærenda, sem lauk með úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 26. júlí 2018 nr. 334/2018, byggðu kærendur m.a. á því að ekki væri unnt að endursenda þau til Þýskalands vegna heilsufars. Í úrskurðinum vísaði kærunefnd til skýrslna um heilbrigðisþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi þar sem m.a. komi fram að umsækjendur eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Byggði nefndin niðurstöðu sína á því að kærendur gætu leitað sér nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í Þýskalandi.

Að mati kærunefndar benda þær skýrslur sem vísað var til í úrskurði nefndarinnar ekki til annars en að þær forsendur sem lágu að baki niðurstöðu nefndarinnar varðandi aðgang kærenda að heilbrigðisþjónustu eigi jafnframt við um þjónustu við verðandi mæður. Í ljósi ofangreinds og að teknu tilliti til frásagnar kærenda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem kærendur hafa lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku úrskurðar kærunefndar, er það mat kærunefndar að hinar nýju upplýsingar breyti ekki grundvelli máls kærenda hjá kærunefnd. Því sé ekki hægt að fallast á að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kærenda um endurupptöku mála þeirra hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kærenda er hafnað.

 

The requests of the appellants is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Árni Helgason                                                                                  Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta