Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Hjúkrunarrýmum fjölgar um tæp 200 innan tveggja ára

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri við  nýbyggingu Sólvangs í Hafnarfirði - myndVelferðarráðuneytið

Ný hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verða tekin í notkun snemma á næsta ári og framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík eru komnar vel á veg. Með þessum framkvæmdum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 innan tveggja ára.

Framkvæmdirnar eru að hluta til þess fallnar að bæta aðbúnað og mæta úreldingu hjúkrunarrýma þar sem aðbúnaður hefur ekki staðist nútímakröfur. Ekkert hjúkrunarheimili hefur verið á Seltjarnarnesi til þessa, en það breytist um áramótin þegar tekin verður í notkun nýbygging með hjúkrunaríbúðum fyrir 40 íbúa. Í Hafnarfirði verður einnig tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili í byrjun næsta árs með hjúkrunaríbúðir fyrir 60 íbúa sem leysa af hólmi rými á Sólvangi. Jafnframt hefur verið ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á húsnæði gamla Sólvangs sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu um 33 rými og vinnur sveitarfélagið að undirbúningi þess.

Framkvæmdir eru komnar vel á veg við byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg með hjúkrunaríbúðum fyrir 99 íbúa og er áætlað að heimilið verði afhent fullbúið til rekstrar í nóvember á næsta ári. Í Árborg er verið að byggja hjúkrunarheimili fyrir 60 manns. Hjúkrunaríbúðirnar munu að hluta til koma í staðinn fyrir rými sem lögð voru niður þegar rekstri var hætt á Kumbaravogi og Blesastöðum en fjölgun hjúkrunarrýma með tilkomu þessa heimilis nemur 25 hjúkrunarrýmum.

Af öðrum framkvæmdum sem eru á áætlun og í undirbúningi má nefna uppbyggingu hjúkrunarheimila í Stykkishólmi, á Höfn í Hornafirði, Húsavík, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri. Að hluta til er þar um endurbætur að ræða vegna úreldingar á eldri rýmum en einnig munu framkvæmdirnar leiða til umtalsverðar fjölgunar hjúkrunarrýma á næstu árum, einkum í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og á Akureyri en einnig á Húsavík og Hornafirði. Áformuð uppbygging hjúkrunarrýma í þessum sveitarfélögum mun auka framboð hjúkrunarrýma sem nemur rúmum 180 rýmum.

Framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma samkvæmt uppbyggingaráætlun

Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs var upphaflega áætlað að leggja 45,9 milljarða króna til stofnanaþjónustu aldraðra. Nú er gert ráð fyrir að heildarframlagið verði 733,6 milljónum króna lægra, en þar af er ráðgert að um 276,4 milljónum króna verði varið til að hækka framlög til reksturs hjúkrunarrýma til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd íbúa á einstökum hjúkrunarrýmum. Umrædd lækkun á framlögum í heild nemur því 457,2 milljónum króna sem jafngildir um 1% af heildarfjárheimild málaflokksins. Lækkunin skýrist af því að nokkur dráttur hefur orðið á framkvæmdum við uppbyggingu hjúkrunarrýma sem frestar útgjaldaþörfinni. Munar þar ekki síst um stöðuna við Boðaþing í Kópavogi þar sem undirbúningur framkvæmda vegna uppbyggingar 64 nýrra hjúkrunarrýma lenti í biðstöðu vegna málaferla sem standa enn. Niðurstöðu Landsréttar er að vænta í byrjun næsta árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta