Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 28/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 28/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110054

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.         Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 268/2022, dags. 13. júlí 2022, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2022, um að synja umsókn [...], kt. [...], ríkisborgara Georgíu (hér eftir kærandi), um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda 15. júlí 2022.

Hinn 17. nóvember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Dagana 24. nóvember 2022 og 2. desember 2022 bárust kærunefnd frekari gögn.

Með tölvubréfi, dags. 17. janúar 2023, óskaði maki kæranda eftir því að fá að koma fyrir nefndina og ræða málið. Í ljósi gagna málsins taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda og maka hans kost á viðtali.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að atvik málsins hafi breyst en maki hans hafi orðið þunguð af barni þeirra.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 268/2022, dags. 13. júlí 2022, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 57. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. d-liður 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning á beiðni kæranda að hann byggi endurupptökubeiðni sína á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik og hins vegar að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgiskjölum sem liggja fyrir. Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi fram afrit af ljósmyndum og skjáskot af vefsíðunni heilsuvera.is. Þá barst kærunefnd læknisvottorð, dags. 2. desember 2022, þar sem m.a. kemur fram að maki kæranda sé þunguð og sé gengin tíu vikur og einn dag.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 13. júlí 2022, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 69. gr. og d-lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Þegar kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi 6. júní 2020 hafi hann sannanlega verið með stöðu sakbornings og þá hafi einnig legið fyrir að kærandi hafi t.a.m. verið dæmdur til fangelsisvistar í Svíþjóð og greiðslu sekta í bæði Noregi og Svíþjóð auk þess að hafa verið brottvísað frá báðum ríkjum og sætt endurkomubanni inn á Schengen-svæðið er gilti til 19. maí 2019. Hafi endurkomubannið því verið í gildi þegar kærandi hafi komið hingað til lands undir röngu auðkenni. Að mati kærunefndar hafði kærandi vísvitandi greint rangt frá varðandi framangreind atriði í umsókn sinni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og var það því mat kærunefndar að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði dvalarleyfis. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lagt fram ný gögn með endurupptökubeiðni sinni sem nefndin telur til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar hvað þetta varðar.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda kom einnig fram að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Kæranda hafi því verið synjað um endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 7. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram læknisvottorð, dags. 2. desember 2022, þar sem fram kemur að maki hans sé þunguð og sé gengin rúmlega tíu vikur. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda byggði nefndin á því að kærandi og maki hans hafi lagt á ráðin um að villa um fyrir yfirvöldum í umsóknarferlinu varðandi m.a. aðdraganda hjúskapar og búsetu þeirra. Þá hafi legið fyrir töluvert magn af samskiptum milli kæranda og maka hans af samskiptaforritinu Snapchat. Í framangreindum samskiptum kæranda og maka hans hafi m.a. komið fram að maki kæranda hafi sagt kæranda að hún ætlaði að setja nafn hans á póstkassann á heimili sínu. Umrædd skilaboð hafi ekki verið túlkuð á annan hátt en að kærandi og maki hans hafi með því verið að reyna að villa um fyrir stjórnvöldum enda hafi komið í ljós á síðari stigum málsins að kærandi hafi ekki verið fluttur inn á heimili maka síns á þeim tíma. Þá bera samskipti kæranda og maka hans það með sér að maki hans hafi ráðlagt honum að greina frá því að þau hafi kynnst á veraldarvefnum fyrir um tveimur árum síðan svo það liti ekki þannig út að þau hafi hist og gift sig strax. Þá bera samskipti þeirra með sér að maki kæranda hafi sent á hann drög að frásögn um það hvernig þau hafi kynnst. Hinn 20. júní 2021 hafi maki kæranda svo sent eftirfarandi skilaboð á hann á Snapchat:

So i need to tell you something, im gonna do something but i dont know if it is gonna affect you paper somehow so i wanted you to know about it. As you maybe know i really want to have a baby but we have to be married for like 3 years and than im gonna br 29/30 and its little bit too late to start to have kids than so im gonna have a baby next year, but i dont know how it will be like if i dont put your name on the birth certificate like do you know if immigration can check it ans see its not your baby and do something with your paper or something, i just wanted you to know about this

Þegar framangreind skilaboð voru send höfðu kærandi og maki hans verið í hjúskap í tæplega ár. Að mati kærunefndar gefa framangreind skilaboð sterklega til kynna að til hjúskapar þeirra hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Að mati kærunefndar var það ljóst af gögnum málsins að kærandi og maki hans hafi frá upphafi málsmeðferðar hjá stjórnvöldum haft samantekin ráð um að blekkja stjórnvöld í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.

Að teknu tilliti til þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram við meðferð endurupptökumálsins hjá kærunefnd og þess sem að framan er rakið er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að atvik málsins hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það jafnframt niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 13. júlí 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Kærunefnd leiðbeinir kæranda um að framangreind niðurstaða nefndarinnar komi ekki í veg fyrir að kærandi geti lagt fram nýja umsókn um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun telji hann sig uppfylla skilyrði þess. Með þessum leiðbeiningum er kærunefnd þó ekki að taka afstöðu til þess hvernig slík umsókn verði afgreidd.

 

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Sandra Hlíf Ocares                                                    Gunnar Páll Baldvinsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta