Hoppa yfir valmynd
25. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 309/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 309/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020043

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. febrúar 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 20. ágúst 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun. m.a. 22. september 2022, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 10. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 16. febrúar 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 2. mars 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu hryðjuverkahópsins Al-Shabaab.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann sé fæddur í Jilib í Sómalíu en hafi alist upp í Wabari í sama landi. Hann hafi verið búsettur í Jilib þar til hann hafi farið frá heimaríki sínu í desember 2021. Kærandi hafi farið til Líbýu í mars 2022 og dvalið þar fram til júní 2022, en u.þ.b. 6. júlí 2022 hafi hann farið þaðan til Ítalíu og áfram til Íslands. Kærandi tilheyri […] ættbálkinum í Sómalíu sem að hans sögn sé ekki minnihlutahópi í heimaríki sínu. Kærandi hafi komið til Íslands 20. ágúst 2022 og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi sama dag.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu auk þess sem grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sökum þess að hann hafi ekki samþykkt að ganga til liðs við Al-Shabaab og hafi hann orðið fyrir ítrekuðum hótunum af hálfu samtakanna. Þá hafi meðlimir samtakanna myrt bróður kæranda, hótað foreldrum hans og skotið á heimili fjölskyldu hans. Kærandi óttist hópa eða samtök sem stjórni ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, þ.e. meðlimi Al-Shabaab, sem hafi tekið sér ákveðið ríkisvald, sbr. b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Raunhæf ástæða sé til að ætla að kærandi verði fyrir alvarlegum skaða, þ.e. pyndingum, frelsissviptingu og jafnvel lífláti vegna stöðu sinnar verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá sé útilokað að kærandi geti leitað verndar stjórnvalda í heimaríki sínu.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það liggi fyrir að kærandi sé ungur maður sem hafi lengi verið á flótta. Hann hafi mátt þola ofbeldi, ofsóknir og erfiðar aðstæður, auk þess sem hann hafi horft upp á bróður sinn myrtan. Það sé því ljóst að kærandi sé í afar viðkvæmri stöðu. Félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki yrðu bágbornar og ómannúðlegt væri að senda hann aftur þangað.

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Vísar hann til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar frá 7. október 2022, andmæla hans frá 19. desember 2022 og athugasemda hans sem hafi borist Útlendingastofnun 20. janúar 2023 máli hans til stuðnings. Kærandi hafnar þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að leggja til grundvallar að hann sé frá borginni Hargeisa í Sómalílandi, enda sé hann fæddur í Jilib í Sómalíu og hafi búið þar stærstan hluta ævi sinnar. Gerir kærandi athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann eigi uppruna sinn að rekja til borgarinnar Jilib í Mið-Júba héraði. Kærandi hafi staðfastlega greint frá því að hann sé frá Jilib og svarað spurningum um kennileiti sem hafi verið að finna í borginni og nærumhverfi hans. Kærandi hafni því að hann hafi ekki nægilega þekkingu á staðháttum á umræddu svæði og þeirri fullyrðingu Útlendingastofnunar að eðlilegt sé að gera þá kröfu um að hann geti svarað með ítarlegri og nákvæmari hætti um staðhætti. Kærandi sé ungur að árum og fram komi í viðtali hans að hann hafi fengið takmarkaða menntun í heimaríki sínu. Hafi sú menntun einungis tengst trúarbragðafræði. Hafnar kærandi því að það dragi úr trúverðugleika framburðar hans að landfræðileg kunnátta hans sé takmörkuð í ljósi þeirrar menntunar sem hann hafi hlotið. Þá telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki getað lagt myndir af samfélagsmiðlum kæranda til grundvallar í ákvörðun sinni og dregið þær ályktanir að vegna mynda sem hann hafi deilt á miðlinum þá sé hann frá öðru svæði en hann réttilega sé. Kærandi hafi gefið fullnægjandi skýringar við þær myndir sem fyrir hann hafi verið lagðar í viðtali hans hjá Útlendingastofnun.

Varðandi staðhátta- og tungumálapróf kæranda vísar kærandi til fyrirvara við prófið og telur niðurstöður þess ekki geta sýnt fram á annað en að hann komi sannanlega frá Sómalíu. Norður sómalska sé mállýska sem yfir 60% Sómala styðjist við og sé hún ekki bundin við norðurhluta landsins. Ekki sé unnt að slá því föstu með nægilegri vissu hvaðan innan Sómalíu kærandi sé frá til að prófið verði talið hafa áhrif á trúverðugleika hans. Kærandi bendir einnig á að í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun hafi hann aldrei verið spurður að uppruna foreldra sinna eða þeirra aðila sem hann hafi alist upp hjá, en aðstæður og einstaklingar í nærumhverfi geti haft mikil áhrif á framburð eða mállýsku einstaklinga og mögulega skýrt frekar framburð kæranda.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem sé til þess fallið að sanna á sér deili og því hafi hann ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika og komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Sómalíu þó auðkenni hans væri að öðru leyti óupplýst. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé sómalskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
    • 2022 Country Repors on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
    • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
    • Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
    • BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
    • Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
    • Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
    • Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
    • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
    • Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
    • Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
    • Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
    • Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
    • Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
    • Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
    • EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
    • EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
    • Freedom in the World 2022 – Somalia (Freedom House, 24. febrúar 2022);
    • Freedom in the World 2022 – Somaliland (Freedom House, 24. febrúar 2022);
    • How Somaliland Combats al-Shabaab (Combating Terrorism Center, nóvember 2019)
    • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
    • Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
    • Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
    • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
    • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
    • Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
    • Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
    • Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
    • Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
    • Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
    • Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
    • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
    • […]
    • Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
    • Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
    • Somalia: Security challenges in Mogadishu (Landinfo, 15. maí 2018);
    • Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
    • […]
    • Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
    • Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
    • Somaliland. Puntland State of Somalia. The Land Legal Framework. Situation Analysis. (UN Human Settlement Programme, nóvember 2006);
    • South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
    • South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
    • The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 16. maí 2023);
    • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
    • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
    • Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
    • Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021) og
  • World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 bera hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hefur hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.

Í skýrslu búsetunefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 kemur fram að í kjölfar borgarastyrjaldarinnar árið 1991 hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Frá árinu 1991 hafi Sómalíland átt í erfiðleikum með að koma á fót starfhæfu lýðræðisríki en Sómalíland sé ekki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu sem sjálfstætt ríki. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 segir að starfandi dómstólar séu í Sómalílandi en í ljósi skorts á reynslumiklum dómurum og fullnægjandi skjalavörslu sé ekki hægt að líta til fordæma. Þá sé mikil spilling í dómskerfinu. Löggjöfin í Sómalílandi sé þrískipt; lög íslam (Sharia), venjuréttur (xeer) og formleg lög, en lögin séu ekki vel samþætt. Vegna annmarka í dómskerfinu sem og í opinberum stofnunum hafi xeer lögin, sem séu aðallega notuð í samskiptum ættbálka, mikið vægi í sómalísku samfélagi. Samkvæmt lögum séu ákærðir almennt taldir saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð jafnframt sem þeir eigi rétt á að njóta aðstoðar lögmanns. Þá séu réttarhöld í Sómalílandi opin almenningi. Réttindi sakborninga hafi þó ekki alltaf verið virt af yfirvöldum. Í Sómalílandi sé starfandi lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi og heyri stofnanirnar undir svæðisstjórn Sómalílands en ekki ríkisstjórn Sómalíu. Fyrir utan hefðbundna lögreglu (e. Somaliland Police Force) sé Sómalíland einnig með her (e. Somaliland Army) og fari þessar sveitir aðallega með löggæsluvaldið á svæðinu.  Samkvæmt skýrslu ACCORD sé Sómalíland öruggasta svæðið í Sómalíu og árið 2017 hafi einungis níu einstaklingar látið lífið í Sómalílandi vegna átaka á svæðinu. Í skýrslu EUAA um öryggisástand í Sómalíu frá 2023 kemur fram að yfirvöld í Sómalílandi séu með fulla stjórn á yfirráðasvæði sínu og er ekki að finna neinar skráðar árásir af hálfu Al-Shabaab á svæðinu í nýjustu heimildum um svæðið.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna. Þvinguð nýliðaskráning sé hins vegar óalgeng og eigi sér ekki stað á þeim svæðum sem séu ekki undir fullri stjórn Al-Shabaab. Geti samtökin þó hugsanlega hvatt til þess að einstaklingar gangi til liðs við þau og beitt hópþrýstingi með það að markmiði að þvinga aðila til liðs við sig. Þá hafi Al-Shabaab í einhverjum tilvikum krafist þess að ákveðinn fjöldi ungmenna gangi til liðs við samtökin til að verja tiltekin svæði. Neiti einstaklingur þeirri kröfu hafi samtökin í einhverjum tilvikum krafist einhvers konar bóta og þá hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi þurft að flýja til að tryggja öryggi sitt.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins um minnihlutaættbálka í Mið- og Suður-Sómalíu frá janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt UNHCR eru þeir ættbálkar sem eru í minnihluta í Sómalíu; Bantu/Jareer Bravense, Rerhamar, Bajuni, Eeyle, Jaaji/Reer Maanyo, Barawani, Galgala, Tumaal, Yibir/Yibron og Midgan/Gaboye. Það að tilheyra ættbálki sem sé í minnihluta leiði ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur sé í hættu á að verða fyrir ofsóknum. Þá bendi gögn til þess að í norðurhluta Sómalíu m.a. í Sómalílandi, fari ástandið batnandi og að ættbálkar sem séu í meirihluta þar séu umburðarlyndari heldur en á öðrum svæðum í Sómalíu. Minnihlutahópar tilheyri lægstu stétt sómalska samfélagsins, og hafi gert það allt frá því um 1900, og þeir sem tilheyri minnihlutahópi séu oft kallaðir ,,stéttleysingar“ (e. outcaste groups) eða Sab. Í skýrslu Lifos um ættbálkasamfélagið í Sómalíu kemur fram að í starfsliði lögreglunnar í Sómalílandi séu meðlimir allra ættbálkanna og ef einstaklingur sé grunaður um refsiverðan verknað þá séu lögreglumenn frá sama ættbálki til staðar jafnframt sem haft sé samband við ættbálk hins grunaða hverju sinni. Ættbálkasamfélagið sé sterkt í Sómalílandi og sé algengt að deilur séu leystar með samkomulagi samkvæmt xeer lögum á milli ættbálka eða innan ættbálks. Báðir aðilar þurfi að vera sammála um að leysa skuli deiluna með samningi samkvæmt xeer og þurfi hann að vera skriflegur og undirritaður af báðum aðilum. Þá segir í skýrslunni að minnihlutahópi sé, samkvæmt stjórnarskrá Sómalílands, heimilt að neita úrlausn deilu við ættbálk sem sé í meirihluta með samningi samkvæmt xeer og fara frekar með málið fyrir dómstóla.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Minority Rights Group telst ættbálkurinn Ashraf til minnihlutahópar af þeim ættbálkum í Sómalíu sem iðka íslamska trú. Meðlimir ættbálksins sæti oft mismunun sökum þess að þeir iðki trúna með öðrum hætti en aðrir ættbálkar. Ættbálkurinn hafi sögulega gegnt mikilvægu sáttamiðlunarhlutverki í átökum milli ættbálka og notið virðingar og verndar tiltekinna ættbálka. Þrátt fyrir að hafa náð pólitískum áhrifum og árangri á sviði menntunar og viðskipta við arabalönd sæti meðlimir Ashraf áttbálksins enn mismunun og mannréttindabrotum vegna uppruna síns, en talið sé að ættbálkurinn hafi flust til Sómalíu á tólftu öldinni.

Í framangreindri grein í European Journal of Public Health kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hann óttist ofsóknir af hálfu hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab. Meðlimir samtakanna hafi krafist þess að kærandi gengi til liðs við sig. Faðir kæranda hafi ekki orðið við þeirri kröfu og hafi meðlimir samtakanna í kjölfarið mætt að heimili fjölskyldunnar og hafið skotárás. Kæranda hafi tekist að flýja en litli bróðir hans hafi látið lífið.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að vera fæddur og uppalinn í borginni Jilib í Mið-Júba umdæmi í Suður-Sómalíu. Kærandi kvaðst hafa alist upp í hverfinu Wabari í Jilib, nálægt Hawlwadag. Kærandi kvaðst ekki geta gefið upp nákvæmt heimilisfang eða götuheiti þar sem hann væri ekki góður í stafsetningu.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þar sem kærandi hafi ekki lagt fram gögn til staðfestingar á auðkenni sínu hafi stofnunin ákveðið að láta kæranda þreyta tungumála- og staðháttapróf 22. nóvember 2022. Í prófinu hafi mállýska kæranda verið borin saman við þá mállýsku sem helst sé einkennandi fyrir talsmáta þeirra einstaklinga sem komi frá sama svæði og kærandi kveðst koma frá, þ.e. frá borginni Jilib í Mið-Júba héraði í suðurhluta Sómalíu. Hafi mállýska kæranda þannig verið borin saman við mállýsku að nafni Benadiri. Niðurstaða prófsins hafi verið sú að miklar líkur væru á því að mállýska kæranda væri ósamrýmanleg tungumálasamfélaginu Benadiri og þar með því tungumálasamfélagi sem helst sé einkennandi í Jilib. Í niðurstöðum prófsins hafi verið hvatt til þess að mállýskan norður sómalska yrði tekin til skoðunar í aðskilinni skýrslu. Í ljósi þess óskaði Útlendingastofnun eftir frekari greiningu á hljóðupptöku úr prófinu frá 22. nóvember 2022 þar sem kannað yrði hvort tungumál kæranda samræmdist því tungumálasamfélagi er kallist Norður-sómalska (e. Northern Somali). Niðurstöður seinni greiningarinnar hafi verið þær að mállýska kæranda væri að öllum líkindum í samræmi við mállýskuna Norður-sómölsku. Hafi jafnframt verið tekið fram í niðurstöðunum að meint heimaborg kæranda, Jilib, væri ekki staðsett á því svæði þar sem Norður-sómalska væri helst einkennandi. Niðurstöðurnar gætu því veitt vísbendingar um að bakgrunn kæranda mætti rekja til Norður-Sómalíu, Norður-Keníu, Djibútí eða svæðum í Eþíópíu.

Í ljósi framangreinds var kæranda gefinn kostur á að andmæla niðurstöðu tungumála- og staðháttaprófsins. Kærandi var jafnframt kallaður til framhaldsviðtala sem fram fóru 11. og 19. janúar 2023 þar sem honum var m.a. gefinn kostur á að viðhafa andmæli í tengslum við að Útlendingastofnun kynni að leggja til grundvallar að uppruna hans mætti rekja til norðurhluta Sómalíu. Í viðtalinu 11. janúar 2023 greindi kærandi frá því að hafa búið í borginni Jilib þar til hann hafi yfirgefið Sómalíu undir lok árs 2021. Í kjölfarið var kærandi spurður ýmissa spurninga, s.s. í hvaða umdæmi Mið-Júba skiptist og hafi kærandi getað svarað því með réttum hætti. Eins hafi kærandi svarað því réttilega að áin sem rynni í gegnum Jilib héti Juba. Kærandi hafi jafnframt verið spurður um þekkt kennimerki eða minnisvarða í Mið-Júba héraði eða Jilib og hafi hann látið nægja að nefna hótel að nafni Danwa sem og fjarskiptafyrirtæki að nafni Hormuud. Hafi kærandi vísað til þess að framangreint hótel væri staðsett í þorpinu Fanoole, en samkvæmt ítarlegu landakorti sem Útlendingastofnun hafi litið til sé það staðsett á mörkum Jilib og Bu‘ale umdæmis. Þá hafi kærandi greint frá því að Jilib skiptist einkum í fjögur umdæmi, nánar tiltekið Hawlwadag, Waberi, Bandar Jiiid og Fanole. Kvaðst kærandi hafa búið í Waberi. Við skoðun Útlendingastofnunar á ítarlegu landakorti af Jilib og Mið-Júba héraði hafi stofnunin ekki fundið nein svæði sem bæru heitin Hawlwadag og Waberi. Á kortinu hafi þó verið að finna þorpið Bandar Jidiid, sem kærandi hafi vísað til, en það tilheyri umdæmi Bu‘ale en ekki Jilib líkt og kærandi hafi haldið fram.

Í viðtalinu 11. janúar 2023 hafi kærandi jafnframt verið beðinn um að greina frá helstu nágrannasvæðum hins meinta heimaþorps hans, Waberi, og hafi hann þá vísað til Hawlwadag. Skoðun fulltrúa Útlendingastofnunar á ítarlegu landakorti hafi þó bent til þess að landsvæði með framangreindum heitum væri að finna innan Benadir héraðs, ekki Mið-Júba. Skömmu eftir viðtalið hafi fulltrúi Útlendingastofnunar skoðað samfélagsmiðla kæranda þar sem m.a. hafi verið að finna fjölda mynda af fána sjálfsstjórnarhéraðsins Sómalílands í norðurhluta Sómalíu sem og fréttir sem hann hafi deilt um Hargeisa, höfuðborg Sómalílands. Jafnframt hafi mátt greina nokkurn fjölda aðila á vinalista kæranda sem hefðu búsetu í Hargeisa og hafi yfirskrift kæranda á samfélagsmiðlinum Instagram verið „Hargeysa“. Í ljósi framangreinds hafi kærandi verið boðaður til framhaldsviðtals að nýju sem fram hafi farið 19. janúar 2023. Þar hafi kærandi verið spurður að því hvort hann hefði á einhverjum tímapunkti búið annars staðar í Sómalíu en í borginni Jilib og hafi hann svarað því neitandi. Í kjölfarið hafi skjáskot af samfélagsmiðlareikningum hans verið borin undir hann og honum verið veittur kostur á að færa fram athugasemdir. Kærandi hafi haldið því staðfastlega fram að hann væri frá borginni Jilib og að hann hefði aldrei ferðast til Sómalílands, í það minnsta ekki á fullorðinsaldri. Kærandi hafi þó viðurkennt að hann ætti fjölda vina þar. Kvaðst kærandi hafa tilgreint Hargeisa í yfirskrift sinni á samfélagsmiðlinum Instagram og birt myndir af fána Sómalílands í því skyni að verða sér úti um vinsældir á samfélagsmiðlum. Í athugasemdum talsmanns kæranda, dags. 20. janúar 2023, hafi m.a. verið ítrekað að kærandi kæmi frá Jilib í Sómalíu og að kort af borginni væri ekki lengur nákvæmt eftir að Al-Shabaab hafi náð yfirráðum á svæðinu. Jafnframt hafi komið fram að ótækt væri fyrir Útlendingastofnun að byggja ákvörðun sína á upplýsingum á samfélagsmiðlareikningum kæranda, enda væri hægt að setja hvaða upplýsingar sem er á slíka miðla án þess að þær ættu við rök að styðja.

Við skoðun Útlendingastofnunar á landakorti af Sómalíu hafi ekki fundist landsvæði að nafni Waberi, Hawlwadag eða Bandar Jidiid í Jilib. Það var mat Útlendingastofnunar, að teknu tilliti til niðurstaðna úr staðhátta- og tungumálaprófi kæranda, trúverðugleika frásagnar kæranda, upplýsinga á ítarlegu landakorti af Sómalíu og upplýsinga á samfélagsmiðlareikningum hans, að kæranda hefði ekki tekist að sýna fram á að hann komi frá borginni Jilib í Mið-Júba umdæmi í suðurhluta Sómalíu. Var þess í stað lagt til grundvallar, í ljósi framangreinds, að uppruna kæranda mætti rekja til höfuðborgar Sómalílands, Hargeisa.

Niðurstaða prófs, eða athugunar á því hvaða mállýsku einstaklingur talar verður ekki talin fela í sér afdráttarlausa niðurstöðu um uppruna eða búsetu viðkomandi einstaklings heldur verður að meta niðurstöðu prófsins í samhengi við önnur gögn máls. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um mállýskur í Sómalíu er ljóst að Benadiri mállýskur eru almennt talaðar á því svæði sem kærandi kveðst hafa búið alla tíð. Þótt taka verði tillit til ytri þátta við mat á uppruna og búsetu, svo sem uppruna fjölskyldumeðlima og búsetusögu umsækjanda, er það mat kærunefndar að niðurstaða framangreindra tungumálaprófa, sem gáfu til kynna að mestar líkur væru á því að kærandi tali mállýskuna Northern Somali, gefi vísbendingu um að kærandi hafi alist upp í norðurhluta Sómalíu.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 14. og 20. nóvember 2019, var kærandi spurður hinna ýmsu spurninga varðandi þekkingu hans á því svæði sem hann kveðst vera frá. Í viðtölunum taldi kærandi upp ýmis hverfi eða þorp á því svæði sem hann kveðst hafa alist upp á. Líkt og áður greinir kvaðst kærandi hafa alist upp í hverfinu Warebi í borginni Jilib, sem einnig sé eitt fjögurra umdæma borgarinnar. Ítarleg skoðun kærunefndar á landakorti af Sómalíu leiddi ekki í ljós að til væri umdæmi eða hverfi að nafni Warebi, Hawlwadag eða Bandar Jidiid í borginni Jilib. Staðina má finna á landakorti af Sómalíu en þó ekki í nálægð við borgina Jilib. Bendir kærunefnd í þessu samhengi á að ýmsum mismunandi útgáfum af framangreindum heitum var flett upp við skoðun á landakorti af Sómalíu. Verður jafnframt ekki séð af landakorti að Jilib sé einkum skipt í fjögur umdæmi líkt og kærandi fullyrti í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá var lýsing kæranda af kennileitum í Mið-Júba eða Jilib takmörkuð og nefndi hann einungis eitt tiltekið hótel og fjarskiptafyrirtæki. Þrátt fyrir að kærandi hafi einhverja þekkingu á staðháttum í Mið-Júba héraði og ekki sé útilokað að hann hafi dvalið á því svæði á einhverjum tímapunkti er það mat kærunefndar að frásögn hans sé almenn og ótrúverðugt sé að hann hafi verið búsettur alla tíð í borginni Jilib í Mið-Júba héraði í suðurhluta Sómalíu líkt og hann heldur fram. Þegar frásögn kæranda, gögn málsins og almennar upplýsingar um heimaríki hans eru metin heildstætt er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af því að hafa fæðst og alist upp í borginni Jilib í Mið-Júba héraði í Suður-Sómalíu sé ótrúverðug.

Kvaðst kærandi m.a. í framhaldsviðtali 19. janúar 2023 eiga marga vini frá Hargeisa en kvaðst þó aldrei hafa komið þangað. Verður það að teljast ótrúverðugt einkum í ljósi þess að hann kvaðst ávallt hafa búið í Jilib, starfað á bóndabæ fjölskyldu sinnar og aðeins hafa gengið í trúarlegan skóla og því ólíklegt að hann hafi kynnst fjölda fólks sem búsett er í Hargeisa. Þá verða skýringar hans, um að hann hafi viljað verða sér úti um vinsældir á samfélagsmiðlum með því að birta myndir og upplýsingar um Sómalíland, að teljast fremur ósannfærandi. Að framangreindu virtu, niðurstaðna úr tungumálaprófi og upplýsinga á samfélagsmiðlum kæranda, verður því lagt til grundvallar í málinu að kærandi komi frá Hargeisa í Sómalílandi í Norður-Sómalíu og hafi verið búsettur þar áður en hann yfirgaf heimaríki sitt.

Verður frásögn kæranda um að hann tilheyri ættbálknum […] enn fremur ekki lögð til grundvallar. Við það mat hefur kærunefnd horft til þess að kærandi kvaðst ekki tilheyra neinum minnihlutahópi í viðtölum hjá Útlendingastofnun, en samkvæmt þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað er […] minnihlutaættbálkur í Sómalíu og eru meðlimir hans útsettir fyrir mismunun og mannréttindabrotum. Verður í ljósi mikilvægis ættbálkasamfélagsins í Sómalíu að teljast ólíklegt að kærandi hafi ekki vitað að ættbálkur sá er hann kvaðst tilheyra væri í minnihluta þar í landi.

Í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun var kærandi jafnframt margsaga um atburðinn sem hann kveður vera ástæðu flótta síns, þ.e. að meðlimir hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab hafi ráðist að heimili kæranda og fjölskyldu hans í kjölfar þess að hann hafi neitað að ganga til liðs við samtökin. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. september 2022 kvað kærandi tvo meðlimi Al-Shabaab hafa mætt á bóndabýli fjölskyldu hans 6. desember 2021 og gefið sig á tal við hann þar sem hann hafi verið að vinna úti við. Kærandi hafi verið beðinn um að láta föður sinn vita að þeir vildu að kærandi gengi til liðs við samtökin. Kærandi hafi farið heim og greint móður sinni frá því sem hafi átt sér stað og hafi hún greint föður kæranda frá því þegar hann hafi komið heim um kvöldið. Næsta dag hafi meðlimir Al-Shabaab hringt í föður kæranda og krafist þess að hann afhenti þeim kæranda. Hann hafi svarað því að kærandi væri eini sonur hans og að hann gæti ekki farið með kæranda til þeirra þar sem hann væri gamall maður. Um miðjan desembermánuð hafi meðlimir Al-Shabaab mætt að heimili kæranda og fjölskyldu hans og hafið skothríð. Kvaðst kærandi hafa verið heima ásamt móður sinni og systkinum. Móðir kæranda og litli bróðir hans hafi orðið fyrir skotum og hafi bróðir hans látist í kjölfarið af sárum sínum en móðir hans lifað af. Greindi kærandi frá því að faðir hans hafi ekki verið á staðnum. Kærandi hafi náð að flýja út um einn glugga hússins og farið til frænda síns. Hann hafi ekki séð fjölskyldu sína eftir atvikið en frændi hans hafi tilkynnt honum að bróðir hans hafi látist í árásinni. Kærandi sé þó í sambandi við fjölskyldu sína í dag.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 11. janúar 2023 var kærandi aftur beðinn um að lýsa framangreindum atburði. Greindi hann þá frá því að meðlimir Al-Shabaab hafi gefið sig á tal við hann í lok nóvember 2021 og viljað að hann gengi til liðs við samtökin. Greindi kærandi frá því að faðir hans hafi fengið símtal daginn eftir frá meðlimum Al-Shabaab þar sem hann hafi neitað að verða við kröfu þeirra um að kærandi gengi til liðs við samtökin. Kvað kærandi meðlimi samtakanna hafa ráðist að heimili hans og fjölskyldu hans daginn eftir símtalið við föður hans. Í framhaldi af því segir kærandi þó að árásin hafi átt sér stað daginn eftir að meðlimir samtakanna hafi gefið sig á tal við hann. Kærandi greindi frá því að bæði faðir hans og móðir hafi verið heima ásamt systkinum kæranda. Aðspurður kvað kærandi árásina hafa átt sér stað í lok nóvember. Þegar kæranda var bent á að hann hafi í viðtali, dags. 22. september 2022, greint frá því að meðlimir Al-Shabaab hafi komið að heimili hans 6. desember 2021 svaraði hann því að það hefði verið dagurinn sem hann hafi yfirgefið Sómalíu. Kvað hann árásina hafa átt sér stað í lok nóvember 2021. Þá hafi kærandi verið beðinn um að lýsa árásinni betur, t.a.m. hvort einhver hafi slasast. Greindi kærandi frá því að litli bróðir hans hafi látið lífið en enginn annar hafi orðið fyrir skoti eða slasast. Þegar kæranda var bent á að hann hafi greint frá því í viðtali 22. september 2022 að móðir hans hefði verið skotin svaraði hann því að hugsanlega hafi frásögn hans verið ranglega þýdd. Rétt væri að móðir hans hafi ekki hlotið skotsár. Kæranda var jafnframt bent á að hann hafi greint frá því í viðtali 22. september 2022 að faðir hans hafi verið úti á þeim tíma sem árás Al-Shabaab hafi átt sér stað. Svaraði hann því að faðir hans hafi verið á eins konar útisvæði inni í húsinu, þ.e. ekki í herbergjum hússins. Þá kvaðst kærandi ekki vera í sambandi við fjölskyldu sína, en hann hafi síðast talað við móður sína þegar hann hafi yfirgefið Sómalíu. Hann hafi ekki heyrt frá fjölskyldu sinni síðan en hann sé í samskiptum við bróður sinn sem sé búsettur í Mógadisjú.

Við mat sitt á trúverðugleika frásagnar kæranda horfir kærunefnd til þess að misræmi er í frásögninni um veigamikil atriði tengd þeim atburði sem kærandi kveður hafa leitt til flótta hans frá heimaríki. Kærandi er margsaga um dagsetningar tengdar atburðinum, hvaða fjölskyldumeðlimir hafi verið staddir í húsinu þegar meint árás hafi átt sér stað og hverjir hafi slasast í árásinni. Telur kærunefnd þær skýringar sem kærandi veitti á misræmi í frásögn sinni ótrúverðugar, enda kemur t.a.m. skýrt fram í endurriti af viðtali við kæranda 22. september 2022 að móðir hans hafi hlotið skotsár en að hún hafi lifað af, ólíkt litla bróður hans. Jafnframt tekur kærandi sérstaklega fram í sama viðtali að móðir hans, hann sjálfur og systkini hans hafi verið heima á þeim tíma sem árásin hafi átt sér stað. Kærandi nefndi ekki föður sinn fyrr en hann var spurður hvar hann hefði verið. Svaraði kærandi þá því að hann hafi verið úti (e. „he was out“). Gaf frásögn kæranda þannig til kynna að faðir hans hafi ekki verið heima við. Þá er frásögn kæranda um samskipti hans við fjölskyldu sína í kjölfar meintrar árásar óljós. Í viðtali 22. september 2022 kvaðst hann vera í sambandi við fjölskyldu sína en í viðtali 11. janúar 2023 kvaðst hann ekki hafa heyrt frá henni síðan hann hafi yfirgefið Sómalíu að undanskildum bróður sínum sem byggi í Mógadisjú fjarri fjölskyldu þeirra. Dregur framangreint misræmi í frásögn kæranda verulega úr trúverðugleika hans.

Auk framangreinds er kærandi margsaga um ferðaleið sína til Íslands. Í hælisbeiðni kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því að hafa yfirgefið Sómalíu í lok ársins 2021 og farið til Ítalíu þaðan sem hann hafi farið í mars 2022. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. september 2022 kvaðst kærandi hafa yfirgefið Sómalíu í desember 2021 og farið þaðan til Líbíu og áfram til Ítalíu. Kvaðst kærandi hafa komið til Líbíu í mars 2022, farið þaðan í júlímánuði 2022 og komið til Ítalíu í kringum 6. júlí 2022. Í hælisbeiðni kæranda kemur þó fram að kærandi hafi greint frá því að hafa farið frá Sómalíu til Ítalíu þar sem hann hafi dvalið þar til í mars 2022, en hann hafi ekki vitað hvert hann hafi farið eftir það. Stangast það m.a. á við framangreinda frásögn hans að hann hafi verið í Líbíu í júlí 2022. Í ljósi framangreinds misræmis sendi kærunefnd tölvubréf á kæranda 9. maí 2023 þar sem honum var gefið færi á að veita skýringar á framangreindu misræmi ásamt því að veita réttar upplýsingar um ferðaleið sína frá Sómalíu til Íslands. Var kærandi jafnframt beðinn um að upplýsa kærunefnd um dvalarstaði hans á tímabilinu frá desember 2021 til mars 2022. Kærunefnd barst svar frá kæranda 15. maí 2023 þar sem fram kom að hann telji að túlkur hafi mistúlkað svör sín við spurningum í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kom fram í svari hans að hann hafi farið frá Mógadisjú í desember 2021 og komið til Líbíu í mars 2022. Hann hafi síðan farið frá Líbíu í júlí 2022. Ekki er hægt að útiloka að mistúlkun hafi átt sér stað í viðtali þegar kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd 20. ágúst 2022. Í framangreindu svari sínu upplýsti kærandi þó ekki hvar hann hafi dvalið eftir að hann hafi yfirgefið Sómalíu í desember 2021 og þar til hann hafi komið til Líbíu í mars 2022. Er frásögn kæranda um að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu Al-Shabaab að mati kærunefndar ótrúverðug og verður hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hann óttist ofsóknir í heimaríki sínu af öðrum ástæðum og hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að hann eigi þær á hættu.

Með vísan til framangreinds verður því aðeins lagt til grundvallar að kærandi sé frá Sómalílandi og að hann hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt til grundvallar að kærandi sé frá Sómalílandi í Norður-Sómalíu. Benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir til þess að aðstæður í Sómalílandi séu almennt taldar friðsamar og stöðugar. Sómalíland sé öruggt svæði í Sómalíu og yfirvöld í Sómalílandi hafi fulla stjórn á yfirráðasvæði sínu. Þá hafi Al-Shabaab lítil sem engin ítök þar. Að teknu tilliti til gagna málsins og fyrirliggjandi heimilda bendir ekkert til þess að kærandi eigi raunverulega hættu á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu á heimasvæði sínu í Sómalílandi verði hann sendur aftur þangað eða að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd vegna félagslegra aðstæðna hans í heimaríki sínu. Kærandi sé ungur maður sem hafi lengi verið á flótta og hafi mátt þola erfiðar aðstæður. Félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki yrðu bágbornar og ómannúðlegt væri að senda hann aftur þangað. 

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til niðurstöðu kærunefndar að framan verður ekki talið að aðstæður kæranda í Sómalílandi séu slíkar að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi er ungur karlmaður og hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hann sé vinnufær og fær um að framfleyta sjálfum sér. Þá hefur kærandi greint frá því að eiga foreldra og systkini í heimaríki sínu.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kom fram að kærandi væri almennt við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ber því ekki að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Kærandi gerði ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og gerði þá kröfu til þrautaþrautavara að stofnuninni yrði gert að taka málið til nýrrar meðferðar. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til athugasemda kæranda að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Verður því ekki fallist á þá kröfu kæranda að senda málið til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt gögnum máls sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 20. ágúst 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hefur hann því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinni kærðu ákvörðun var réttilega bundinn endir á heimild kæranda til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa honum úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Hinn 30. janúar 2023 var kæranda tilkynnt að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri kæranda með endurkomubanni til tveggja ára. Var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í athugasemdum kæranda, dags. 2. febrúar 2023, kemur fram að kærandi hafi engin tengsl við Ísland eða önnur lönd innan Schengen-svæðisins. Kærandi telji þó brottvísun og endurkomubann vera ósanngjarna ráðstöfun gagnvart sér. Vísaði hann til þeirra aðstæðna sem hann hafi greint frá í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun og í greinargerð sinni til stofnunarinnar. Þá kom fram að hann muni verða fyrir ofsóknum af hálfu Al-Shabaab í heimaríki sínu og verði líklega myrtur ef honum verði gert að fara þangað aftur, enda væru aðstæður óbreyttar frá því að hann hafi lagt á flótta.

Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðunarorðum í ákvörðun Útlendingastofnunar er kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar og í ákvörðunarorðum var kæranda ekki veittur frestur til að yfirgefa landið. Hins vegar kemur fram á fyrstu blaðsíðu ákvörðunarinnar í kafla sem ber heitið „Niðurstaða Útlendingastofnunar:“ að kæranda sé veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta