Evrópsk könnun á viðhorfum sem varða málefni aldraðra
Íslendingar hafa jákvæðara viðhorf til aldraðra og minni áhyggjur af hækkandi meðalaldri þjóðarinnar en almennt gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar evrópskrar könnunar sem gerð var við upphaf Evrópuársins 2012.
Evrópusambandið tileinkar árið 2012 öldruðum; virkni á efri árum og samstöðu milli kynslóða (e. European Year for Active Ageing and Solidarity between Generations) og er Ísland þátttakandi í verkefnum og viðburðum sem því tengjast.
Í tilefni ársins ákvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að kanna viðhorf Evrópubúa til ýmissa þátta sem tengjast málefnum aldraðra í svokallaðri Euorobarometer-könnun og voru niðurstöðurnar kynntar fyrir skömmu. Spurt var um atriði sem tengjast almennum viðhorfum til eldra fólks, vinnumálum, eftirlaunum og lífeyri, sjálfboðavinnu, stuðningi við aldraða og öruggu umhverfi.
Viðhorf Íslendinga eru að ýmsu leyti frábrugðin viðhorfum annarra Evrópubúa samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Í úrtaki könnunarinnar hér á landi voru 500 Íslendingar.
Helstu niðurstöður:
Tæplega tveir af hverjum þremur aðspurðra Íslendinga segjast vilja halda áfram að vinna eftir að hafa náð eftirlaunaaldri en samkvæmt könnunni á þetta viðhorf mun minna fylgi að fagna hjá öðrum Evrópubúum þar sem aðeins einn af hverjum þremur er þessarar skoðunar.
Um 66% Íslendinga segjast taka virkan þátt í starfi félagasamtaka eða vinna sjálfboðastarf á móti 26% annarra Evrópubúa.
Spurt var hvaða aðgerðir stjórnvalda myndu gagnast best til að auðvelda fólki að annast eldri fjölskyldumeðlimi og voru ýmsir kostir nefndir til sögunnar. Meirihluti aðspurðra hér á landi leggur áherslu sveigjanlegan vinnutíma (57%) meðan aðrir Evrópubúar telja helst að fjárhagsleg þóknun fyrir veitta umönnun kæmi að mestum notum.
Spurt var hvort fólk hefði orðið fyrir mismun vegna þess að það væri álitið of gamalt eða orðið vitni að slíkri mismunun. Hér á landi var mun hærra hlutfall fólks sem taldi sig hafa orðið vitni að mismunun vegna þessa á vinnustað eða í atvinnuleit en meðal annarra Evrópubúa. Aftur á móti var heldur lægra hlutfall Íslendinga sem sögðust hafa orðið fyrir mismunun vegna aldurs eða 5% á móti 6% annarra Evrópubúa.
Niðurstöður Eourobarometer-könnunarinnar þykja sýna að fólk vill vera virkt á efri árum. Þess er vænst að Evrópuárið 2012 verði almenningi, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum hvati til að grípa til aðgerða sem stuðla að virkri öldrun og nálgast þau verkefni sem varða öldrun og aldraða í samfélaginu á jákvæðan hátt.