Afganskur flóttamaður verður að sérfræðingi um fisk í Noregi
Þegar honum var boðið að kaupa vinsæla fiskbúð í norður Noregi hélt Asif að það væri brandari. „Ég vissi ekkert um fisk!“ hlær hann. „Núna er ég eigandi Fiskebua og öllum vinum mínum finnst það fyndið að afganskur flóttamaður sé nú orðinn fisk sérfræðingur.“
Hann hefur ekki alltaf haft það auðvelt en Asif segir að Noregur sé góður staður fyrir flóttafólk sem er tilbúið að læra tungumálið og leggja hart að sér.
Asif hafði aldrei áður séð hafið. Sem flóttamaður ferðaðist hann langar leiðir í gegnum Íran og Tyrkland en fór svo í fyrsta skiptið á bát, til þess að komast frá Tyrklandi yfir til Grikklands.
Þegar hann kom til Noregs í fyrsta sinn árið 2004 hafði Asif dvalið í móttökumiðstöð hælisleitenda í fimm ár. Þar lærði hann norsku á meðan hann beið eftir að umsókn hans um hæli yrði meðhöndluð.
Hann segir að biðtíminn hafi verið erfiður og að hann hafi verið ólmur í að komast burt frá miðstöðinni og byrja að vinna fyrir sér og fá svo eiginkonu sína til Noregs frá Afganistan.
Árið 2007 flutti Asif til Mo i Rana, sem er lítill bær í norður-Noregi, rétt sunnar við norðurheimskautsbaug. Fyrsta vinnan hans var í matvörubúð í bænum.
„Yfirmaður minn sagði mér að hann gæti bara boðið mér hlutastarf þegar ég byrjaði að vinna hjá honum – en fljótlega eftir það fór hann að biðja mig um að vinna meira. „Ég vildi vinna mikið svo ég gæti safnað pening – mig langaði að kaupa hús og hjálpa konunni minni að komast hingað til Noregs,“ segir Asif. „Ég var ekki hræddur við að vinna mikið og viðskiptavinum líkaði vel við mig.“
Merete Torsteinstein, forstöðumaður endurmenntunarstofnunarinnar í Mo i Rana hefur unnið með flóttafólki í fjöldamörg ár. Sveitafélagið hefur verið vandræðum með að finna fólk sem langar að setjast að í Mo i Rana, þannig að könnun var lögð fyrir flóttafólk á svæðinu til að komast að því hvað það væri sem myndi fá þau til að vilja að búa á svæðinu. „Niðurstöðurnar sýndu fram á þrjú meginatriði sem flóttafólk taldi nauðsynlegt til þess að setjast að á svæðinu. Það voru: tækifæri til þess að vinna fyrir sér og sínum, tækifæri til þess að kaupa hús og að það væri auðeldur aðgangur að góðum leikskólum og skólum fyrir börnin,“ segir Merete. „Það er svo auðvelt að gleyma því að þetta fólk er alveg eins og ég og þú og ég held að það væri hægt að framkvæma sömu könnun hvar sem er í heiminum og fá sömu niðurstöður.“
Asif vann í matvörubúðinni í 6 ár og hafði kynnst viðskiptavinunum og heimamönnum mjög vel og var hamingjusamur. Árið 2011 hafði hann keypt hús í Mo i Rana og hafði tekist að koma konunni sinni, Freshta til Noregs frá Afganistan á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Einn daginn kom Rolf Skjærvöld, eigandi Fiskebua, frægu fiskbúðarinnar við hliðina á matvörubúðinni, til Asif og spurði hann hvort hann hefði áhuga á því að taka yfir reksturinn. Rolf og meðeigandi hans Inger-Lise Kristiansen höfðu ákveðið eftir að hafa unnið lengi og mikið, að tími væri til kominn að fara á eftirlaun.
„Fyrst hélt ég að hann væri að grínast – ég vissi ekkert um fisk!,“ segir Asif hlæjandi. „Og svo útskýrði Rolf að hann var viss um að fyrirtækið myndi passa mér vel þannig ég og konan mín ákváðum að taka af skarið og kaupa fiskbúðina.“
Margir hefðu komið til Rofl og Inger og sýnt rekstrinum áhuga, en þau vildu engan annan en Asif.
„Að eiga fiskbúð er mjög erfitt og krefst ákveðni og áhuga, eitthvað sem Asif hefur. Hann er fljótur að læra, hann er vingjarnlegur maður með mikla þjónustulund. Að vinna með honum hefur verið mjög gefandi og ánægjulegt,“ segir Inger-Lise Kristiansen.
Í dag blómstrar Fiskebua. Með Asif og Freshta bakvið búðarborðið og með stuðning fyrrum eigenda sem hafa m.a. kennt þeim allt sem þau vita um fisk og hvernig það virkar að reka fyrirtæki í Noregi, hafa sölutölur risið og fastakúnnar búðarinnar eru ánægðari sem aldrei fyrr.
Sojborg Ulriksen er eldri borgari sem hefur búið í Mo i Rana allt sitt líf. Hún hefur verið fastakúnni Fiskebua í fjöldamörg ár. „Þegar við viljum kaupa fisk – þá komum við hingað“ segir hún „Asif er alltaf almennilegur og hann veit mikið um fisk. Það að hann er frá Afganistan gerir þetta bara skemmtilegt – hann er augljóslega búin að læra heilmikið!“
Nánar á íslensku á vef Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR)