Nýtt hjúkrunarheimili rís á Eskifirði
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og Árni Helgason, framkvæmdastjóri Hulduhlíðar, tóku í dag fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili á Eskifirði.
„Upp er runnin langþráð stund og einstaklega ánægjulegt að nú geti hafist framkvæmdir við byggingu nýs hjúkrunarheimilis hér á Eskifirði sem þjóna mun íbúum hér á svæðinu“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra þegar hann ávarpaði íbúa svæðisins og aðra gesti við þetta tækifæri.
Heimilið er hannað og skipulagt í samræmi við viðmið ráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Byggingin verður á einni hæð og skiptist í þrjár hjúkrunareiningar fyrir samtals 20 íbúa. Þar af er ein eining fyrir heilabilaða ætluð sex íbúum.
Áætlaður heildarkostnaður við byggingu heimilisins er 640 milljónir króna. Fjarðabyggð leggur fram 15% kostnaðarins en 85% koma úr ríkissjóði.
Framkvæmdasýsla ríkisins mun auglýsa útboð framkvæmda á næstunni og er áætlað að framkvæmdir hefjist í lok september. Stefnt er að því að nýja hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun sumarið 2013 en það mun leysa af hólmi hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði.