Mál nr. 45/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 45/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Mál þetta varðar þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda, A, á grundvelli 17. og 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem ekki hafði verið tekið tillit til hlutastarfs kæranda og tekna hans á tilgreindum tímabilum. Kærandi greiddi hluta skuldarinnar með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en eftirstöðvar skuldar hans nema 52.566 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 29. apríl 2014. Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júlí 2014, sem barst eftir að honum höfðu verið send öll gögn málsins kemur fram að hann hafi engu við mál þetta að bæta og að það hafi verið rétt að skerða bætur til hans. Hann væri þó ósáttur við það að hann hafi verið blekktur til þess að halda að ekki kæmi til skerðingar í hans tilfelli. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi starfaði hjá B tímabilin október 2011, 1. febrúar til 31. ágúst 2012 og 5. desember 2012 til 31. janúar 2013 í hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur þar sem ekki hafði verið tekið tillit til hlutastarfs hans og tekna á framangreindum tímabilum, samtals að fjárhæð 333.473 kr. sem Vinnumálastofnun gerði honum að endurgreiða skv. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi greiddi hluta skuldarinnar með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laganna. Eftirstöðvar skuldar kæranda nema 52.566 kr.
Í kæru sinni mótmælir kærandi forsendum Vinnumálastofnunar fyrir útreikningi ofgreiddra atvinnuleysisbóta til hans og krefst þess að ákvörðun stofnunarinnar verði hnekkt. Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. júlí 2014, gerir kærandi athugasemdir við villandi upplýsingar sem gefnar séu af hálfu Vinnumálastofnunar og segir að það sé ekki á færi venjulegs manns að þræla sér í gegnum lög um atvinnuleysistryggingar til þess að finna út hvort skerðing atvinnuleysisbóta eigi við eða ekki. Fram kemur í tölvupóstinum að hann hafi annars engu við mál þetta að bæta þar sem rétt hafi verið samkvæmt lögunum að skerða atvinnuleysisbætur til hans. Hann kveðst þó ekki vera sáttur við það að hann hafi verið blekktur til þess að halda að ekki kæmi til skerðingar í hans tilfelli.
Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. júlí 2014, bendir Vinnumálastofnun á að í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að þegar launamaður missi starf sitt en ráði sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda teljist hann hlutfallslega tryggður. Skuli tryggingarhlutfall atvinnuleitanda þá nema mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegni áfram. Af tilvitnuðu lagaákvæði leiði að skerða hafi átt tryggingarhlutfall kæranda um 17% á því tímabili sem hann hafi gegnt hlutastarfi hjá B. Meginreglan um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í samræmi við framangreind lagaákvæði séu atvinnuleysistryggingar einstaklinga í hlutastörfum skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Atvinnuleitandi með 100% bótarétt í 40% hlutastarfi fái því aðeins greiddar 60% af þeim bótum sem hann eigi rétt til, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skerðing tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.
Í máli þessu hafi verið staðið að skerðingu með ofangreindum hætti. Verði ekki séð að ranglega hafi verið staðið að greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu og beri kæranda að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. júlí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 1. ágúst 2014. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, dagsettum 25. júlí 2014, eins og fram hefur komið. Þar kemur m.a. fram að hann hafi engu við mál þetta að bæta þar sem rétt hafi verið samkvæmt lögunum að skerða bætur hans. Hann telji sig hins vegar hafa verið blekktan til þess að halda að skerðingin yrði ekki framkvæmd í hans tilfelli.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að endurkröfu Vinnumálastofnunar á ofgreiddum atvinnuleysisbótum eins og rakið hefur verið, en endurkrafan myndaðist við það að ekki hafði verið tekið tillit til hlutastarfs kæranda og tekna hans hjá B á tilteknum tíma samhliða því að hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi fékk ofgreiddar alls 333.473 kr. sem honum bar að endurgreiða samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hann greiddi stóran hluta skuldarinnar með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. sömu laga. Eftirstöðvar skuldar kæranda nema 52.566 kr.
Kærandi er sammála því að vegna tekna hans hafi borið að skerða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hann fékk greiddar með þeim hætti sem gert hefur verið. Það liggur því fyrir í máli þessu að ekki er uppi ágreiningur um niðurstöðu málsins, en í 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Í ljósi framangreinds hefur kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að úrskurðarnefndin kveði upp efnislegan úrskurð í málinu þar sem ekki er fyrir að fara ágreiningsefni samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Málinu er því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson