Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2014

Úrskurður

 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv.  36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur með inniföldu 15% álagi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar staðfest.

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 6/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. október 2013, tilkynnti stofnunin kæranda, A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 177.825 kr. auk 15% álags að fjárhæð 26.674 kr. eða samtals 204.499 kr. fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 2011 þar sem kærandi hefði ekki á þeim tíma uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hefði fengið skráninguna: ofgreitt vegna tekna. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 13. janúar 2014. Kærandi er ósammála ákvörðun Vinnumálastofnunar að efni til og hann telur einnig að birtingarháttur stofnunarinnar hafi verið ófullnægjandi og biður um að mál hans verði tekið til efnislegrar meðferðar. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri niðurstöðu stofnunarinnar í samræmi við innheimtubréfið. Enn fremur telur Vinnumálastofnun að kæra kæranda hafi borist of seint og beri því ekki að taka hana til efnismeðferðar.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 17. febrúar 2011. Vinnumálastofnun sendi honum bréf 5. ágúst 2011 vegna þess að við samkeyrslu gagnagrunns stofnunarinnar við ríkisskattstjóra hafði komið í ljós að kærandi hafði verið með reiknað endurgjald að fjárhæð 375.000 kr. í maí 2011 án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Kærandi hafði fengið samþykkta umsókn um þróun eigin viðskiptahugmyndar frá og með 20. maí til 29. júlí 2011 vegna eigin rekstrar. Í kjölfar þess var mál kæranda tekið til úrlausnar hjá Vinnumálastofnun og þar sem kærandi hafði fengið samþykktan samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar vegna sjálfstæðrar starfsemi sinnar var honum ekki gert að sæta viðurlögum vegna þessa. Tekjur kæranda vegna maí og júní 2011 komu til skerðingar við útreikning á atvinnuleysisbótum kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að samkvæmt upplýsingum úr tölvukerfi ríkisskattstjóra hafi kærandi verið með uppgefið reiknað endurgjald að fjárhæð 187.500 kr. í mars 2011 og 375.000 kr. í apríl, maí og júní 2011. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu maí til júní 2011 að fjárhæð 177.825 kr. Kæranda var tilkynnt um skuldamyndunina með birtingu greiðsluseðils, dags. 17. ágúst 2011 og tilkynningar inn á ,,mínum síðum“. Fram kemur að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um 15% álag á skuld sína að fjárhæð 26.674 kr. fyrr en með innheimtubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. október 2013.

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu í kjölfar innheimtubréfsins, dags. 17. október 2013. Vinnumálastofnun kannaði í kjölfarið hvort upplýsingar um reiknað endurgjald kæranda vegna maí og júní 2011 hefði breyst. Var niðurstaða þeirrar könnunar sú að svo væri ekki, enn væri gefið upp reiknað endurgjald að fjárhæð 187.500 kr. í mars og 375.000 kr. í apríl, maí og júní 2011. Það var því niðurstaða Vinnumálastofnunar að skilyrði til að endurupptaka mál kæranda væru ekki uppfyllt og var beiðni hans um endurupptöku synjað með bréfi, dags. 19. nóvember 2013.

Í kæru sinni, dags. 13. janúar 2014, greinir kærandi frá því að hann kannaðist ekkert við greiðsluseðil frá 17. ágúst 2011. Hann muni ekki eftir að slík krafa hafi birst í heimabanka hans og gefi endurvakning kröfunnar af hálfu Greiðslustofu Vinnumálastofnunar rúmum tveimur árum síðar ekki tilefni til að ætla að um lifandi kröfu hafi verið að ræða. Kærandi tekur fram að hann geti vel viðurkennt að eftir að innheimtubréfið hafi borist honum og hann farið að skoða þessi mál nánar, hafi hann séð á staðgreiðsluyfirliti á vef ríkisskattstjóra að bakfærsla hefði verið gerð sem hafi numið þessum 177.825 kr., en staðgreiðsluyfirlit ríkisskattstjóra á netinu sé ekki almenn lesning á heimili hans.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann geti ekki verið sammála Vinnumálastofnun um að það sé fullnægjandi birtingarháttur að birta skjólstæðingum stofnunarinnar íþyngjandi úrskurði á ,,mínum síðum“ þó svo að öðrum samskiptum sé lokið, til þess eins að gæta réttar síns. Það væri að minnsta kosti lágmark að fórna einu blaði, umslagi og frímerki til að koma greiðsluseðli til skila eða jafnvel að birta kröfu í heimabanka. Kærandi krefst þess að kæra hans verði tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir kröfu Vinnumálastofnunar um annað.

Kærandi tekur einnig fram að honum finnist það nokkuð sérstakt að fyrst sé opnað á kæruleið með innheimtubréfi því sem sent hafi verið 17. október 2013. Hann hefði talið eðlilegra að opna á kæruleið þegar ákvörðunin var tekin um að fella niður bætur að hluta í ágúst 2011 og hefði hann þá að sjálfstögðu nýtt sér þann rétt þá, hefði hann verið til staðar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 11. mars 2013, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr., sbr. bráðabirgðaákvæði VI laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda hafi verið tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna maí og júní 2011 með greiðsluseðli, dags. 17. ágúst 2011. Hafi seðillinn verið birtur inn á ,,mínum síðum“ kæranda hjá Vinnumálastofnun jafnframt því sem tilkynning hafi verið birt þess efnis til handa kæranda á sama stað. Vinnumálastofnun telji að með umræddum birtingarhætti hafi stofnunin birt kæranda stjórnvaldsákvörðun í máli hans, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi hún orðið bindandi er hún hafi verið komin til hans en ekki sé gerð krafa um það samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga að ákvörðun sé komin til vitundar hans, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að 20. gr. stjórnsýslulaga. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærufrestur vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna reiknaðs endurgjalds, hefði byrjað að líða 17. ágúst 2011. Kæra kæranda sé dagsett 13. janúar 2014 eða rúmlega tveimur árum eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar og telji Vinnumálastofnun því að kæran hafi borist utan fortakslauss ársfrestar skv. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga og beri ekki að taka hana til efnismeðferðar.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að þegar kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta hafi verið í gildi bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Hafi það heimilað sjálfstætt starfandi einstaklingum að vera með reiknað endurgjald að fjárhæð 100.000 kr., án þess að atvinnuleysisbætur þeirra myndu skerðast. Tekjur umfram það hafi skerst í samræmi við meginreglu laganna um skerðingu atvinnuleysisbóta sem sé að finna í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta. Skerðing tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki, sem hafi verið 100.000 kr. í tilfelli kæranda, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI við lög um atvinnuleysistryggingar, sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.

Í máli þessi hafi verið staðið að skerðingu með ofangreindum hætti. Meðal gagna í máli kæranda sé yfirlit yfir greiðslur til kæranda teknar út úr tölvukerfi ríkisskattstjóra ásamt greiðsluseðli sem birtur hafi verið kæranda á ,,mínum síðum“ hans á vef Vinnumálastofnunar þar sem kæranda sé tilkynnt um að hann hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur endurgreiða þá fjárhæð með 15% álagi. Hafi því verið lagt 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur til kæranda áður en þær hafi verið innheimtar. Þar sem það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að útreikningi á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að réttlætanlegt væri að hefja frekari innheimtuaðgerðir til að fá útistandandi skuld kæranda greidda. Hafi kæranda því verið sent innheimtubréfið, dags. 17. október 2013.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. mars 2013. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. mars 2013, en þar ítrekar hann sjónarmið sín og kröfur.

2.      Niðurstaða

Mál þetta snýst um innheimtu atvinnuleysisbóta til kæranda, sem Vinnumálastofnun taldi ofgreiddar, samkvæmt innheimtubréfi stofnunarinnar, dags. 17. október 2013. Í innheimtubréfinu kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 2011 en á þeim tíma hafi hann ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann  hafi fengið skráninguna „ofgreitt vegna tekna“. Höfuðstóll skuldarinnar nemur að mati Vinnumálastofnunar 177.825 kr. auk 15% álags 26.674 kr. eða samtals 204.499 kr. Innheimtubréfið byggist á greiðsluseðli Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. ágúst 2011. Þar kemur fram að hann skuldi stofnuninni 177.825 kr. Greiðsluseðillinn var sendur kæranda rafrænt á ,,mínar síður“.

 Kærandi krefst þess að málið verði tekið til efnismeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli greiðsluseðilsins þar sem birting ákvörðunar Vinnumálastofnunar á greiðsluseðlinum frá 17. ágúst 2011 hafi verið ófullnægjandi þrátt fyrir kröfu Vinnumálastofnunar um að kærunni verði vísað frá sem of seint fram kominni. Kæranda hafði verið tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna maí og júní 2011 með greiðsluseðli sem eingöngu var birtur kæranda á ,,mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun.

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið afskráður af atvinnuleitendaskrá 15. ágúst 2011 og kveðst kærandi þá hafa verið kominn í rekstur. Samskiptum hans við stofnunina var því lokið þegar hann fékk greiðsluseðilinn 17. ágúst 2011. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var ekki hægt að gera ráð fyrir því að kærandi fylgdist með ,,mínum síðum“ eftir að hann hætti að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var því ekki fullnægjandi birtingarháttur að birta kæranda greiðsluseðilinn eingöngu á ,,mínum síðum“ með þeim hætti sem gert var, þar sem kærandi gat ekki vitað að hann þyrfti áfram að kynna sér þá slóð. Verður mál þetta því tekið til efnislegrar úrlausnar.

Bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar var í gildi þegar kærandi þáði atvinnuleysisbætur 17. febrúar til 15. ágúst 2011. Þar kemur m.a. fram að sjálfstætt starfandi einstaklingi væri heimilt að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Tekjur hans fyrir þau verkefni skyldu koma til frádráttar atvinnuleysisbótunum og skyldi þá miðað við frítekjumark að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði. Tekjur umfram það skertust í samræmi við meginreglu laganna um skerðingu atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skerðingin var síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki, sem nam 100.000 kr., var dreginn frá samanlögðum tekjum kæranda og þeim atvinnuleysisbótum sem hann átti rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndaði skerðingu atvinnuleitanda. Af gögnum málsins verður ráðið að framangreindri aðferð var beitt við útreikning skuldar kæranda við Vinnumálastofnun og nam skuld hans 177.825 kr. samkvæmt greiðsluseðli, dags. 17. ágúst 2011.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu maí til júní 2011 með vísan til 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og rakið hefur verið. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. október 2013 um að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir framangreint tímabil að fjárhæð samtals 204.499 kr. með inniföldu 15% álagi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. október 2013 í máli A um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 204.499 kr. ásamt 15% álagi fyrir tímabilið 1. maí til 30. júní 2011 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúríksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta