Hoppa yfir valmynd
17. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 10/2014

Hinn 4. febrúar 2015 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 10/2014:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 31/2010

Ákæruvaldið

gegn

Vilhjálmi Kristni Skaftasyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 11. júlí 2014 fór Vilhjálmur Kristinn Skaftason þess á leit að mál nr. 31/2010, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 6. maí 2010, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 31/2010 var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot á heimili sínu. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Talið var að leggja yrði staðfasta og trúverðuga frásögn brotaþola til grundvallar í málinu og að fram væri komin lögfull sönnun fyrir því að endurupptökubeiðandi hefði gerst sekur um framangreinda háttsemi. Gögn málsins, þar með talið símhringingar og skilaboð endurupptökubeiðanda, og framburður vitna hafi verið til þess fallin að renna stoðum undir framburð brotaþola. Að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hans um sakfellingu endurupptökubeiðanda.

Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár og til greiðslu miskabóta.

III. Grundvöllur beiðni

Í bréfi til endurupptökunefndar, mótteknu 23. júlí 2014, vísar endurupptökubeiðandi til bréfs síns til Hæstaréttar um endurupptöku frá 18. febrúar 2011 og beiðni sinnar til endurupptökunefndar frá 11. júlí 2014. Rökstuðningur endurupptökubeiðanda er í fjórum liðum. Af beiðni endurupptökubeiðanda má ráða að hann telji skilyrðum 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála vera fullnægt til endurupptöku málsins.

Í fyrsta lagi byggir endurupptökubeiðandi á því að vitnisburður vitnisins F sé í vissum atriðum rangur. Því til staðfestingar leggur hann fram yfirlýsingu, dags. 13. febrúar 2011, frá fyrrum vinnuveitanda sínum þar sem segir að umræddu vitni hafi verið sagt upp störfum vegna vinnusvika. Endurupptökubeiðandi telur að vitnið hafi skipulagt hefndaraðgerð gegn sér þar sem það hafi talið að endurupptökubeiðandi hafi staðið að brottrekstri þess úr starfi. Endurupptökubeiðandi telur yfirlýsingu fyrrum vinnuveitanda nýtt gagn sem ætla megi að hefði verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef það hefði komið fram áður en dómur gekk, sbr. skilyrði a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Í öðru lagi er á því byggt að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess þannig að fullnægt sé skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þegar málið hafi verið til meðferðar hafi þannig verið hafnað að rannsaka frekar sæði sem fannst á brotaþola. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að eftir meintan atburð hafi verið tekin öll sýni af honum auk þess sem fatnaður hans hafi verið tekinn. Endurupptökubeiðandi telji það vera greinilegan ásetning að rannsaka ekki úr hverjum sæðið hafi verið sem hafi fundist á brotaþola og þá sérstaklega með vísan til aðkomu fyrrnefnds vitnis að þessu máli þennan umræddan dag. Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að sæðið hafi ekki verið úr endurupptökubeiðanda og því verði að skera úr um úr hverjum það hafi verið.

Í þriðja lagi telur endurupptökubeiðandi að lögfræðiaðstoð honum til handa hafi ekki komið að neinu gagni við vörn málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Í fjórða lagi er þess getið að engir vinnufélagar eða vinnuveitandi endurupptökubeiðanda hafi verið yfirheyrðir. Það hafi leitt til verulegra galla á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Því séu fyrir hendi skilyrði til endurupptöku á grundvelli d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

Með bréfi dagsettu 18. febrúar 2011 fór endurupptökubeiðandi þess á leit að Hæstiréttur myndi endurupptaka hæstaréttarmál nr. 31/2010. Rök hans fyrir endurupptöku nú voru meðal þeirra atriða sem leyst var úr í fyrri endurupptökubeiðni hans til Hæstaréttar. Hæstiréttur tók afstöðu til þeirra röksemda sem þar voru færð fram og hafnaði beiðninni 5. apríl 2011.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að nefndin geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a-d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

Ákvæðið er svohljóðandi:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,
b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,
c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,
d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Í 3. mgr. 212. gr. laga um meðferð sakamála segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað. Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað þá fer um frekari meðferð málsins samkvæmt ákvæðum 213. gr. laganna.

Grundvöllur beiðni endurupptökubeiðanda byggir á staðhæfingum hans þess efnis að kæra á hendur honum fyrir kynferðisbrot sem hann hafi ekki framið hafi falið í sér hefndaraðgerð. Til þeirrar aðgerðar hafi verið stofnað af hálfu nafngreinds manns sem endurupptökubeiðandi telur að hafi haft sig ranglega fyrir þeirri sök að hafa komið því til leiðar að viðkomandi var rekinn úr starfi. Þótt tilgreindur maður hafi verið meðal vitna fyrir dómi og við rannsókn málsins byggist sakfelling í máli endurupptökubeiðanda ekki á vitnisburði þessa manns einum og sér. Af dómi Hæstaréttar má ráða að framburður brotaþola, framburður endurupptökubeiðanda og það sem fyrir lá um samskipti þeirra í kjölfar þess að brotaþoli yfirgaf heimili endurupptökubeiðanda, meðal annars í símaskilaboðum, sem og framburður annarra vitna hafi fyrst og fremst ráðið úrslitum um sakfellingu. Það að til þessa máls hafi verið stofnað sem hefndaraðgerðar fær ekki stoð í fyrirliggjandi gögnum eða dómi Hæstaréttar.

Með vísan til c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, telur endurupptökubeiðandi það vítavert að sæði sem fannst í lífsýni brotaþola hafi ekki verið rannsakað frekar og telur það hafa úrslitaþýðingu í málinu.

Framangreindur rökstuðningur endurupptökubeiðanda er reistur á sömu sjónarmiðum og vörn hans fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Fyrir lá í málinu að sæðið hafði ekki komið frá endurupptökubeiðanda. Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur vísar einnig til, er tekið fram að réttarfræðileg rannsókn sem gerð var á lífsýnum sem aflað var frá brotaþola og dómfellda þóttu hvorki styðja né afsanna frásögn brotaþola. Hins vegar þóttu önnur atriði sem eru ítarlega reifuð í dómi Hæstaréttar og dómi héraðsdóms leiða til sönnunar um sekt dómfellda. Ekki verður því ráðið af gögnum málsins að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Verður endurupptaka hæstaréttarmáls nr. 31/2010 því ekki byggð á þessari forsendu.

Þá hefur ekkert komið fram í máli þessu sem sýnir fram á að vörn endurupptökubeiðanda hafi verið svo áfátt í málinu, fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti, að fullnægt sé áskilnaði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þau atriði sem endurupptökubeiðandi gerir athugasemdir við og lúta að málsvörninni fyrir dóminum breyta því ekki.

Að lokum er ekki hægt að fallast á þann rökstuðning endurupptökubeiðanda að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. áskilnað d-liðar 1. mgr. 211. gr., þar sem engir vinnufélagar eða vinnuveitandi hans hafi verið yfirheyrðir. Þó kveðið sé á um í 120. gr laga um meðferð sakamála að ákærandi annist um boðun vitna á er afdráttarlaust tekið fram í ákvæðinu að verjanda sé boðun heimil. Ekkert stóð því þannig í vegi að nefndir aðilar væru boðaðir til vitnisburðar af hálfu endurupptökubeiðanda ef hann taldi þá geta varpað ljósi á málsatvik. Verður af þessum sökum ekki talið að framangreint skilyrði sé uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu er ekkert skilyrða a-, c- eða d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt. Þar sem beiðni um endurupptöku þykir bersýnilega ekki á rökum reist telur endurupptökunefnd rétt að hafna beiðninni þegar í stað, sbr. 3. mgr. 212. gr. laganna.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Vilhjálms Kristins Skaftasonar um endurupptöku máls nr. 31/2010, sem dæmt var í Hæstarétti 6. maí 2010, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                                                                                         

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta