nr. 30/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 30/2018
Fimmtudaginn 26. apríl 2018
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 29. janúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2018, um innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2018 var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 451.222 kr., án álags. Á yfirliti vegna skuldamyndunar kemur fram að ofgreiðslan sé til komin vegna tekna kæranda á tímabilinu 1. maí til 30. nóvember 2017.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. janúar 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 20. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð þar sem hún sé óútskýrð. Skilja verður kæruna þannig að hann krefjist þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greitt úr lífeyrissjóðum samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi þegar tekið afstöðu til ofgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda miðað við stöðuna sumarið 2017, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 315/2017. Skuld kæranda hafi haldið áfram að hækka, meðal annars sökum þess að tekjuáætlun hafi ekki gefið rétta mynd af rauntekjum hans. Í janúar 2018 hafi skuld kæranda numið 451.222 kr. og hann hafi verið inntur eftir greiðslum á þeirri skuld með erindi stofnunarinnar 26. janúar 2018.
Vinnumálastofnun vísar til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta, en í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi haft tekjur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta en þær skuli koma til frádráttar á greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda beri í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur en skuld hans hafi verið innheimt með skuldajöfnuði við síðari tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 451.222 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Óumdeilt er að kærandi fékk greiðslur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2017 og að þær greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjur kæranda voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2018, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson