Íslenska ríkið sýknað í máli um dómaraskipan
Í dómnum kemur fram að mat hæfnisnefndarinnar hafi verið haldið efnislegum annmörkum og hafnaði dómurinn því kröfu stefnenda um að leggja matið til grundvallar dómsniðurstöðu. Dómurinn taldi þannig ekki sannað að stefnendur hefðu verið meðal 15 hæfustu umsækjenda. Dómurinn taldi að vegna þessara efnislegu annmarka hefði ráðherra átt að óska eftir nýju áliti dómnefndarinnar. Þá er komist að þeirri niðurstöðu í dómnum að tillaga ráðherra hafi hvorki bitnað á orðspori né æru stefnenda og því er miskabótakröfu þeirra hafnað.
Ráðherra vill ítreka það sem hún upplýsti við meðferð málsins um að hún byggði tillögu sína til Alþingis á starfi og niðurstöðu dómnefndarinnar. Þótt hún hafi verið ósammála forsendum nefndarinnar taldi hún álitið ekki haldið slíkum ágöllum að rétt væri að virða það að vettugi. Þar sem ráðherra byggði tillögur sínar á niðurstöðu dómnefndarinar taldi héraðsdómur að meginstefnu að sömu annmarkar væru á málsmeðferð ráðherra og áliti dómnefndarinnar. Nú liggur hins vegar fyrir með niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra var í raun ekki stætt á að fylgja niðurstöðu nefndarinnar.