Bylting í aðgengi fólks að stafrænni þjónustu
Með 350 milljóna viðbótarframlagi á næsta ári, sem samþykkt var í fjárlögum í gær, verður stafræn þjónusta hins opinbera stóraukin. Þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið við hið opinbera fyrir lok ársins 2020.
Einfaldari samskipti og bætt þjónusta
Gert er ráð fyrir að verkefnastofa um stafrænt Ísland ljúki við að stafvæða yfir 350 verkefni á næsta ári. Þar á meðal eru ýmsar umsóknir, þjónustuferlar sem verða einfaldaðir og gerðir sjálfvirkir auk þess sem nauðsynlegir tækniinnviðir verða innleiddir til að gera stafræna þjónustu mögulega. Meðal forgangsverkefna eru umsóknir um fæðingarorlof, ökuskírteini, vegabréf og starfs- og rekstrarleyfi. Þá verður sundurliðun á reikningum frá hinu opinbera aðgengileg á netinu og unnt verður að greiða þá á vefnum island.is, miðlægum þjónustuvef hins opinbera.
Markmið Stafræns Íslands er að gera samskipti við opinbera aðila snurðulaus og þægileg með því að bæta aðgengi, einfalda ferla og leggja áherslu á að veita þjónustu sem uppfyllir þarfir notenda.
Verkefnin eru liður í aðgerðaráætlun um eflingu stafrænnar opinberrar þjónustu, sem samþykkt var í ríkisstjórn þann 31. maí sl.