Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir lagt fram til umsagnar
Heilbrigðisráðherra leggur hér með fram til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002 umtóbaksvarnir, með síðari breytingum, sem áformað er að leggja fram á núverandi þingi.
Með drögum að frumvarpinu verða settar reglur varðandi heimildir til sölu, markaðssetningar og neyslu á rafsígarettum. Enn fremur verður hluti 20. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB innleiddur, en ákvæðið fjallar um rafsígarettur.
Sömu reglur gildi um sölu, markaðssetningu og takmarkanir á neyslu á rafsígarettum og gilda um tóbak
Í drögum að frumvarpinu felst fyrst og fremst að settar verði reglur sem takmarka heimildir til að neyta rafsígarettna. Með frumvarpinu er lagt til að sambærilegar reglur gildi um neyslu rafsígarettna og gilda um neyslu tóbaks, þ.e. óheimilt verður að neyta rafsígarettna í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. í íþrótta- og tómstundastarfi. Óheimilt verður að neyta rafsígarettna í skólum, á opinberum samkomum, á heilsugæslustöðum og heilbrigðisstofnunum. Sömu undantekningar verða gerðar og gilda varðandi tóbak.
Lagt er til í drögum að frumvarpinu að sömu aldurstakmörk gildi varðandi kaup á rafsígarettum og áfyllingarílátum og gilda um tóbak. Sama gildir um heimildir til að selja rafsígarettur og áfyllingarílát.
Þá er lagt til í drögum að frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um merkingar á rafsígarettum og áfyllingarílátum, líkt og gert er með tóbak. Er það liður í innleiðingu tilskipunar 2014/40/ESB.
Neytendastofu falið eftirlitið
Í drögum að frumvarpinu er lagt til að framleiðendur og innflytjendur rafsígarettna og áfyllingaríláta sem hyggjast setja vöru á markað þurfi að senda Neytendastofu tilkynningu um slíkt 6 mánuðum áður en fyrirhugað er að varan fari á markað. Mun Neytendastofa því fara með eftirlit með merkingum og öðru er tengist öryggi rafsígarettna og áfyllingaríláta á markaði.
Óskað er eftir að umsagnir verði sendar velferðarráðuneytinu í tölvupósti á póstfangið: [email protected] og að í efnislínu standi: „Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir.“
Umsagnir skulu berast eigi síðar en 24. febrúar 2017.