Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Þróun þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2014 – 2019

Þróun þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 2014 – 2019 - myndStjórnarráðið

Fjallað er um þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í máli og myndum, um þróun hennar og árangur, í nýrri samantekt á vef stofnunarinnar. Aðgengi að þjónustu heilsugæslunnar hefur verið bætt til muna með nýjungum og breyttu skipulagi, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar starfa nú á öllum heilsugæslustöðvunum 15 og skipulögð heilsuvernd fyrir aldraða er í sókn. Um þetta og margt fleira má lesa um í samantektinni, auk tölfræðiupplýsinga um notkun þjónustunnar og hvernig hún hefur þróast frá ári til árs.

Allar heilsugæslustöðvarnar bjóða nú upp á opna móttöku þar sem hjúkrunarfræðingar taka á móti fólki samdægurs og/eða svara erindum í síma  og koma þeim í viðeigandi farveg. Læknir er tiltækur ef á þarf að halda í tengslum við þessa þjónustu. Auk þessa hefur tímaúrval hjá læknum verið aukið þar sem boðið er upp á styttri viðtalstíma samdægurs. Samskipti fólks við heilsugæsluna í gegnum mínar síður á vefnum www.heilsuvera.is aukast jafnt og þétt. Árið 2017 áttu sér stað rúm 24.000 samskipti í gegnum heilsuveru, þau voru rúmlega 65.000 árið 2018 og nærri 120.000 árið 2019.

Geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa öll tekið til starfa, þ.e. geðheilsuteymi HH austur sem þjónar íbúum Breiðholts, Árbæjar, Grafarvogs, Norðlingaholts, Grafarholts og Kjalarness, geðheilsuteymi HH vestur sem er fyrir íbúa miðborgarinnar og vesturhluta borgarinnar og nú síðast geðheilsuteymi HH suður sem þjónar Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og tók til starfa í byrjun þessa árs. Starfsemi geðheilsuteymanna eykst jafnt og þétt. Árið 2018 voru samskipti við notendur geðheilsuteymanna tæplega 7.300 en rúmlega 12.700 árið 2019. Þjónusta teymanna kemur til viðbótar þeirri þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvunum og er fyrir þá sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu. Þjónustan er þverfagleg og veitt með vitjunum heim til fólks eða í viðtölum í húsnæði teymisins.

Í samantektinni um þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er sagt frá aukinni áherslu á heilsuvernd aldraðra og fjallað um árangur af stofnun sérstaks endurhæfingarteymis sem hóf störf haustið 2018. Markmið endurhæfingarteymisins er að  efla og endurhæfa fólk á öllum aldri sem er með skerta færni og getu þannig að það verði sem mest sjálfbjarga.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta