Framlög aukast til íslenskra háskóla: Alþjóðlegur samanburður OECD
Meðal þess sem fram kemur um íslenskt menntakerfi er:
• Framlög á hvern ársnema í íslenskum háskólum voru rétt undir meðaltali OECD árið 2016, eða um 94% af meðaltali OECD. Árið 2015 námu þau 81% af meðaltali OECD og hækkuðu því um 13 prósentustig milli áranna 2015-16. Framlög á hvern ársnema í háskólum hækkuðu meira á Íslandi en flestum öðrum löndum OECD ef miðað er við þróunina frá árinu 2010. Frá 2010 til 2016 hækkuðu framlögin um 43% á Íslandi en að meðaltali um 8% í ríkjum OECD.
• Hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 25-34 ára hér á landi hefur aukist hratt á undanförnum áratug, úr 33% árið 2008 í 47% árið 2018, sem er yfir meðaltali OECD. Menntunarstig þessa aldurshóps er svipaður og í Noregi og Svíþjóð. Mun hærra hlutfall kvenna hefur lokið háskólaprófi í þessum aldurshópi eða 56% á meðan hlutfallið hjá körlum er 39%.
• Hlutfall fólks á aldrinum 25-34 ára sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi á Íslandi var 19% árið 2018, samanborið við 15% að meðaltali innan ríkja OECD. Hlutfallið hefur þó farið hratt lækkandi frá 2008 eða alls um 9 prósentustig. Aftur á móti er atvinnuþátttaka ungs fólks án framhaldsskólaprófs á Íslandi mjög há í samanburði við önnur ríki, 80% þeirra eru í vinnu hér á landi en aðeins 60% að jafnaði innan OECD.
• Hærra hlutfall barna eru í leikskóla hér á landi en í öðrum OECD-ríkjum, 76% eins árs barna eru í leikskóla og hlutfall þeirra hvergi hærra, samanborið við 40% að meðaltali innan OECD.
• Laun kennara við upphaf starfsferilsins eru að jafnaði hærri á Íslandi en að meðaltali í OECD-ríkjum en hækka minna með meiri starfsreynslu. Laun grunnskólakennara voru 16% hærri á Íslandi en að jafnaði innan OECD árið 2018, en eftir 15 ára starfsreynslu hækka byrjunarlaunin um 10,5% á Íslandi en innan OECD um 39%. Þá eru launin á Íslandi orðin 9% lægri en að jafnaði innan OECD.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér en allar gagnatöflur má finna hér.