Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherranefnd um jafnréttismál úthlutar 10 milljónum úr framkvæmdasjóði jafnréttismála

Ráðherranefnd um jafnréttismál úthlutaði í dag 10 milljónum króna úr framkvæmdasjóði jafnréttismála til verkefna á vegum ráðuneyta. Úthlutað er til verkefna sem taka mið af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

Nefndin úthlutaði að þessu sinni fjármagni til alls fimm verkefna.

Í fyrsta lagi er um að ræða styrk til samstarfsverkefnis forsætisráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins við UNICEF Menntun – lykill að valdeflingu kvenna sem beinir sjónum að menntun stúlkna í Afganistan og fylgir eftir framkvæmdaáætluninni frá Peking hlaut 3,2 milljóna króna styrk.

Í öðru lagi hlýtur innanríkisráðuneytið styrk að fjárhæð 600.000 krónur til gerðar rannsóknarverkefnis, sem ætlað er að greina stöðu kvenna sem sótt hafa um hæli hér á landi og kanna hvernig hægt sé að tryggja konunum fullnægjandi vernd við meðferð hælismála og veitingu hælis þar sem kynbundin atriði geta vegið þungt. 

Í þriðja lagi hlýtur velferðarráðuneytið, sem jafnframt er ráðuneyti jafnréttismála, tvo styrki samtals að fjárhæð 5,5 milljónir króna sem nýttir verða til að hrinda í framkvæmd verkefnum aðgerðaáætlunar um launajafnrétti kynjanna. Annars vegar er styrkt rannsókn á kynbundnum launamun sem unnin verður í samstarfi við samtök aðila vinnumarkaðarins og mun ná yfir vinnumarkaðinn í heild sinni á tímabilinu 2008–2013. Hins vegar er styrkt verkefni um gerð framkvæmdaáætlunar til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali og verður það unnið í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Loks hlaut verkefni um eflingu á þátttöku stúlkna í félagslífi framhaldsskóla styrk að fjárhæð 800.000 krónur. Verkefnið verður unnið í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra framhaldsskólakennara. 

Ráðherranefnd um jafnréttismál starfar í forsætisráðuneytinu og í henni sitja auk forsætisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innanríkisráðherra. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar í samræmi við umfjöllunarefni. Nefndin fylgir eftir markmiðum um aukna áherslu í baráttu fyrir mannréttindum og kvenfrelsi. Henni er ætlað að veita málaflokki jafnréttismála aukið vægi innan stjórnkerfisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta