Hoppa yfir valmynd
1. júní 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Breyttar reglur um bifreiðakaupastyrki

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út reglugerð sem felur í sér breytingar á reglugerð um bifreiðakaupastyrki. Tvennt felst í nýju reglugerðinni. Í fyrsta lagi er verið að lengja tímann sem líður á milli styrkja úr fjórum árum í fimm þegar menn sækja um að endurnýja bifreiðar. Í öðru lagi mun réttur til 500 þúsund króna styrkja miðast við að viðkomandi sé að kaupa sína fyrstu bifreið. Nú er hins vegar í gildi sú regla að viðkomandi öðlast þann rétt til styrks frá TR, þegar hann fær uppbótargreiðslur í fyrsta sinn. Með breytingunni nú er verið að hverfa aftur til þess sem var í gildi fram í október 2002, þegar skilyrðum til að fá 500 þúsund króna styrki var breytt. Endurnýjunarrétturinn er mismunandi langur í nálægum löndum. Meginreglan í Noregi er 11 ár á móti 5 árum hér eftir breytinguna nú, hún er 7 ár í Svíþjóð og 6 í Danmörku.

Fréttatilkynning nr. 16/2004

Jón Kristánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gefið út nýja reglugerð vegna bifreiðakaupastyrkja. Tók reglugerðin gildi í dag, 1. júní. Með reglugerðinni er breytt skilyrðum sem þeir þurfa að uppfylla sem rétt eiga á styrkjum frá Tryggingastofnun ríkisins til að kaupa bifreiðar.

Tvennt felst í nýju reglugerðinni. Í fyrsta lagi er verið að lengja tímann sem líður á milli styrkja úr fjórum árum í fimm þegar menn sækja um að endurnýja bifreiðar. Í öðru lagi mun réttur til 500 þúsund króna styrkja miðast við að viðkomandi sé að kaupa sína fyrstu bifreið. Nú er hins vegar í gildi sú regla að viðkomandi öðlast þann rétt til styrks frá TR, þegar hann fær uppbótargreiðslur í fyrsta sinn. Með breytingunni nú er verið að hverfa aftur til þess sem var í gildi fram í október 2002, þegar skilyrðum til að fá 500 þúsund króna styrki var breytt.

Að uppfylltum tilteknum skilyrðum er uppbótin, eða styrkurinn, sem veittur er til kaupa á bifreið tvenns konar. Annars vegar er 250 þúsund króna styrkur og 500 króna styrkur sem veittir eru sem uppbót á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Hins vegar eru einnig veittir hærri styrkir, sem nema einni milljón króna, eða um 50 % - 60% af kaupverði bifreiðar, og eru þeir styrkir veittir samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna bifreiðakaupastyrkja voru 530 milljónir króna á árinu 2003 og höfðu þá ríflega þrefaldast miðað við útgjöld ársins 2002. Á árunum 2000 til 2002 voru útgjöldin á bilinu 140 til 160 milljónir króna. Útgjaldaaukningunni olli reglugerðarbreyting sem tók gildi í ársbyrjun 2003. Er nú verið að draga úr útgjaldaaukningunni sem varð umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir með reglugerðarbreytingunni á sínum tíma.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
1. júní 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta