Fréttapistill vikunnar 26. júní - 1. júlí
Samstarfsnefnd skoðar heilbrigðisútgjöldin
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag, að tillögu heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, að skipa fimm manna samstarfsnefnd til að innleiða svokallað SHA-flokkunarkerfi við úrvinnslu talnaefnis um heilbrigðisútgjöld fyrir OECD, en Hagstofa Íslands hefur þegar ákveðið að taka í notkun þetta kerfi. Nefndinni er ætlað að treysta samstarf Hagstofunnar við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og landlæknisembættið á þessu sviði svo tryggja megi nákvæma öflun og úrvinnslu á öllum upplýsingum um heilbrigðisútgjöld. Nokkur óvissa ríkir um hvort greining heilbrigðisútgjalda á Íslandi sé í samræmi við það sem gerist hjá öðrum OECD-ríkjum. Henni er mikilvægt að eyða og tryggja að verið sé að bera saman tölur sem flokkaðar eru á sama hátt og gert er almennt í öðrum ríkjum samtakanna.
Nánar...
Lyfjaverðsnefndar tekur upp ný verðviðmið
Lyfjaverð á Íslandi miðast nú við verðlag í Svíþjóð, Noregi og Danmörku en samkomulag þess efnis milli innflytjenda frumlyfja og lyfjaverðsnefndar tók gildi í dag, 1. júlí. Í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra stórkaupmanna kemur fram að áætluð lækkun á verði innfluttra frumlyfja komi fyrst og fremst fram sem lækkun lyfjakostnaðar hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Þar segir að áætlaður sparnaður vegna nýrra verðviðmiða sé um 300 milljónir króna á ári miðað við heildsöluverð og um 500 milljónir króna á ári miðað við verð í smásölu. Verðákvarðanir verða endurskoðaðar tvisvar á ári að teknu tilliti til verðþróunar í viðmiðunarlöndunum þremur. Á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins (TR) kemur fram að lyfjaútgjöld TR muni ekki lækka en hins vegar muni hægja á stöðugum vexti þeirra.
Tvær námsstöður til sérnáms í heimilislækningum lausar til umsóknar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið auglýsir tvær námsstöður til sérnáms í heimilislækningum lausar til umsóknar. Stöðurnar eru lausar frá 1. september 2004 og eru til þriggja ára. Gert er ráð fyrir að námslæknir starfi á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, bæði í þéttbýli og dreifbýli og taki þátt í fræðilegu námi. Námið verður nánar skipulagt í samráði við kennara í heimilislækningum og fulltrúa Framhaldsmenntunarráðs. Námslæknir hefur fastan leiðbeinanda allan námstímann. Laun eru samkvæmt úrskurði kjaranefndar um laun heilsugæslulækna og samkvæmt samningum sjúkrahúslækna.Umsóknarfrestur er til 27. júlí. Umsóknir með upplýsingum um fyrra nám og störf sendist Sveini Magnússyni, skrifstofustjóra í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Vegmúla 3, 150 Reykjavík. Nánari upplýsingar um stöðurnar veitir Alma Eir Svavarsdóttir, aðjúnkt, í síma 585 1800.
Tannverndarráð hefur gefið út Bókina um barnatennurnar
Út er komin Bókin um barnatennurnar sem Tannverndarráð gefur út til að efla tannvernd ungra barna. Tíðni tannskemmda í barnatönnum virðist vera að aukast meðal forskólabarna hjá hinum Norðurlandaþjóðunum og liggja fyrir tölur því til staðfestingar í Noregi. Hér á landi landi skortir rannsóknir á þessu efni, en úr því verður bætt með stórri rannsókn á munnheilsu íslenskra barna sem hleypt verður af stokkunum í haust. Bókin um barnatennurnar er ætluð til að fræða börn og foreldra um munnheilsu barna á forskólaaldri. Þar er að finna fræðslu um tannvernd allt frá því fyrsta barnatönnin verður sýnileg og þangað til fullorðinstennurnar byrja að koma upp. Nánar er sagt frá bókinni á heimasíðu Tannverndarráðs og einnig er hægt að skoða bókina sjálfa á Netinu.
Reglugerð um starfsemi Lýðheilsustöðvar
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, undirritaði nýja reglugerð um landsnefnd og sérfræðiráð Lýðheilsustöðvar í gær í tilefni þess að stöðin fagnaði árs afmæli sínu. Landsnefndin er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn, hann skipar formann án tilnefningar, en landsnefndin er ráðgjafanefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni og stefnumótun á sviði lýðheilsu.
Reglugerðin...
Vefur um klíniskar leiðbeiningar í læknisfræði aðgengilegur hjá LSH
Opnaður hefur verið vefur um klínískar leiðbeiningar í læknisfræði á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Vefurinn er í umsjá nefndar um gerð klínískra leiðbeininga í læknisfræði sem sett var á fót fyrir tveimur árum. Birtar eru leiðbeiningar sem starfshópar um einstök verkefni hafa unnið. Einnig eru tengingar við valda erlenda vefi um klínískra leiðbeiningar og við vef landlæknisembættisins og Krabbameinsmiðstöðvar LSH.
Vefurinn...