Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 10. - 16. júlí

Sjúkrahústengd heimaþjónusta LSH jókst um 21% milli ára

Starfsemi sjúkrahústengdrar heimaþjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss jókst um 21% árið 2003 frá fyrra ári. Frá þessu er sagt á heimasíðu sjúkrahússins. Árið 2002 voru vitjanir samtals tæplega fimm þúsund en árið 2003 voru þær rúmlega sex þúsund. Árið 2003 fengu meðaltali 65 sjúklingar á mánuði hjúkrunarþjónustu í heimahúsum á vegum spítalans og dag hvern frá morgni til miðnættis var farið í tæplega 18 vitjanir. Með sjúkrahústengdri heimaþjónustu er reynt að flýta útskriftum sjúklinga frá deildum spítalans, draga úr innlögnum og létta álagi af deildum vegna þjónustu við sjúklinga í leyfum sem annars kæmu til meðferðar á kvöldin og um helgar. Sjúkrahústengd heimaþjónusta var stofnuð 1. nóvember 2000 en starfsemin hafði áður verið í mótun sem þróunarverkefni í hjúkrun frá árinu 1997. ,, Starfsmenn eru hjúkrunarfræðingar með langa starfsreynslu á spítalanum sem framfylgja fyrirmælum um meðferð í samráði við þá hjúkrunarfræðinga og lækna sem útskrifa sjúklinginn til þjónustunnar hverju sinni. Vinnusvæðið er allt höfuðborgarsvæðið og suma daga ekur hver hjúkrunarfræðingur allt að 100 km á vakt.”
Nánar...

Undirbúningi breyttrar fjármögnunar LSH að ljúka

Landspítali – háskólasjúkrahús hefur á undanförnum misserum unnið að innleiðingu framleiðslumælikvarða í þjónustu sjúkrahússins. Gerðir hafa verið s.k. DRG samningar milli framkvæmdastjórnar sjúkrahússnis og einstakra sviða en þeir fjalla um gagnkvæmar skyldur sem lúta að starfssviði, verkefnum, rekstrarumfangi, áætlanagerð, mati á starfsemi og greiðslu kostnaðar vegna reksturs klínískra sviða sjúkrahússins. Nánar er skýrt frá þessu verkefni á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss og þar er einnig sérstakur vefur um DRG-IS: Framleiðslumælikerfi LSH.
Nánar...

Dreifibréf landlæknis og Lyfjastofnunar vegna þunglyndislyfja fyrir börn og unglinga

Landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafa nýlega sent dreifibréf til lækna vegna umræðu um mögulega hættu af notkun ákveðins flokks þunglyndislyfja, svonefndra SSRI-lyfja lyfja við þunglyndi, kvíða og áráttusjúkdómi (obsessive-compulsive disorder) hjá börnum og unglingum. hjá börnum og unglingum. Áhyggjur hafa vaknað vegna mögulegra sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða í kjölfar notkunar lyfjanna.
Nánar...

Nútímalegar aðferðir til að fræða ungt fólk um kynsjúkdóma og varnir gegn þeim

Verðlaun standa til boða þátttakendum í Smokkaleiknum svonefnda sem formlega var opnaður á veraldarvefnum nýlega. Smokkurinn er eina getnaðarvörnum sem komið getur í veg fyrir kynsjúkdómasmit. Til að minna á notkun hans og mikilvægi og til að veita fræðslu um kynsjúkdóma og varnir gegn þeim á hátt sem höfðar til ungs fólks var Smokkaleikurinn búinn til. Þetta er tölvuleikur sem gengur út á að skjóta með smokkabyssu á kynsjúkdómaveirur og sæðisfrumur. Á fyrstu fimm dögunnum frá því að leikurinn kom á Netið heimsóttu 11.500 heimasíðu hans. Sóttvarnarlæknir tók þátt í gerð leiksins og landlæknisembættið lagði til upplýsingar við gerð hans. Í tengslum við leikinn er hægt að nálgast á aðgengilegan hátt upplýsingar og fræðslu um smokkinn, kynsjúkdóma getnaðarvarnir og hvert hægt sé að leita ef grunur er um smit. Hægt er að fara beint inn á vef Landlæknisembættisins á vefsíðu þar sem er að finna algengar spurningum um kynsjúkdóma og svör og loks er boðið upp á að senda til embættisins spurningar sem kunna að vakna.
Nánar...



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta