Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Norrænu lýðheilsuverðlaunin afhent á Egilsstöðum

Fréttatilkynning nr. 21/2004

Magnús Scheving hlaut síðdegis Norrænu lýðheilsuverðlaunin árið 2004. Verðlaunin fær hann fyrir Latabæ og þar með fyrir framlag sitt til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndum. Verðlaunin eru veitt af Norræna lýðheilsuháskólanum í Gautaborg fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Verðlaunin eru 50.000 sænskar krónur en þau hafa verið veitt frá árinu 1989, eða í fimmtán ár. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Egilsstöðum en þar er að hefjast árlegur fundur norrænu heilbrigðis-og félagsmálaráðherranna.

Norrænu lýðheilsuverðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, samtökum, eða stofnun sem hefur lagt sitt af mörkum til að bæta lýðheilsu á Norðurlöndum. Í þessu felst að sá fær verðlaunin sem hefur stuðlað að því með frumkvæði sínu og starfi að hafa jákvæð áhrif á lífhætti okkar með andlegum eða líkamlegum hætti.

Sá sem vinnur til verðlaunanna hefur með afgerandi og mikilvægu hætti haft þessi áhrif annað hvort í landi sínu, sem þannig gæti orðið öðrum til eftirbreytni, eða þá á Norðurlöndunum öllum.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu kemur fram að offituvandi meðal norrænna barna aukist ár frá ári. Í Latabæjarverkefninu séu börn hvött til að temja sér heilsusamlega lífshætti með því að sameina leik og fræðslu og þannig hafi augu barna verið opnuð fyrir samspili lífshátta og heilsufars. Í verkefninu sé rík áhersla lögð á líkamlega hreyfingu og hollt mataræði og að skapari Latabæjar, Magnús Scheving, hafi með nýstárlegum hætti lagt sig fram um að bæta heilsufar barna. Þess vegna hlýtur Magnús Norrænu lýðheilsuverðlaunin í ár.

Magnús Scheving hefur á tíu ára tímabili haldið mörg þúsund fyrirlestra fyrir börn og ungmenni og hefur haft með starfi sínu og áhuga bæði vakið athygli á nauðsyn þess að temja sé heilsusamlega lífhætti og hrifið unga og þá sem eldri eru til að hreyfa sig. Hann hefur jafnan kappkostað og lagt áherslu á að vinna á faglega viðurkenndum grunni og m.a. leitað í smiðju til sérfróðra til að tryggja þetta.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

17. ágúst 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta