Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2013

Þriðjudaginn 10. desember 2013


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. maí 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B, f.h. A, dags. 2. maí 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 15. apríl 2013, þar sem honum var tilkynnt að umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna væri synjað.

Með bréfi, dags. 8. maí 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 4. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. júní 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 18. júní 2013.

 

I. Málsatvik

Kærandi sótti um fæðingarstyrk námsmanna með umsókn, dags. 20. mars 2013, vegna væntanlegrar fæðingar barns hans þann 16. apríl 2013. Kærandi var í fullu námi en vegna veikinda gat hann ekki klárað haustönn 2012. Fæðingarorlofssjóður synjaði kæranda um greiðslu fæðingarstyrks í fullu námi á þeim forsendum að kærandi hafi ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði af síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið og sé enn skráður í fullt nám. Samkvæmt bréfi Fæðingarorlofssjóði, dags. 15. apríl 2013, eigi hann ekki rétt á fæðingarstyrk námsmanna vegna þess að hann hafi ekki sýnt viðunandi námsárangur í námi sínu á að minnsta kosti sex mánuðum á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu dóttur kæranda þann Y. apríl 2013.

Ástæða þess að kæranda hafi ekki tekist að ljúka því námi sem hann var skráður í sé sú að hann hafi orðið alvarlega veikur síðustu mánuði ársins 2012. Hann hafi verið lagður inn á spítala þann 18. desember 2012 og gengist undir uppskurð þann 11. janúar 2013, þar sem ristill hans hafi verið fjarlægður. Þann sama dag hafi hann átt að verja lokaverkefni frá skólanum.

Kærandi mótmæli þessari afstöðu sjóðsins og fari fram á endurskoðun ákvörðunarinnar. Í málinu liggi fyrir staðfesting skólans á því að kærandi hafi lokið 10 ECTS einingum á haustönn 2012 og að námið sé fullt nám. Þá liggur einnig fyrir staðfesting skólans á því að kærandi hafi verið í veikindaleyfi frá 21. desember 2012 og fram í febrúar 2013 og eigi því ólokið verkefni sem svari til 20 ECTS eininga.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 20. mars 2013, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hans þann 16. apríl 2013.

Með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting um áætlaðan fæðingardag, bréf frá kæranda, dags. 20. mars 2013,  læknisvottorð, dags. 7. febrúar 2013, bréf frá C skóla, dags. 21. desember 2012 og 28. janúar 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 15. apríl 2013, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Á kærustigi hafi verið ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum um nám kæranda og fæðingarvottorði, sbr. tölvupóstar frá 16. maí til 4. júní 2013. Auk þess hafi verið aflað upplýsinga um nám kæranda af heimasíðu C skóla. Í framhaldinu hafi borist umbeðið fæðingarvottorð, bréf frá C skóla, dags. 4. júní 2013, og staðfesting frá umboðsmanni kæranda um að 6. önn námsins væri ekki innan tólf mánaða tímabilsins sem um ræði.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. apríl 2013 og því verði, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá Y. apríl 2012 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt útprentun af heimasíðu skóla kæranda sé nám hans sjö annir og fullt nám sé 30 ECTS einingar á önn. Haustönn byrji í lok ágúst og standi til loka janúar og vorönn frá byrjun febrúar til loka júní. Lokaönnin, sem sé 7. önnin og hefjist í lok ágúst og eigi að standa til loka janúar, samanstandi af 10 ECTS eininga ritgerð og 20 ECTS eininga lokaverkefni.

Í bréfi skólans, dags. 21. desember 2012, komi fram að kærandi sé í veikindaleyfi það sem eftir lifi annarinnar og að gert sé ráð fyrir að hann snúi aftur til náms á 7. önn í febrúar 2013. Í tölvupósti móður kæranda, dags. 4. júní 2013, komi fram að kærandi hafi byrjað námið aftur á 7. önn þann 4. febrúar 2013. Í sama tölvupósti komi fram að 6. önn kæranda sé ekki innan tólf mánaða tímabilsins. Í bréfi skólans, dags. 28. janúar 2013, komi fram að hann hafi lokið BS ritgerð sinni í nóvember 2012, eða 10 ECTS einingum, og í bréfi skólans, dags. 4. júní 2013, komi fram að vinna við 20 ECTS lokaverkefni sé enn í gangi en reiknað sé með útskrift í júní 2013.

Þannig liggi fyrir í gögnum málsins að vegna veikinda hafi kærandi ekki getað lokið 20 ECTS eininga lokaverkefni sínu á haustönn 2012 en önnin hefði átt að standa yfir í 5 mánuði. Þrátt fyrir að kæranda hefði tekist að ljúka lokaverkefninu á haustönn 2012 liggi því fyrir að einungis væri um fimm mánaða nám að ræða á tólf mánaða tímabilinu, sbr. tölvupóstur móður kæranda þar sem fram komi að 6. önnin væri ekki innan umrædds tólf mánaða tímabils.

Þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. 

Í gögnum málsins liggi fyrir læknisvottorð sem staðfesti alvarleg veikindi kæranda og jafnframt liggi fyrir staðfesting frá skóla kæranda um að honum hafi verið veitt námsleyfi vegna sinna veikinda. Í ffl. sé að finna sérstakt heimildarákvæði fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun náms vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna. Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga 74/2008 komi þannig fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þó að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Slíkt ákvæði sé hvorki að finna í ffl. né heldur í reglugerð fyrir feður og því geti framangreint læknisvottorð ekki komið til skoðunar.

Ekki verði séð að nein undanþága laganna eða reglugerðar nr. 1218/2008 geti átt við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 15. apríl 2013.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.   

Kærandi byggir á því að Fæðingarorlofssjóði beri taka tillit til þess að hann hafi orðið alvarlega veikur í lok haustannar 2012. Kærandi hafi verið skráður í fullt nám en ekki getað lokið önninni þar sem hann hafi orðið alvarlega veikur og þurft á uppskurði að halda.  

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að hvergi í ffl. eða reglugerð 1218/2008 sé heimild til að víkja frá þeim skilyrðum sem sett eru í 1. mgr. 19. gr. ffl. fyrir greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi vegna veikinda föður.  

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk.

Barn kæranda fæddist þann Y. apríl 2013. Svo kærandi ætti rétt á greiðslu fæðingarstyrks þurfti hann því að hafa verið í fullu námi í skilningi laganna í að minnsta kosti sex mánuði á tímabilinu frá Y. apríl 2012 til Y. apríl 2013.

Af gögnum málsins virðist óumdeilt að 6. önn kæranda í námi hans hafi ekki verið innan framangreinds tímabils. Þá liggur einnig fyrir að 7. önnin náði aðeins yfir rúmlega 4 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. ffl. er fullt nám 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur er átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Af framangreindu er ljóst að kærandi var ekki í fullu námi skv. ffl. í sex mánuði af síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. Er þegar af þeirri ástæðu óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun og koma sjónarmið sem varða veikindi kæranda því ekki til skoðunar.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi er staðfest.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta