Hlutfall barna utan skóla hefur verið nánast óbreytt í heilan áratug
Mikil fátækt, langvarandi átök og fjölþætt neyðarástand víðs vegar um heiminn hefur leitt til þess að stöðnun hefur orðið í baráttunni fyrir því að öll börn gangi í skóla. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) kallar á frekari fjárfestingar til að fækka börnum utan skóla.
Fréttaveita Sameinuðu þjóðanna segir að 11,5% barna á grunnskólaaldri - eða 123 milljónir barna - fái ekki þá grunnmenntun sem börnin eiga rétt á. Hlutfall barna utan skóla standi nánast í stað frá því fyrir tíu árum, árið 2007, þegar 12,8% barna voru utan skóla.
Haft er eftir Jo Bourne yfirmanni menntamála hjá UNICEF að fjárfestingar sem miða að því að fjölga skólum og kennurum til samræmis við mannfjöldaþróun sé ekki fullnægjandi. Sú aðferðafræði nái ekki til bágstöddustu barnanna. "Þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa til að blómstra meðan þau eru áfram föst í fátæktargildru," segir hann.
Börn utan skóla eru einkum í fátækustu ríkjunum og á átakasvæðum. Af þessum 123 milljónum barna sem njóta engrar formlegrar skólagöngu eru 40% í fátækum ríkjum, þorri þeirra í sunnanverðri Afríku og sunnanverðri Asíu, og 20% á átakasvæðum, einkum í Miðausturlöndum og norðanverðri Afríku. Óverulegur hluti af framlögum til mannúðarmála rennur til menntamála, eða 2,7%, segir í fréttinni.