Meirihluti ungmenna á flótta utan skóla - aðeins 1% í háskólanámi
Rúmlega 3,5 milljónir flóttabarna á aldrinum fimm til sautján ára hafa ekki fengið tækifæri til að sækja skóla á síðasta skólaári. Þetta kemur fram í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) sem birt var í gær. Um er að ræða 1,5 milljón flóttabarna sem fara ekki í grunnskóla og tvær milljónir flóttaunglinga sem eru ekki í framhaldsskóla, segir í skýrslunni.
"Af þeim 17,2 milljónum flóttamanna sem UNHCR hefur umsjón með er helmingurinn börn," sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi SÞ. "Menntun þessa unga fólks er lykilforsenda friðsamlegrar og sjálfbærrar þróunar landanna sem hafa tekið á móti þeim sem og heimalanda þeirra þegar þau geta snúið aftur. En í samanburði við önnur börn og unglinga á heimsvísu verður munurinn á tækifærum þeirra og flóttamanna sífellt meiri."
Skýrslan ber yfirskriftina: "Skilin eftir: Menntun flóttafólks í kreppu. Þar kemur fram að 91% barna í heiminum ganga í grunnskóla. Meðal flóttafólks er þessi tala mun lægri, aðeins 61% og í lágtekjulöndum er hún innan við 50 prósent. Þegar börn flóttafólks eldast aukast hindranirnar: aðeins 23% flóttaunglinga eru skráðir í framhaldsskóla, samanborið við 84% á heimsvísu. Í lágtekjulöndum geta aðeins 9% flóttamanna farið í framhaldsskóla. Á háskólastigi er ástandið alvarlegt. Á heimsvísu er skráning á háskólastigi 36%. Hjá flóttafólki kemst hlutfallið ekki upp fyrir 1 prósent, þrátt fyrir mikla aukningu í heildarfjölda vegna fjárfestinga í styrkjum og öðrum aðgerðum.
Alþjóðasamfélagið mun ekki ná markmiðum sínum um sjálfbæra þróun - 17 markmiðum sem miða að því að umbreyta heiminum fyrir árið 2030 - ef ekkert er gert til að snúa þessari þróun við, segir í skýrslunni. Markmið fjögur, "Tryggja gæðamenntun fyrir alla og stuðla að símenntun", mun ekki nást án þess að uppfylla menntunarþarfir viðkvæmra hópa, þar á meðal flóttafólks og veglauss fólks. Og grafið verður undan mörgum öðrum þróunarmarkmiðum sem snúast um heilbrigði, velmegun, jafnrétti og frið ef menntun er vanrækt.
Þetta er önnur ársskýrslan um menntamál frá UNHCR. Sú fyrsta, "Að missa af", var gefin út í tengslum við leiðtogafund allsherjarþings SÞ um flóttamenn og farandfólk í september síðastliðnum. New York-yfirlýsingin um flóttamenn og farandfólk sem undirrituð var af 193 löndum, setti menntun á oddinn í alþjóðlegum viðbrögðum. "Þrátt fyrir mikinn stuðning við New York-yfirlýsinguna er flóttafólk, einu ári seinna, í raunverulegri hættu á að vera skilið eftir hvað varðar menntun," sagði Grandi. "Að tryggja að flóttamenn hafi sanngjarnan aðgang að gæða menntun er á ábyrgð okkar allra. Það er kominn tími til að fara frá orðum til athafna."