Vöxtur í bláa lífhagkerfinu ein helsta forsenda Heimsmarkmiðanna
Meginþema ráðstefnunnar World Seafood Congress 2017 sem lýkur í Hörpu í dag er vöxtur í bláa lífhagkerfinu. Hugtakið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi. Áhersluatriðin eru nýsköpun í sjávarútvegi - nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga; matvælaöryggi - forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat; og í þriðja lagi matarheilindi - baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og -sölu á tímum netverslunar, matartengdrar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu.
Bláa lífhagkerfið og breytingar í vinnslu sjávarafurða voru meginstefin í ræðum á upphafsdegi World Seafood Congress 2017 (Heimsráðstefnu um sjávarfang) sem hófst í Hörpu á mánudag. Talið er að bláa lífhagkerfið sé eitt lykilatriðanna í því að ná Heimsmarkmiðunum en nú er sjávarfang aðeins um 5% af matvælum sem neytt er í heiminum.
Utanríkisráðherra á tveimur viðburðum
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í tveimur fundum í vikunni í tengslum við World Seafood Congress (WSC). "Nýtt tækifæri fyrir höfin" var yfirskrift hliðarviðburðar WSC í hádeginu í gær, þriðjudaginn 12. september, sem haldinn var í boði utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) og Matís í Rímusalnum.
Meginumræðuefni fundarins var heimsmarkmið SÞ nr. 14, sem fjallar um hafið: "Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun". Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti inngangsorð og ræddi áherslur íslenskra stjórnvalda í þessu samhengi. Að loknu ávarpinu tók dr. Manuel Barange, aðstoðarskrifstofustjóri fiskideildar FAO, við og stjórnaði pallborðsumræðum um 14. heimsmarkmiðið. Aðrir þátttakendur voru: Carey Bonnell, International Association of Fish Inspectors (IAFI), Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Mary Frances Davidson, Sjávarútvegsskólanum, og Sveinn Margeirsson, Matís.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur einnig inngangsorð á ráðherrafundi að lokinni World Seafood Congress en sá fundur fer fram í Háuloftum í Hörpu síðar í dag, kl. 13:30-16:30. Í fundinum taka þátt sendinefndir frá Bangladess, Grænhöfðaeyjum, Kostaríka, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador, Prince Edward-eyju í Kanada, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO).
Meginumræðuefni fundarins lýtur að því hvernig vinna megi að framgangi bláa hagkerfisins og nýta á bestan hátt möguleika hafsins (Promoting the Blue Bioeconomy - Making Best Use of Ocean Opportunities). Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í forsæti fyrir Íslands hönd á fyrri hluta fundarins, en þá mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra taka við. Ráðherrarnir og aðrir formenn sendinefnda munu ræða um bláa hagkerfið undir leiðsögn dr. Ray Hilborn prófessors í háskólanum í Washingtonfylki í Bandaríkjunum, sem fjallar um fiskveiðistjórnun, og dr. Önnu Kristínar Daníelsdóttur, yfirmanni rannsókna og nýsköpunar hjá MATÍS, sem ræðir um það, hvað þurfi til, til að skapa öflugt blátt hagkerfi.