Næstu ár í þróunarsamvinnu Íslands
Ísland hefur ásamt öðrum ríkjum tekið á sig skuldbindingar um að bregðast við þeim miklu áskorunum sem l úta að lofslagsbreytingum, fæðuóöryggi, ófriði, vannæringu, ójöfnuði, flóttamannavanda o.fl. með því að vinna að heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun bæði innanlands og í alþjóðasamstarfi til ársins 2030.
Heimsmarkmiðin og sjálfbærniáhersla þeirra eru undirstaða þróunarsamvinnunnar og hornsteinn í íslenskri utanríkisstefnu. Það felast tækifæri í því fyrir utanríkisþjónustuna að vinna að heimsmarkmiðunum og leggja þannig íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði uppfyllir Ísland pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og mun mögulega verða öðrum þjóðum fyrirmynd hvað varðar árangursríka þróunarsamvinnu og vandað verklag. Fyrirhugað er að utanríkisráðherra leggi fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2018-2022, byggða á heimsmarkmiðum SÞ, ásamt aðgerðaráætlun 2018-2019 þar sem framkvæmd stefnunnar verður útlistuð. Lögð er áhersla á að stefnan og framkvæmdin verði betur samþætt heildstæðri utanríkisstefnu Íslands og samningsgerð við framkvæmdaraðila falli innan gildistíma stefnunnar á hverjum tíma til þess að stuðla að hagvexti í þróunarríkjum.
Heimsmarkmiðin munu ekki nást fyrir 2030 nema með aukinni aðkomu einkageirans enda byggjast efnahagslegar framfarir fyrst og fremst á verðmæta- og atvinnusköpun atvinnulífsins. Það felast mikil tækifæri í að koma íslenskri sérþekkingu á framfæri og fyrir íslenskt atvinnulíf að leggja sitt af mörkum.
Ein af meginniðurstöðum jafningjarýni DAC er sú að þrátt fyrir að Ísland sé lítið framlagaríki í samanburði við önnur lönd hafi okkur tekist að forgangsraða og nýta styrkleika okkar á sviðum þar sem við búum yfir íslenskri sérþekkingu á skilvirkan hátt. Með því að leggja áherslu á þessi svið í þróunarsamvinnu Íslands felast tækifæri fyrir íslenskar stofnanir og fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til málaflokksins og taka þátt í verkefnum alþjóðasamfélagsins.
Íslensk sérþekking og reynsla nýtist fátækum þjóðum
Í starfinu fram undan verður lögð áhersla á að virkja atvinnulífið betur til þátttöku í þróunarstarfi í samræmi við ákall alþjóðasamfélagsins, hvetja til fjárfestinga og viðskipta, og tefla fram íslenskri þekkingu í hin stóru verkefni alþjóðastofnana og á vettvangi skóla Háskóla SÞ. Mikilvægt er að aukin áhersla verði lögð á atvinnulífið í framkvæmd nýrrar þróunarsamvinnustefnu næstu árin og að búið verði svo um hnútana að íslensk sérþekking og reynsla, t.d. hvað varðar nýtingu á jarðvarma og sjálfbærum sjávarútvegi, geti nýst í þágu fátækra þjóða. Í því samhengi er mikilvægt að utanríkisþjónustan efli samstarf sitt við atvinnulífið og skilvirk upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila innanlands er lykilatriði í því samhengi. Þessi markmið eru staðfest í nýlegri jafningjarýni DAC á þróunarsamvinnu Íslands þar sem fram kemur að íslensk stjórnvöld hafi náð miklum árangri í rekstri verkefna í samstarfi við atvinnulífið, sér í lagi á sviði nýtingar jarðvarma, og að færa megi þá nálgun á önnur svið þróunarsamvinnu. Því er lögð áhersla að sett verði á fót deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu sem sinnir þessum verkefnum í samvinnu við viðskiptaskrifstofu og Íslandsstofu.
Í dag sinna sendiráð Íslands í Afríku nær eingöngu verkefnum á sviði þróunarsamvinnu. Til þess að koma til móts við fyrrgreindar áherslur um að efla enn frekar samskipti við ríki í álfunni er mikilvægt að útvíkka starfsemi þeirra þannig að þau sinni fleiri sviðum, t.d. viðskiptum og stjórnmálum. Jafnframt er mikilvægt að undir þau falli umdæmislönd í Afríku og að kjörræðismönnum verði fjölgað.
Það felast tækifæri í því fyrir Ísland að uppfylla fyrrgreindar skyldur sínar með því að vera ábyrgt gjafaríki sem vinnur eftir bestu starfsvenjum á sviði þróunarsamvinnu. Það að vera ábyrgt og traust gjafaríki hefur stuðlað að alþjóðlegri viðurkenningu fyrir Ísland. Þetta var staðfest í nýlegri jafningjarýni DAC þar sem Ísland er hvatt til að halda áfram á sömu braut og bæta enn frekar. Í rýninni er að finna tilmæli um að gera þróunarsamvinnu Íslands enn skilvirkari og árangursríkari. Í samræmi við alþjóðlegar áherslur í þróunarsamvinnu er talið brýnt að efla upplýsingamiðlun um málaflokkinn. Með öflugri miðlun upplýsinga eykst eignarhald og skilningur almennings á málaflokknum. Þá er talin þörf á að endurskoða lög og reglugerðu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands m.a. til þess að samræma ákvæðin um fjármál þróunarsamvinnu við lög nr. 123/215 um opinber fjármál.
Formennska í kjördæmasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum
Að lokum ber að geta þess að árið 2019 mun Ísland taka við umfangsmikilli formennsku í kjördæmasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum og gegna því í tvö ár. Því er lögð áhersla á að sett verði á fót tímabundin deild innan þróunarsamvinnuskrifstofu til þess að sinna þessu umfangsmikla verkefni. Að lokum er lögð áhersla á að styrkja sendiráðið í París og fastanefndina í New York með útsendum fulltrúum á sviði þróunarsamvinnu. Ísland varð aðili að DAC árið 2013 og aðildarríki DAC eru með sérstakan DAC fulltrúa í sendiráðunum í París sem sinna nefndinni. Ísland hefur sinnt DAC frá þróunarsamvinnuskrifstofu en reynslan hefur sýnt að þörf er á því að hafa sérstakan DAC-fulltrúa sem staðsettur er í París þar sem starfið á sér stað. Einnig hefur verkefnum á sviði mannúðaraðstoðar fjölgað og álagið á fastanefndina í Genf aukist og því er ástæða til að huga að fulltrúinn í París sinni einnig verkefnum í Genf. Fastanefndin í New York fer með fyrirsvar gagnvart þeim stofnunum SÞ sem eru áherslustofnanir Íslands á sviði þróunarsamvinnu og ýmsum öðrum stofnunum og nefndum á þessu sviði sem Ísland leggur áherslu á. Fram til þessa hefur þessu að mestu verið sinnt af þróunarsamvinnuskrifstofu þar sem fastanefndin hefur ekki haft nægt bolmagn til þess að sinna málaflokknum sem skyldi. Því er lagt til að styrkja fastanefndina í New York."