Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Mafalala - litríkt hverfi í Mapútó með mikla sögu

https://youtu.be/QPJXc4ttvhc Ivan er ungur leiðsögumaður samtakanna IVERCA sem skipuleggur ferðir um Mafalala í Mapútó, einn elsta óskipulagða bæjarhlutann í höfuðborginni. Samtökin styðja einnig fjárhagslega aðgerðir til að varðveita sögulegar- og menningarlegar minjar í hverfinu. Mafalala er höfuðborg Mapútó, segir Ivan í upphafi ferðar, og vísar til þess að hér hafi draumurinn um sjálfstæði fæðst, hér hafi andspyrnan gegn nýlenduherrunum frá Portúgal verið litrík og kröftug, hér hafi verið vagga mósambískrar menningar, skáld og listamenn á hverju götuhorni, og hér hafi meðal annarra stórmenna fæðst knattspyrnusnillingurinn Eusébio de Silva Ferreira - svarti pardusinn.

Líkt og í öðrum óskipulögðum hverfum blökkumanna í Mapútó á nýlendutímanum máttu íbúarnir ekki byggja hús sín með múrsteinum eða úr öðru varanlegu efni; aðeins með bárujárni og timbri - og Mafalala með sína tuttugu þúsund íbúa ber þess enn merki að þetta er hverfi fátækra þar sem grunnþjónusta er takmörkuð, innviðir óburðugir og atvinnuleysi mikið. En á móti kemur að hér á þjóðarstoltið lögheimili, hér er menningar- og stjórnmálasaga við hvert fótmál, við heimsækjum fæðingarstað skáldkonunnar Noémia de Sousa og heyrum frásagnir af því hvernig Mafalala varð þungamiðja í uppreisn svarta fólksins gegn hvítu nýlenduherrunum í höfuðborginni sem þá hét Lourenço Marques. Hér í Mafalala fæddust tveir fyrstu forsetar þessa nýfrjálsa ríkis, þeir Samora Machel og Joaquim Chissano, hetjur í augum þjóðar sinnar fyrir þátt þeirra í baráttunni fyrir sjálfstæði landsins sem varð að veruleika í september 1975.

Hér í þessu litríka hverfi Mafalala er líka að finna listform sem tvinnar saman tónlist- og dans og kallast Marrabenta; þetta er blanda af þjóðlegum mósambískum töktum, portúgalskri þjóðlagatónlist og vinsælli vestrænni tónlist. Þetta er listform sem þykir lýsa vel þeirri fjölmenningu sem einkennt hefur hverfið frá upphafi og tekið fagnandi fólki með ólíkan bakgrunn.  

Komið með í skoðunarferð um Mafalala - horfið á kvikmyndabrotið með því að smella á myndina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta