Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tungumál sem lykill að samfélaginu og STEAM-greinar sem lykill að framþróun

Leggja þarf meiri áherslu á tungumálakennslu barna með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn á Norðurlöndum og efla hæfni norrænna þjóða þegar kemur að STEAM-greinum. Þetta kom fram þegar norrænir ráðherrar menntamála ræddu mikilvægi menntunar fyrir skóla án aðgreiningar og þróun í nemendasamsetningu. Fundurinn var haldinn í Reykjavík sem liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Öll börn fái jafna möguleika

Börnum og ungmennum með ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn á Norðurlöndum hefur fjölgað verulega á undanförnum áratugum. Þrátt fyrir áherslu á að tryggja að öll börn fái góða menntun þá er ljóst að betur má ef duga skal.

Rannsóknir sýna að börn af erlendum uppruna standa höllum fæti borið saman við innfædda í íslenskum jafnt sem norrænum samfélögum. Börn með annan tungumála- og menningarbakgrunn ná almennt verri árangri en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum og rannsóknir sýna að menntun hefur meira forvarnargildi en aðrir þættir þegar kemur að börnum í viðkvæmri stöðu.

„Við vitum að það er nauðsynlegt að læra tungumálið til þess að aðlagast og dafna í nýju samfélagi til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að tryggja þeim börnum sem flytja hingað góða möguleika á að læra íslensku,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Fundurinn skilaði góðum tillögum að verkefnum sem við getum unnið áfram með á Norrænum vettvangi með það að augnamiði að öll börn fái jafna möguleika. Þannig stuðlum við að farsæld þeirra og alls samfélagsins.“

Forgangsröðun í þágu STEAM-greina á Norðurlöndum

Auk mikilvægis tungumálakennslu og inngildingu fólks af erlendum uppruna í nám, starf og samfélag beindi fundurinn athygli sinni einnig að eflingu á hæfni norrænna þjóða í STEAM-greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði).

,,Til að gæta að samkeppnishæfni Norðurlandanna er mikilvægt að efla hæfni þjóðanna í STEAM-greinum. Raungreinar með listum kenna gagnrýna hugsun og nálgast lausnir á vandamálum með skapandi huga. Til þess að mæta helstu úrlausnarefnum samtímans og örum tæknibreytingum þarf að efla getu okkar til að takast á við þau,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Á vinnumarkaði er skortur á fólki með STEAM-hæfni. Unnið er að því með ýmsum leiðum, m.a. auknu samstarfi háskóla með fjárhagslegum hvötum, að fjölga háskólanemum í STEAM-greinum með því að virkja hópa sem hingað til hafa ekki sýnt slíku námi áhuga. Í dag hallar sérstaklega á ákveðna hópa þegar kemur að STEAM-greinum, t.d. konur, fólk af erlendum uppruna og þau sem búa í dreifðari byggðum, en á Íslandi er sérstaklega augljós halli eftir búsetu.

Í skýrslu frá árinu 2022 sem unnin var af norrænum samtökum verkfræðinga er bent á mikilvægi þess að stjórnvöld forgangsraði í þágu þeirrar hæfni sem umbreyting tæknigeirans kallar á, m.t.t. menntunar, rannsókna, grænnar þróunar og nýsköpunar. Samvinna þvert á landamæri og yfir alla geira samfélagsins er nauðsynleg til að slík forgangsröðun geti borið árangur. Samvinna og skapandi hugsun eru því lykilstef þegar kemur að viðbrögðum við þeirri hæfniþörf sem blasir við og ætti að liggja til grundvallar í námsframboði og námskrám háskólanna.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta