Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Rafræn stjórnsýsla og lýðræði, hagræðing og samfélagsmiðlar til umræðu á degi upplýsingatækninnar

Dagur upplýsingatækninnar var haldinn í dag þar sem flutt voru erindi og unnið í umræðuhópum og á síðari hluta dagsins var fjallað um fjölmörg atriði sem tengjast rafrænni stjórnsýslu og lýðræði, hagræðingu og öryggi kerfa. Innanríkisráðuneytið stendur að UT-deginum í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélagið.

UT-dagurinn var á vegum innanríkisráðuneytis, Skýrslutæknifélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
UT-dagurinn var á vegum innanríkisráðuneytis, Skýrslutæknifélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kastljósinu á UT-deginum var beint að því sem efst er á baugi í málaflokknum, svo sem rafrænu lýðræði, öryggi, hagræðingu, rafrænni þjónustu og endurnýtanlegum gögnum. Þá var rætt um mælikvarða fyrir opinbera vefi. Fjallað var um efnið í sex vinnustofum þar sem flutt voru erindi og í kjölfarið voru umræður. Sjá má erindin á vef Skýrslutæknifélagsins.

  • Lýðræðisleg virkni og notkun samfélagsmiðla á opinberum vefjum
  • Tölvuský og arkitektúr kerfa – tækifæri til hagræðingar og aukinnar samvirkni
  • Samstarf ríkis og sveitarfélaga um rafræna þjónustu
  • Hvernig tryggjum við öryggi Internetsins og opinberra kerfa?
  • Hvað er spunnið í opinbera vefi? - Endurskoðun á mælikvörðum fyrir opinbera vefi
  • Opin og endurnýtanleg gögn

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, ávarpaði vinnustofurnar en alls sátu þær nokkuð á annað hundrað manns.

Ragnhihldur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri ávarpaði málstofur UT-dagsins.

Byggja-tengja-lýðræðisvæða

Á síðari hluta UT-dagsins var efnt til fundar innanríkisráðuneytis með hópi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga ásamt fulltrúum hagsmunaaðila um nýja stefnu um upplýsingasamfélagið. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði vinnufundinn í upphafi og sagði nýja stefnu um upplýsingasamfélagið til fimm ára í undirbúningi sem væri rökrétt framhald af stefnunni netríkið Ísland 2008 til 2012 sem rynni út um næstu áramót. Sagði hann stefnt að því að leggja fram hina nýju stefnu sem þingsályktunartillögu til Alþingis fljótlega á næsta ári. Ráðherra minntist einnig á tillögur stýrihóps um rafræna stjórnsýslu undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar sem meðal annars legði til að Þjóðskrá Íslands yrði falið að annast auðkenningarþjónustu og annast þróunarstarf á því sviði. Í lokin sagði ráðherra að hlustað yrði á tillögur vinnufundarins og annarra sem leggja vildu fram ábendingar varðandi nýja upplýsingastefnu sem lýsa mætti með yfirskriftinni að byggja, tengja og lýðræðisvæða.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði vinnufund UT-dagsins.Þátttakendum í vinnufundinum var síðan skipt í hópa til að fjalla um ýmis efni undir þessum heitum: Opin og rafræn stjórnsýsla, rafrænt lýðræði, arkitektúr, öryggi og samvirkni kerfa, rafræn þjónusta og hagræðing og skilvirkni. Var lagt fyrir þátttakendur að vinna út frá þeirri sviðsmynd að runninn væri upp UT-dagur í árslok 2017, við lok gildistíma nýrrar upplýsingastefnu og átti að leggja fram verkefni sem unnið hefði verið að á þeim tíma og hvernig mætti forgangsraða þeim.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði vinnufund UT-dagsins.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta