Aðgangur fyrir íslenskan eldisfisk á Kínamarkað orðinn að veruleika
Fyrsta sendingin af íslenskum laxi er nú lögð af stað með flugi til Kína í kjölfar gildistöku samkomulags íslenskra og kínverskra stjórnvalda sem heimilar útflutning íslensks eldisfisks á Kínamarkað. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Ni Yuefeng, tollamálaráðherra Kína undirrituðu samkomulagið í heimsókn þess síðarnefnda til Íslands síðastliðinn maí. Við tók tæknileg undirbúningsvinna íslenskra og kínverskra sérfræðingar á sviði matvælaeftirlits sem nú hefur loks verið til lykta leidd.
Eftirspurn eftir eldisfiski og þá sérstaklega laxi hefur vaxið ört í Kína undanfarin ár. Kínverskir neytendur greiða hátt verð fyrir gæða fiskeldisafurðir og tollfríðindi sem íslenskir útflytjendur njóta á Kínamarkaði á grundvelli fríverslunarsamnings ríkjanna eykur samkeppnishæfni þeirra enn fremur. Því er um töluvert hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf að ræða.
Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi undanfarin ár, heildarframleiðslumagn íslenskra fiskeldisfyrirtækja hefur fjórfaldast sl. áratug og nam útflutningsverðmæti fiskeldisafurða 13,1 milljarði króna árið 2018.