Ráðherra opnar kosning2003.is
Fréttatilkynning
Nr. 20/ 2002
Dómsmálaráðherra opnar upplýsingavef
fyrir alþingiskosningarnar 2003
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið opnaði upplýsingavef í dag, mánudaginn 11. nóvember, vegna alþingiskosninganna sem fram fara eftir hálft ár, 10. maí árið 2003. Þetta er í fyrsta sinn sem upplýsingar af hálfu hins opinbera vegna alþingiskosninga eru settar fram með þessum hætti.
Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, opnaði upplýsingavefinn og sagði af því tilefni að með vefnum væri stigið: "enn eitt skref í átt til þess að gera upplýsingar stjórnvalda enn aðgengilegri öllum almenningi."
Á upplýsingavefnum, sem hefur slóðina www.kosning2003.is, er að finna fræðandi og hagnýtar upplýsingar um atriði sem lúta að næstu alþingiskosningum. Upplýsingarnar eiga að nýtast almennum kjósendum, stjórnmálasamtökum og þeim sem vinna að kosningunum, t.d.
varðandi kjörskrá, utankjörfundaratkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslu á kjördegi. Fjallað er um lög og reglugerðir, kjósendur, framboð, framkvæmd kosninga og tölulegar
upplýsingar. Kostur gefst á því að skoða breytta kjördæmaskipan í myndrænni framsetningu með skýringum. Þegar nær dregur kosningum verður hægt að fá upplýsingar um framboðslista og kjörstaði. Boðið er upp á að senda fyrirspurnir til ráðuneytisins um hvaðeina sem lýtur að framkvæmd alþingiskosninganna.
Útlit og kennimerki upplýsingavefsins er hannað af auglýsingastofunni Fastlandi og er vefurinn settur upp af Hugsmiðjunni. Hann er gerður með aðgengi sjónskertra í huga.
11. nóvember 2002.