Ráðherra sækir fund dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna 15 auk Íslands og Noregs
Fréttatilkynning
Nr. 24/ 2002
Í dag sótti Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra fund dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna 15 auk Íslands og Noregs á vettvangi samsettu nefndarinnar innan Schengen samstarfsins.
Á fundi ráðherranna var gengið frá því með hvaða hætti nýju Evrópusambandsríkin fá aðild að Schengen samstarfinu. Verður það gert í tveimur skrefum. Við inngöngu í sambandið taka gildi þau ákvæði Schengen samningsins sem lúta að samvinnu á sviði fíkniefnamála og sakamála. Persónueftirlit verður á hinn bóginn ekki fellt niður á landamærum gömlu og nýju ESB ríkjanna fyrr en að lokinni hefðbundinni Schengen úttekt á þeim, með sama hætti og þegar Norðurlöndin gerðust aðilar að Schengen samstarfinu. Í slíkri úttekt felst að þessi nýju Schengen ríki þurfa að sýna fram á að þau séu í stakk búin til að halda uppi landamæraeftirliti sem fullnægir tilteknum kröfum og til að gefa út samræmdar Schengen vegabréfsáritanir, reka SIS upplýsingakerfið o.fl. Ekki er gert ráð fyrir að þetta síðara skref verði stigið fyrr en eftir nokkur ár.
Á meðal annarra mála sem til umræðu voru á fundinum má nefna markvissari landamæragæslu og baráttu gegn ólöglegum innflutningi fólks. Þá voru samþykktar viðmiðunarreglur um hvernig ríkin geti notið gagnkvæmrar aðstoðar frá þeim lögreglumönnum einstakra ríkja sem sendir hafa verið til starfa í ríkjum utan Evrópu og reglur sem taka áritanaútgáfu á landamærum fastari tökum en gert hefur verið.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
19. desember 2002.