Áætluð framlög úr Jöfnunarsjóði árið 2019 vegna grunnskólastarfs
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt þrjár tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áætlaðar úthlutanir framlaga á árinu 2019. Um er að ræða áætluð framlög vegna reksturs grunnskóla, sérþarfa fatlaðra nemenda og nýbúafræðslu.
Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla
Ráðherra hefur samþykkt tillögu um áætlaða heildarúthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla á árinu 2019, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 351/2002, að fjárhæð samtals 9.190 m.kr. Þar af eru 60 m.kr. vegna áætlaðs uppgjörs framlaga ársins 2017. Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í febrúar 2019 á grundvelli íbúafjölda 1. janúar 2019 og endurskoðunar á áætluðum útsvarstekjum sveitarfélaga á árinu 2019.
Framlögin eru greidd mánaðarlega og taka mið af innkomnum tekjum sjóðsins af 0,77% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar.
Framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda
Þá hefur ráðherra samþykkt tillögu um áætlaða úthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á árinu 2019, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 351/2002, að fjárhæð 2.465 m.kr. Þar af nemur framlag til Reykjavíkurborgar vegna reksturs sérskóla og sérdeilda 1.426 m.kr. Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í ágúst 2019.
Framlögin eru greidd mánaðarlega með jöfnum greiðslum.
Framlög vegna nýbúafræðslu
Loks hefur ráðherra samþykkt tillögu um áætlaða úthlutun framlaga vegna nýbúafræðslu á árinu 2019, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2022, að fjárhæð 351 m.kr.
Áætluð almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla 2019