HVIN kveður stimpilklukkuna fyrst ráðuneyta
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) hefur formlega afnumið stimpilklukkuna, fyrst ráðuneyta, að frumkvæði ráðherra. Áður hefur ráðherra tilkynnt að öll störf í ráðuneytinu verði auglýst án staðsetningar. Báðar þessar aðgerðir eru til marks um að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sé nútímalegur vinnustaður þar sem áherslur eru í takt við tímann, t.d. þegar kemur að sveigjanleika í starfi. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt fram á að starfsfólk vill aukinn sveigjanleika á vinnustöðum, bæði varðandi hvenær dags vinna er unnin og hvaðan hún er unnin.
Stimpilklukkan hefur þjónað sínum tilgangi í gegnum tíðina og gerir það réttilega enn á mörgum stöðum. Undanfarin misseri hefur þó borið á umræðu um það hvort mæling á unnum klukkustundum sé endilega besta leiðin til að meta afköst starfsmanna og gæði vinnu, og þá sérstaklega í þekkingarstörfum eins og þeim sem unnin eru innan ráðuneyta.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við ráðuneytisstjóra og rekstrarstjóra, hefur því tekið það tímamótaskref að kveðja stimpilklukkuna fyrst ráðuneyta. Í takt við fleyg orð fyrsta mannsins á tunglinu má segja að afnám stimpilklukkunnar sé lítið, þó mikilvægt, skref í uppbyggingu nýs verklags í nýju ráðuneyti en risastórt skref fyrir Stjórnarráð Íslands í átt að nútímalegum leiðum í stjórnun og skipulagi.