Hoppa yfir valmynd
14. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 343/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 343/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20090005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. september 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. ágúst 2020, um að synja henni um dvalarleyfi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna vistráðningar þann 29. september 2018 með gildistíma til 28. september 2019. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi en var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. september s.á. Kærandi sótti að nýju um dvalarleyfi vegna vistráðningar þann 6. ágúst 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. ágúst 2020, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 4. september sl. Þann 14. september sl. barst kærunefnd greinargerð ásamt meðmælabréfi frá umboðsmanni kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til ákvæðis 68. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið 25 ára þann [...] en lagt fram dvalarleyfisumsókn þann 6. ágúst sl. Væri því ljóst að hún uppfyllti ekki aldursskilyrði 1. mgr. 68. gr. laganna og var umsókninni því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar umboðsmaður kæranda til þess að kærandi sé fædd [...] og sé því 25 ára síðan í [...] sl. Áður en umsóknarferlið hófst hafi umboðsmaður hennar haft samband við Útlendingastofnun í tvígang til að afla upplýsinga um ýmislegt hvað varðaði fylgigögn með umsókn, þ. á m. hvort það væri í lagi að kærandi væri orðin 25 ára. Hafi starfsmaður Útlendingastofnunar tjáð umboðsmanninum að það væri í lagi þar sem hún væri 25 ára þegar umsóknin væri lögð inn. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar varðandi aldur kæranda við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Vísar kærandi einnig til þess að á heimasíðu AuPair World sé tekið fram að stúlkurnar verði að vera 18-25 ára þegar sótt sé um vistráðningu. Ennfremur hafi kærandi fengið bestu meðmæli frá fyrri vistfjölskyldu á Íslandi og aðlagast vel að íslensku samfélagi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 68. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna vistráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu á heimili fjölskyldu hér á landi. Umsækjandi þarf að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. og má ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna vistráðningar á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki aldursskilyrði ákvæðisins þar sem hún hefði orðið 25 ára áður en dvalarleyfisumsókn var lögð fram.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli samnings um vistráðningu á heimili fjölskyldu hér á landi. Í ákvæðinu er meðal annars kveðið á um að umsækjandi megi „ekki vera yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára þegar umsókn er lögð fram“. Samkvæmt 12. gr. d eldri laga um útlendinga nr. 96/2002, sem leyst voru af hólmi með gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016, voru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna vistráðningar m.a. að útlendingur væri ekki yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára. Ákvæðið kom inn í eldri lög um útlendinga með lögfestingu laga nr. 86/2008 um breyting á lögum um útlendinga, sbr. 10. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til laga nr. 86/2008 kom fram að lagt væri til að efri aldursmörkin yrðu miðuð við að sótt væri um leyfi áður en útlendingur yrði 25 ára þannig að tryggt væri að hann lyki vistinni á 26. aldursári. Þá kemur orðalagið „eldri en“ tiltekinn aldur fram í fleiri ákvæðum laga um útlendinga. Í 1. mgr. 56. gr., 1. mgr. 65. gr., 1. mgr. 67. gr. og 1. mgr. 79. gr. laganna er vísað til þess að einstaklingur þurfi að vera „eldri en 18 ára“ til að geta sótt um tiltekin réttindi. Kærunefnd hefur í framkvæmd litið svo á að orðalagið „eldri en 18 ára“ eigi við um þá einstaklinga sem náð hafa 18 ára aldri.

Í ljósi þess að í 1. mgr. 68. gr. laga um útlendinga er skýrlega mælt fyrir um að umsækjandi megi ekki vera „eldri en 25 ára“ þegar umsókn er lögð fram, forsögu ákvæðisins og innra samræmis við túlkun hugtaka í lögum um útlendinga er það niðurstaða kærunefndar að umrætt orðalag skuli túlkað á þann veg að ekki skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins í þeim tilvikum þar sem umsækjandi hefur náð 25 ára aldri. Hefur nefndin komist að sömu niðurstöðu í úrskurði sínum í máli nr. 626/2017. Þar sem kærandi var orðin 25 ára þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna vistráðningar uppfyllir hún ekki skilyrði 68. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð vísar umboðsmaður kæranda m.a. til þess að starfsmaður Útlendingastofnunar hafi tjáð henni í síma að það væri í lagi að kærandi væri orðin 25 ára vegna umsóknar um dvalarleyfi vistráðningu. Jafnvel þótt kærandi kunni að hafa tilteknar væntingar um að henni yrði veitt dvalarleyfi vegna vistráðningar á 26. aldursári tekur kærunefnd fram að villandi leiðbeiningar stjórnvalds geta ekki verið grundvöllur þess að veitt sé dvalarleyfi í bága við ákvæði laga um útlendinga. Þá hafa upplýsingar á framangreindri vefsíðu ekkert gildi við úrlausn málsins.

Að framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Hilmar Magnússon                                                                                           Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta