Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fréttatilkynning um viðbrögð við atvinnuleysi

Atvinnuleysi hefur í vetur aukist mun hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Um þessar mundir eru um 6.200 einstaklingar skráðir atvinnulausir sem eru um 4% af vinnuaflinu. Nýboðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar í flýtingu opinberra framkvæmda munu fljótt breyta þessari þróun og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi munu á næstu árum kalla eftir miklu vinnuafli.

Í ljósi atvinnuástandsins hafa Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingasjóður að undanförnu aukið mjög framboð vinnumarkaðsúrræða til atvinnulausra en skipulagning þeirra og umsjón er á hendi svæðisvinnumiðlana sem heyra undir Vinnumálstofnun og eru staðsettar í öllum landsfjórðungum.

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur á þessu ári 112 milljónir króna til ráðstöfunar til vinnumarkaðsúrræða og á næstu vikum verður lögð sérstök áhersla á að kynna hin svokölluðu átaksverkefni (sérstök verkefni á vegum svæðisvinnumiðlana) fyrir stofnunum ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækjanna í landinu. Þetta úrræði miðast við að fá stofnanir og fyrirtæki til að ráða til sín starfsfólk af atvinnuleysisskrá til þess að sinna sérstökum verkefnum sem ella hefðu ekki verið unnin. Kynningarbæklingar hafa verið gefnir út um þetta og önnur úrræði svæðisvinnumiðlana og verður þeim dreift markvisst til viðskiptavina.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að á næstu mánuðum muni um þrjú þúsund manns sem skráðir eru atvinnulausir taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum fyrir atbeina svæðisvinnumiðlana.

Fyrir utan úrræði sem beinlínis er beint að atvinnulausum hefur félagsmálaráðuneytið í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð lagt stóraukna fjármuni í starfsmenntun bæði með starfsemi Starfsmenntaráðs félagsmálaráðneytisins og með stuðningi við fræðslusjóði verkafólks og sjómanna, Starfsafl, Landsmennt og Sjómennt. Þessir sjóðir eru nú að styðja margháttaða fræðslustarfsemi sem tvímælalaust styrkir stöðu þeirra á vinnumarkaði sem hennar njóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta