Hoppa yfir valmynd
3. október 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnumálaráðherrar OECD ríkja funda

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, ásamt fastafulltrúum Íslands hjá OECD.
OECD

Árni Magnússon félagsmálaráðherra sat í vikunni fund vinnumálaráðherra OECD ríkjanna. Fundurinn var haldinn í París dagana 29. til 30. september. Meginefni fundarins var umfjöllun um stöðu vinnumála í OECD ríkjunum, leiðir til að draga úr atvinnuleysi og auka atvinnuþátttöku ýmissa hópa sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Ráðherrarnir samþykktu ályktun þar sem lýst er yfir vilja til að vinna markvisst að því að sporna gegn atvinnuleysi og fjölga úrræðum á þeim vettvangi.

Atvinnuleysi í OECD ríkjunum er áætlað að meðaltali um 7% í ár. Það mun því aukast lítillega frá síðasta ári þegar það var mældist 6,7%. Ástanda vinnumála einstakra OECD ríkja er mismunandi, það er einna mest í Póllandi, þar sem reiknað er með 20% atvinnuleysi í ár. Minnst atvinnuleysi er hins vegar í Mexíkó, gangi spár eftir fyrir árið 2003, en þar er gert ráð fyrir 2,2% atvinnuleysi á árinu. Hér á landi er áætlað að atvinnuleysi verði um 3,3% í ár.

Á fundinum var fjallað um ýmis úrræði sem einstök ríki hafa gripið til, bæði til að draga úr atvinnuleysi og til að sporna gegn frekara atvinnuleysi, m.a. með endurskoðun vinnumarkaðsaðgerða og atvinnuleysistryggingakerfa, og eins með því að skapa ný störf.


Þrátt fyrir að atvinnuleysi á Íslandi sé með því lægsta sem gerist meðal OECD ríkja er engu að síður þörf á að leita allra leiða til að draga úr atvinnuleysi hér á landi. Félagsmálaráðherra hyggst nýta sér góða reynslu margra annarra landa á þessu sviði við frekari endurskoðun á atvinnuleysistryggingum og vinnumarkaðsaðgerðum hér á landi, svo sem reynslu Dana og Íra.

Ráðherrarnir samþykktu á fundinum ályktun um aðgerðir til að sporna gegn atvinnuleysi og styrkja stöðu einstakra hópa á vinnumarkaði. Meðal annars segir í ályktun vinnumálaráðherranna:

  • Aukna áherslu þarf að leggja á baráttuna við atvinnuleysið, sem hefur aukist í meirihluta aðildarríkja og hefur mest áhrif á þá sem standa höllum fæti á vinnumarkaði. Einnig ber að beina athyglinni í auknum mæli að þeim hópum í samfélaginu þar sem atvinnuþátttaka er lítil.
  • Markmiðið er að auka atvinnumöguleika þeirra og finna leiðir til að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði almennt.
  • Árangur í þessum efnum mun bæta stöðu og framkvæmd vinnumála, tryggja félagslega velmegun og treysta undirstöður velferðarkerfis.

Unnt er að kynna sér nánar dagskrá fundarins, umfjöllunarefni og ályktun vinnumálaráðherranna á eftirfarandi heimasíðu OECD:

Vinnumálaráðherrafundur OECD ríkjanna

Ályktun vinnumálaráðherranna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta