Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2011 Forsætisráðuneytið

A-363/2011B. Úrskurður frá 27. apríl 2011

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 27. apríl 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-363/2011B.

 

Málsatvik

Með bréfi, dags. 18. apríl 2011, fór efnahags- og viðskiptaráðuneytið þess á leit við úrskurðarnefnd um upplýsingamál, með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, að réttaráhrifum úrskurðar nr. A-363/2011, sem kveðinn var upp 15. sama mánaðar, yrði frestað. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að efnahags- og viðskiptaráðuneytinu bæri að afhenda kæranda [X] drög frá 13. janúar 2008 að frumvarpi um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999.

 

Í erindi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá 18. apríl er gerð sú krafa að réttaráhrifum úrskurðar verði frestað. Í erindinu eru ekki færð rök fyrir þeirri kröfu en vísað til þess að þau muni berast úrskurðarnefndinni innan nokkurra daga.

 

Með tölvupósti 18. apríl upplýsti efnahags- og viðskiptaráðuneytið gagnabeiðanda um að sett hafi verið fram krafa um frestun réttaráhrifa. Sama dag barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál tölvupóstur gagnabeiðanda þar sem lögð var áhersla á að umbeðin gögn yrðu afhent sem fyrst.

 

Með bréfi, dags. 27. apríl, barst úrskurðarnefndinni rökstuðningur efnahags- og viðskiptaráðuneytisins fyrir beiðni um frestun réttaráhrifa. Úrskurðarnefndin hafði áður tilkynnt ráðuneytinu að bærist ekki rökstuðningur fyrir kl. 14 þann dag myndi úrskurður vera kveðinn upp án efnislegra raka ráðuneytisins. Í rökstuðningi ráðuneytisins kemur m.a. fram:

 

„Að mati ráðuneytisins geymir það skjal sem um ræðir upplýsingar sem geta haft þýðingu fyrir aðrar ráðstafanir af hálfu stjórnvalda en þær sem lúta að framlagningu frumvarps til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á Alþingi. Uppbygging traust fjármálakerfis er margþætt verkefni og er umrætt frumvarp aðeins einn þáttur í stærri heildarmynd. Því er ekki hægt að horfa á umrætt skjal eingöngu í samhengi við lög um innstæðutryggingar. Eins og fram kemur í greinargerð með 4. tölulið 6. gr. upplýsingalaga er gert ráð fyrir því að stjórnvöld meti sjálfstætt hvaða afleiðingar aðgangur að upplýsingum myndu hafa og ef að líkur séu á því að aðgangur skerðist, þó ekki sé nema að litlu leyti, eigi stjórnvaldi að öllu jöfnu að vera heimilt að synja um aðgang. Ráðuneytið hefur farið í þetta mat varðandi umrætt skjal og er niðurstaðan sú að það geti skaðað almannahagsmuni að veita aðgang að skjalinu. Mat nefndarinnar er hins vegar annað og því telur ráðuneytið mikla hagsmuni af því að fá réttaráhrifum frestað og fá skorið úr málinu fyrir dómstólum.

 

Ráðuneytið telur að umrætt gagn uppfylli skilyrði þess að teljast vinnuskjal í skilningi upplýsingalaga. Ljóst er að ráðuneytin skipa oft starfshópa eða nefndir sem vinna að hinum ýmsu málum. Eru þeir iðulega skipaðir aðilum frá fleiri en einu ráðuneyti sem og utanaðkomandi sérfræðingum. Þetta vinnulag hefur ýmsa kosti í för með sér enda eru ráðuneytin á Íslandi fámenn og því oft þörf á aukinni þekkingu úr öðrum ráðuneytum eða utanfrá. Þá er þetta fyrirkomulag oft notað til að fá hagsmunaaðila að borðinu bæði vegna reynslu og þekkingar í málum sem og til að skapa skilning og sátt í ýmsum málum. Þessir vinnuhópar eru iðulega skipaðir af ráðherra og er ætlað að vinna að afmörkuðum verkefnum t.d. að gera frumvarpsdrög. Ráðuneytið telur að ekki sé hægt að flokka slíka vinnuhópa eða nefndir sem sjálfstæðar stjórnsýslunefndir enda er þeim ekki ætlað að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur aðila. Ráðuneytið telur hins vegar að líta beri á slíka vinnuhópa sem hluta af starfsemi þess ráðuneytis sem skipar hópinn og þar af leiðandi að þau skjöl sem unnin eru af slíkum hópum teljist vinnuskjöl ráðuneytis.

 

Ráðuneytið telur að hér sé um að ræða verulega hagsmuni, annars vegar fyrir almannahag og hins vegar fyrir stjórnsýsluna í heild sem mikilvægt sé að niðurstaða dómstóla fáist um.“

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests en órökstudd. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur sér heimilt að kveða upp úrskurð vegna beiðni um frestun réttaráhrifa án rökstuðnings stjórnvalds berist sá rökstuðningur ekki samhliða beiðni um frestun réttaráhrifa innan þess frest sem tilvitnað lagákvæði kveður á um. Rökstuðningur fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa barst úrskurðarnefndinni áður en úrskurður er kveðinn upp og kom því ekki til þess að úrskurður um frestun réttaráhrifa yrði kveðinn upp án rökstuðnings ráðuneytisins.

 

Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“ Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum nr. A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B, A-277/2008B og A-307/2009B lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu að verða skýrð af dómstólum.

 

Í úrskurði í máli nr. A-363/2011 tók úrskurðarnefndin frumvarpsdrögin sem hér um ræðir til sjálfstæðrar skoðunar m.t.t. þess hvort veita bæri að þeim aðgang skv. upplýsingalögum. Var niðurstaða nefndarinnar sú að ekki yrði séð að skilyrði 4. tölul. 6. gr. laganna um að heimilt væri að synja um aðgang að upplýsingum um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði ættu ennþá við eins og nefndin taldi í máli nr. A-310/2009 sem varðaði sömu gögn. Nefndin tók fram að á grundvelli 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga skal veita aðgang að gögnum sem 4. tölul. 6. gr. laganna tekur til jafnskjótt og ráðstöfun er að fullu lokið nema aðrar undanþágur laganna eigi við. Rökstuðningur efnahags- og viðskiptaráðuneytisins breytir ekki því mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál enda ekkert sem fram kemur í þeim rökum sem skýrir að hvaða leyti hagsmunir almennings kunni að skaðast við það að skjalið verði aðgengilegt almenningi.

 

Þá tók nefndin til skoðunar hvort skjalið teldist vinnuskjal í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga en taldi að skjalið hefði ekki verið einvörðungu til afnota fyrir stjórnvaldið eins og lagaákvæðið gerir kröfu um. Rökstuðningur efnahags- og viðskiptaráðuneytisins breytir ekki því mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá ber að árétta að í úrskurði í máli nr. A-363/2011 sem hér um ræðir tekur úrskurðarnefndin ekki afstöðu til þess hvort nefnd er fara átti yfir það hvernig innleiðingu Íslands á tilskipun Evrópusambandsins um innlánstryggingar væri háttað teldist sjálfstæð stjórnsýslunefnd eins og ráðuneytið virðist byggja á í rökstuðningi sínum fyrir frestun á réttaráhrifum þess úrskurðar.  

 

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar hennar frá 15. apríl sl. Ber því að hafna kröfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þar að lútandi.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu efnahags- og viðskiptaráðuneytis, um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. A-363/2011, frá 15. apríl 2011, er hafnað.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

Helga Guðrún Johnson                                                                                       Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta