Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2011 Forsætisráðuneytið

A-375/2011. Úrskurður frá 28. júní 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. júní 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-375/2011.

 

Kæruefni

Með tölvubréfi, dags. 2. maí 2011, kærði [...] þá afgreiðslu Fjölbrautaskólans við Ármúla frá sama degi að synja honum um aðgang að prófum í íslensku 103, 203, 303, 403 og 503 frá vorprófi árið 2003 til og með jólaprófi 2010 nema hann greiði kr. 500,- fyrir hvert próf.

Málsatvik og málsmeðferð

Í tölvubréfum aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla vegna beiðni kæranda um afhendingu tiltekinna prófa í íslensku, dags. 29. apríl og 2. maí, kemur fram að um sé að ræða 80 próf og verð fyrir hvert þeirra sé kr. 500,-. Hvað gjaldtöku varðar vísar aðstoðarskólameistari til 12. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og segir ljóst að heimilt sé að mæta öllum þeim kostnaði sem hljótist af afhendingu prófanna. Um sé að ræða sama verð og nemendur borgi fyrir afrit prófa og kærandi geti ekki fengið prófin á öðru verði en nemendur.

Kærandi vísar til þess í kæru, dags. 2. maí, að hann telji gjaldtökuna andstæða upplýsingalögum. Í því sambandi vísar hann til gjaldskrár nr. 306/2009 sem sett var samkvæmt heimild í 4. mgr. 12. gr. upplýsingalaga. Í 2. gr. gjaldskrárinnar komi fram að fyrir ljósrit eða afrit af skjölum sé heimilt að krefjast kr. 20 fyrir hverja ljósritaða blaðsíðu í stærðinni A4 eða A5, allt að 100 síðum, en kr. 15 fyrir ljósrit af hverri blaðsíðu umfram það.

Kæran var send Fjölbrautaskólanum við Ármúla með bréfi, dags. 12. maí, og skólanum veittur frestur til 20. maí til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að rökstutt yrði hvar mætti finna lagaheimild fyrir gjaldtöku sem ekki ætti sér stoð í gjaldskrá nr. 306/2009. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests. Svör Fjölbrautaskólans við Ármúla bárust með bréfi, dags. 25. maí. Úrskurðarnefndin hafði áður framlengt frest skólans til athugasemda sem því nemur. Í athugasemdum skólans sem ritaðar eru af skólameistara kemur m.a. fram:

„Nemendur og aðrir geta keypt gömul próf í FÁ. Þeir sem það gera greiða 500 kr fyrir hvert próf samkvæmt gjaldskrá sem skólanefnd setti.

Eftirfarandi rökstuðningur er fyrir gjaldtökunni:
1. Prófin eru að meðaltali 10 -15 bls. (meðfylgjandi próf í ÍSL103 er 13. bls.).
2. Vinna við að finna próf, losa það í sundur, ljósrita og ganga frá því aftur á sinn stað, er a.m.k. 5-10 mínútur (prófin eru geymd í skjalageymslu í kjallara skólans). Við teljum að kostnaðurinn við þá vinnu sé a.m.k. um 500 kr.
3. Þar ofan á bætist síðan kostnaður við ljósritunina sjálfa (20kr/bls. skv. gjaldskrá nr. 306/2009) að meðaltali ca. 250 kr.
4. Við teljum því að 500 kr séu sanngjarnt verð fyrir afhendingu þessara ljósrita.

Það kemur ekki til greina að afhenda [...] próf á lægra verði en nemendur skólans greiða samkvæmt samþykktri gjaldskrá. Slíkt væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna úrskurðarnefndin vill fá öll þessi ca. 200 próf. Skólinn er ekki að banna aðgang að þessum skjölum. Ég fer því fram á að nefndin láti nægja að fá eitt eintak af prófi sem fylgir með þessu bréfi.
...

Gjaldskrá skólans er að mínu mati í ágætis samræmi við 12. grein upplýsingalaganna, þar sem heimilað er að mæta öllum kostnaði sem hlýst af ljósrituninni. Það er tvítekið í lagagreininni. Gjaldskrá skólans var sett löngu áður en gjaldskrá forsætisráðuneytisins var sett.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.


 
Niðurstaða

Eins og fram hefur komið lýtur kæra máls þessa að afgreiðslu Fjölbrautaskólans við Ármúla á beiðni [...] um afhendingu prófa í íslensku 103, 203, 303, 403 og 503 frá vorprófi árið 2003 til og með jólaprófi 2010. Skólinn batt afhendingu prófanna því skilyrði að greiddar yrðu kr. 500,- fyrir hvert próf en kveðst ekki synja um afhendingu þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur hins vegar að líta verði svo á að sú afgreiðsla skólans hafi falið í sér synjun á afhendingu prófanna í skilningi upplýsingalaga.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Fjölbrautaskólinn við Ármúla er lægra sett stjórnvald sem lýtur boðvaldi mennta- og menningarmálaráðherra. Skólinn fellur undir gildissvið laganna.

Í 12. gr. upplýsingalaga er fjallað um ljósritun eða afritun gagna. Í 4. mgr. þeirrar greinar segir að forsætisráðherra ákveði með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir afrit gagna sem veitt eru samkvæmt lögunum. Þá kemur þar fram að heimilt sé með gjaldskrá að mæta öllum kostnaði sem hlýst af ljósritun eða afritun gagna á grundvelli laganna. Þann 23. mars 2009 setti forsætisráðherra gjaldskrá nr. 306/2009 fyrir ljósrit eða afrit sem veitt eru á grundvelli upplýsingalaga. Gjaldskráin leysti af hólmi eldri gjaldskrá um sama efni nr. 838/2004. Í 1. gr. gjaldskrár nr. 306/2009 kemur fram að hún gildi fyrir ljósrit eða afrit af gögnum sem afhent eru vegna beiðni á grundvelli upplýsingalaga. Þá er í 2. gr. fjallað um gjaldtöku fyrir ljósrit eða afrit af skjölum og segir eftirfarandi í 1. mgr.: „Fyrir ljósrit eða afrit af skjölum er heimilt að krefjast kr. 20 fyrir hverja blaðsíðu í stærðinni A4 eða A5, sem er ljósrituð, allt að 100 síðum, en kr. 15 fyrir ljósrit af hverri blaðsíðu umfram það.“

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. upplýsingalaga skal gjaldtaka stjórnvalda vegna kostnaðar við afhendingu afrita af gögnum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga sækja stoð í umrædda gjaldskrá forsætisráðherra. Stjórnvöldum er óheimilt að gera það að skilyrði fyrir afhendingu gagna samkvæmt upplýsingalögum að greitt sé umfram það sem gjaldskráin mælir fyrir um. Orðalag í niðurlagi 4. mgr. 12. gr. upplýsinglaga um að heimilt sé með gjaldskrá að mæta öllum kostnaði sem hlýst af ljósritun eða afritun gagna breytir hér engu, enda þar aðeins kveðið á um hvað leggja má til grundvallar við ákvörðun gjaldskrárinnar sem slíkrar.

Í bréfi Fjölbrautaskólans við Ármúla, dags. 25. maí, segir að skólanefnd skólans hafi sett gjaldskrá sem sé vel í samræmi við 12. gr. upplýsingalaga og hafi hún verið sett löngu áður en forsætisráðuneytið setti gjaldskrá nr. 306/2009. Jafnframt hefur skólinn tekið fram að það fæli í sér brot á jafnræðisreglu yrði kæranda gert að greiða lægra gjald en nemendur skólans hafa þurft að greiða fyrir afrit af prófum. Af þessu tilefni skal áréttað að fjölbrautaskólanum er óheimilt að byggja gjaldtöku vegna afritunar á gögnum samkvæmt upplýsingalögum á gjaldskrá sem skólanefnd skólans hefur sjálf sett. Í því ljósi hefur röksemd skólans um mögulegt brot á jafnræðisreglu enga stoð í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds ber Fjölbrautaskólanum við Ármúla að afhenda kæranda þau gögn sem hann óskar aðgangs að. Vegna atvika málsins skal tekið fram að einvörðungu er heimilt er að taka gjald fyrir ljósrit af þeim gögnum samkvæmt því sem fyrir er mælt í gjaldskrár nr. 306/2009. Óheimilt er að binda afhendingu umbeðinna gagna öðrum skilyrðum.  


Úrskurðarorð

Fjölbrautarskólinn við Ármúla ber að afhenda kæranda [...] próf í íslensku 103, 203, 303, 403 og 503 frá vorprófi árið 2003 til og með jólaprófi 2010. Óheimilt er að binda afhendingu gagnanna öðrum skilyrðum en greiðslu gjalds samkvæmt gjaldskrá nr. 306/2009.


 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

Friðgeir Björnsson                                                                                        Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta