Mannanafnanefnd, úrskurðir 17. desember 2009
Ár 2009, fimmtudaginn 17. desember, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram á Neshaga 16. Mætt voru: Ágústa Þorbergsdóttir og Baldur Sigurðsson. Kolbrún Linda Ísleifsdóttir tók þátt í fundinum í símasambandi.
Eftirfarandi mál voru tekin fyrir:
1. Mál nr. 4/2009 Millinafn: Kjarrval
Mál þetta er tekið fyrir að beiðni [...], samkvæmt bréfi dags. 17. desember 2008.
Mannanafnanefnd hefur tvisvar úrskurðað um millinafnið Kjarrval í málum nr. 49/2006 og 51/2007.
Hinn 20. nóvember 2006 (mál nr. 49/2006) afgreiddi mannanafnanefnd beiðni [...] um að fá að taka upp millinafnið Kjarrval. Í úrskurðinum kemur fram að mannanafnanefnd fellst ekki á að setja millinafnið Kjarrval á mannanafnaskrá sem almennt millinafn vegna líkinda við ættarnafnið Kjarval, með vísan til 24. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Nefndin bendir á í úrskurði sínum að þar sem [...] gerðarbeiðanda, [...], hafi borið nafnið Kjarrval, hafi gerðarbeiðandi rétt til að taka nafnið upp sem sérstakt millinafn á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996. Þar sem skráning sérstakra millinafna heyrir ekki undir nefndina var málið framsent Þjóðskrá á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Hinn 22. október 2007 (mál nr. 51/2007) afgreiddi mannanafnanefnd beiðni [...] um álit á því hvort nafnið Kjarrval fullnægði þeim skilyrðum sem sett eru í 2. mgr. 6. gr. mannanafnalaga nr. 45/1996 til að geta talist almennt millinafn. Ráðuneytið mæltist til þess að nefndin léti í ljós álit sitt á því hvort heimila skyldi fyrrgreinda nafnbreytingu. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að nafnið Kjarrval uppfyllir þau almennu skilyrði sem gerð eru til millinafna skv. 6. gr. laga nr. 45/1996. Það er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur ekki áunnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna, það er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Mannanafnanefnd hafnaði því í fyrri úrskurði sínum (49/2006) að nafnið Kjarrval væri tekið upp sem almennt millinafn og færi þar með á mannanafnaskrá, fyrst og fremst á grundvelli 24. greinar laga nr. 45/1996:
Geti maður fært sönnur að því að annar maður noti nafn hans eða nafn sem líkist því svo mjög að villu geti valdið getur hann krafist þess í dómsmáli að hinn sé skyldaður til að láta af notkun nafnsins.
Gerðarbeiðandi bendir á í kröfu sinni um endurupptöku málsins að líkindi með nöfnum séu ekki einsdæmi. Mannanafnanefnd fellst á að taka málið upp á þessum forsendum. Eftir að hafa kannað ýmis dæmi þar sem framburður millinafna og ættarnafna er mjög líkur eða jafnvel eins en stafsetning ólík, s.s. Blöndal og Blöndahl, Leví og Levy, Brimdal og Bryndal, Hvanndal og Hvammdal og Nordal og Norðdahl telur mannanafnanefnd að það væri mismunun að hafna Kjarrval á þeim forsendum að það líktist um of ættarnafninu Kjarval.
Með vísan til þessa lítur nefndin svo á að millinafnið Kjarrval falli undir 2. mgr. 6. gr.
Úrskurðarorð
Beiðni um nafnið Kjarrval sem almennt millinafn er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
Úrskurðir mannanafnanefndar nr. 49/2006 og nr. 51/2007 eru felldir úr gildi.
2. Mál nr. 89/2009 Millinafn: Snædahl
Mál þetta var móttekið 3. nóvember 2009. Málið var tekið fyrir á fundi miðvikudaginn 4. nóvember en afgreiðslu þess frestað til frekari skoðunar.
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Millinafnið Snædahl er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er heldur ekki ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Snædahl uppfyllir þannig ákvæði 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Snædahl er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
3. Mál nr. 92/2009 Eiginnafn: Aran (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Aran (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalliog telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið fallbeygist þannig: Aran (nf.) – Aran (þf.) – Arani (þgf.) – Arans (ef.).
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Aran (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
4. Mál nr. 93/2009 Eiginnafn: Eldrún (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Eldrún (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Eldrúnar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Eldrún (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
6. Mál nr. 95/2009 Eiginnafn: Noel (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.
Enn fremur segir í 5. gr. laganna: „Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur, sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006, og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Eiginnafnið Nóel (kk.) er komið úr frönsku, noël ‘jól’. Nafnið hefur borist víða og verið aðlagað rithætti annarra tungumála, t.d. Noel. Í íslensku hefur nafnið verið tekið á mannanafnaskrá sem Nóel enda kemur samstafan oë (eða oe) ekki fyrir í íslensku máli. Rithátturinn Noel getur því ekki talist vera í samræmi við ritreglur íslensks máls, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Sambærilegt er karlmannsnafnið Jóel (í frönsku Joël).
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera tveir karlar eiginnafnið Noel sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna og er sá eldri þeirra fæddur árið 1961. Eiginnafnið Noel hefur því ekki unnið sér hefð.
Eiginnafnið Noel uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og er ekki mögulegt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Noel (kk.) er hafnað.
7. Mál nr. 96/2009 Eiginnafn: Mikkalína (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Mikkalína (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Mikkalínu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Mikkalína (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
8. Mál nr. 97/2009 Eiginnafn: Reinhold (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.
Enn fremur segir í 5. gr. laganna: „Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.“
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur, sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006, og sem byggðar eru á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10‑14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5‑9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1‑4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703‑1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá bera þrír karlar eiginnafnið Reinhold sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna og er sá elsti þeirra fæddur árið 1939. Nafnið kemur einnig fyrir í manntali 1910 og uppfyllir það því skilyrði d-liðar 1. gr. ofangreindra vinnulagsreglna um hefð.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Reinhold (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
9. Mál nr. 98/2009 Eiginnafn: Snjóki (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Snjóki (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Snjóka, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Snjóki (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
10. Mál nr. 99/2009 Millinafn: Dalhoff
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Millinafnið Dalhoff er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er heldur ekki ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Dalhoff uppfyllir þannig ákvæði 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Dalhoff er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
11. Mál nr. 100/2009 Millinafn: Berg
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1996 er ekki heimilt að taka upp ný millinöfn sem hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna. Nafnið Berg er ekki til á mannanafnaskrá sem millinafn. Hins vegar er Berg skráð í þjóðskrá sem ættarnafn og eiginnafn karls. Af þessum sökum er óheimilt skv. 6. gr. að taka upp nafnið Berg sem almennt millinafn. Ættarnafn er einungis heimilt sem millinafn í þeim tilvikum sem getur í 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þar sem barn úrskurðarbeiðanda fellur ekki undir þar tilgreind skilyrði er ekki unnt að taka beiðni úrskurðarbeiðanda um nafnið Berg sem millinafn til greina.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Berg er hafnað.
12. Mál nr. 101/2009 Millinafn: Skagalín
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Millinafnið Skagalín er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er heldur ekki ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Skagalín uppfyllir þannig ákvæði 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Skagalín er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
13. Mál nr. 102/2009 Eiginnafn: Sveinbjartur (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Sveinbjartur (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Sveinbjarts, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Sveinbjartur (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
14. Mál nr. 103/2009 Eiginnafn: Víóla (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Víóla (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Víólu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Víóla (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.