Hoppa yfir valmynd
10. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 31/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans, með vísan til c-liðar 3. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann er í námi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hann gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Kærandi hefur stundað nám í viðskiptadeild við Háskólann á Bifröst frá haustinu 2007. Hann er nú í fjarnámi í 50% námshlutfalli og kveðst taka tvö fög á önn af fjórum mögulegum. Nám þetta sé á mörkum þess að vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi vísar til þess að hann eigi sem námsmaður í minna en 75% námi rétt á atvinnuleysisbótum og að hann hafi að öðru leyti fullnægt þeim kröfum sem Vinnumálastofnun geri til þeirra er sæki um bætur, meðal annars um útvegun gagna. Enn fremur fullyrðir kærandi að fjárhagsleg staða hans sé slæm og að hann fái ekki yfirdráttarlán í banka. Kærandi segi að það sé ekki hans val að vera atvinnulaus enda sæki hann um vinnu nánast daglega.

Vinnumálastofnun sendi greinargerð, dags. 4. september 2009, en síðar kom í ljós að hún hafði verið send fyrir mistök og var ekki endanleg greinargerð. Ný greinargerð var send og er hún dagsett 12. október 2009. Í endanlegu greinargerðinni kemur fram að Vinnumálastofnun hafi hafið virkara eftirlit með stöðu og högum þeirra sem fái greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði. Beinist rannsóknin ekki síst að því hvort þeir sem fái atvinnuleysisbætur uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Við samkeyrslu gagna úr nemendaskrá Háskólans á Bifröst og Vinnumálastofnunar hafi orðið ljóst að kærandi stundi nám við fyrrgreinda menntastofnun samhliða því að vera skráður á atvinnuleysisbætur. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. mars 2009, sú ákvörðun stofnunarinnar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann stundaði lánshæft nám. Kæranda hafi í sama bréfi verið gefinn sjö daga frestur til að koma með athugasemdir við nefnda ákvörðun. Kærandi hafi sent athugasemdir sínar við ákvörðunina með bréfi, dags. 20. mars 2009, bæði til Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar og hafi málið þá verið sett í kæruferli samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

Vinnumálastofnun vitnar til 52. gr. þágildandi laga um atvinnuleysistryggingar og c-liðar 3. gr. laganna máli sínu til stuðnings. Það sé ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laganna að tryggja námsmönnum framfærslu meðan þeir stunda nám. Í athugasemdum við 52. gr. frumvarpsins sé því haldið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem námið er í dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Fram kemur að meðal framlagðra gagna málsins sé vottorð um skólavist frá Háskólanum á Bifröst. Þar komi fram að nám það er kærandi stundi sé 12 ECTS einingar og teljist 30 ECTS til fulls náms. Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Bifröst hafi kærandi þegar lokið 38 ECTS einingum á skólaárinu 2008–2009. Í fyrirliggjandi gögnum sem Vinnumálastofnun hafi aflað við rannsókn málsins komi fram að slíkur einingafjöldi uppfylli skilyrði Lánasjóðs íslenskra námsmanna um lánshæft nám.

Í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sú skylda lögð á Vinnumálastofnun að meta sérstaklega hvort umsækjandi geti talist tryggður stundi hann nám með starfi og missi síðar starfið ef námið er ekki lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem nám kæranda sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi undantekningarreglan ekki við um hann. Í 3. mgr. 52. gr. laganna sé Vinnumálastofnun falið að meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Í ljósi þess að um matskennda lagareglu sé að ræða hafi Vinnumálastofnun sett sér verklagsreglur til að tryggja samræmda stjórnsýsluframkvæmd en þó sé hvert tilfelli metið sjálfstætt. Þá megi og hafa hliðsjón af lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, og reglugerð um nám og námskeið, nr. 13/2009, sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Af lestri greinargerðar með þeim lögum sé ljóst að áhersla er lögð á að þeir sem hljóti atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 52. gr. þurfi að vera í virkri atvinnuleit og eigi möguleika á að taka starfi samhliða námi. Einnig beri að líta til umfangs námsins. Vinnumálastofnun segir að í fyrrgreindum verklagsreglum sé það gert að skilyrði að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit samhliða námi sínu. Almennt sé talið að hægt sé að stunda nám í kvöldskóla og fjarnámi, sem ekki sé lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, og almennt bóknám á framhaldsskólastigi sem nemur 1/3 af fullu námi ef verið sé að ljúka námi. Fram kemur að það sé ljóst að svo umfangsmikið nám sem kærandi er í gangi gegn verklagsreglum Vinnumálastofnunar um beitingu 3. mgr. 52. gr. Þá beri og að athuga að flestum námskeiðum á háskólastigi fylgi umtalsverður undirbúningur og heimavinna sem eigi sér stað utan skólatíma. Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. september 2009, sent afrit af fyrri greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 4. september 2009, og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 24. september 2009. Bréf frá kæranda er dagsett 17. september 2009. Þar kemur meðal annars fram að rökstuðningur hans byggist á því að það sé ekki hans val að vera atvinnulaus enda sæki hann um vinnu nánast daglega. Hann kveðst stunda fjarnám í viðskiptadeild Háskólans á Bifröst og taki tvö fög á önn af fjórum mögulegum, sem geri um 50% nám. Það sé á mörkum þess að vera lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Kærandi fer fram á það við úrskurðarnefndina að fá að halda námi sínu áfram þar sem hann sé að mennta sig til framtíðar og dvöl hans á atvinnuleysisskrá sé tímabundin.

Síðari greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2009, var send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. október 2009. Athugasemdir kæranda eru dagsettar 15. október 2009. Þar kemur meðal annars fram að þar sem Vinnumálastofnun telji hann stunda fullt nám eða umfangsmikið nám í fjarnámi vilji hann koma því á framfæri að umfangsmikið nám teljist 24–30 ECTS einingar en fullt háskólanám séu 30 ECTS einingar. Nám kæranda sé 12 ECTS einingar. Fullt fjarnám frá Háskólanum á Bifröst séu 24 ECTS einingar og fyllilega hægt að stunda það með vinnu enda sé námið sérsniðið þeim sem eru að vinna. Kærandi telur Vinnumálastofnun ekki hafa kynnt sér námsframboð og námsframvindu í Háskólanum á Bifröst, en 12 ECTS einingar séu 50% nám. Vinnumálastofnun telji það vera yfir 75% námshlutfall sem standist engan veginn. Kærandi telur sig falla undir undantekningarákvæði 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi verið í minna en 50% námshlutfalli.

2.

Niðurstaða

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu atvinnuleysisbóta var tekin þann 18. mars 2009. Þá var í gildi svohljóðandi skilgreining á námi, sbr. c-lið 3. gr. laganna:

Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms. Sú regla gilti að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., teldist ekki tryggður á sama tímabili enda væri námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þágildandi 1. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt þágildandi 3. mgr. 52. gr. bar Vinnumálastofnun að meta sérstaklega hvort sá er stundar nám en er í lægra námshlutfalli en 75% uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur nám kæranda verið metið svo umfangsmikið að hann geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit samhliða náminu en slík atvinnuleit er eitt skilyrða fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Bifröst var kærandi skráður í fullt nám á haustönn 2008 og í upphafi vorannar 2009. Námið er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hann sagði sig hins vegar úr tveimur fögum þegar leið á vorönn 2009 og var svo skráður í 2 fög sem er 50% námshlutfall. Ekki verður fallist á að sá sem stundar lánshæft nám sem fellur undir skilgreiningu 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á námi geti sagt sig úr einstökum fögum og í framhaldinu átt rétt á atvinnuleysisbótum. Í því sambandi má nefna að samkvæmt 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem segir sig úr námi án gildra ástæðna sæta 40 daga biðtíma eftir bótum.

Samkvæmt því sem að framan segir á kærandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum meðan hann stundar lánshæft nám sitt við Háskólann á Bifröst. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hans er því staðfest.

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til A frá 18. mars 2009 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta