Hoppa yfir valmynd
10. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 75/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. desember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 75/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, sem átti að vera dagsett 26. júní 2009, en var ranglega dagsett 9. febrúar 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 26. júní 2009 fjallað um fjarveru kæranda í boðað viðtal þann 5. júní 2009 og staðfestingu hans á atvinnuleit erlendis frá. Tekin var sú ákvörðun að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann virtist ekki vera í virkri atvinnuleit og búsettur erlendis á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, ódagsettu en mótteknu 8. júlí 2009, og krefst þess að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi var sjómaður og samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 9. febrúar 2009, starfaði hann hjá X frá 1. mars 2008 til 31. janúar 2009 í 100% starfi og var um að ræða tímabundna ráðningu. Samkvæmt greinargerð Vinnumálastofnunar sótti kærandi um atvinnuleysisbætur þann 9. febrúar 2009. Í sömu greinargerð segir að kærandi hafi farið til útlanda þann 6. maí 2009 og ekki mætt í boðað viðtal til þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar þann 10. júní 2009. Í kjölfar samskipta við kæranda símleiðis hafi Vinnumálastofnun sent honum fyrrgreint bréf þann 26. júní 2009 þar sem honum hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

Kærandi kveðst hafa verið í Noregi í atvinnuleit og hafi verið tekinn af atvinnuleysisbótum á Íslandi. Hann hafi ekki verið látinn vita um E303 vottorðið, en verið kallaður heim frá Noregi þann 7. júlí 2009 og honum sagt að hann gæti fengið E303 vottorðið og verið í Noregi í þrjá mánuði. Kærandi kveðst kæra vegna þess að hann sé dottinn út úr kerfinu. Hann segir ferðina til Íslands hafa kostað sig mikla peninga.

Í bréfi ráðgjafa Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra, dags. 8. júlí 2009, kemur fram að ráðgjafinn hafi bent kæranda á þann möguleika að hann hefði getað sótt um E303/E301 vottorð til að fara með sér til útlanda. Honum hafi einnig verið bent á að Vinnumálastofnun Norðurlands eystra hefði verið í samskiptum við hann í lok apríl og þá hafði hann fengið tvö atvinnutilboð sem hann taldi ekki henta sér. Þá kemur einnig fram í bréfi þessu að kærandi hafi bent á að hann hafi ekki fengið upplýsingar frá Vinnumálastofnun í lok apríl þegar hann hafi upplýst að hann væri að fara til Noregs í atvinnuleit að hann gæti farið með E303/E301 vottorð með sér út. Hann hafi því ekki vitað af því að hann gæti ekki verið erlendis ef hann ætlaði að halda atvinnuleysisbótagreiðslum á Íslandi. Loks segir í tilvitnuðu bréfi Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið í símasambandi frá Noregi 23. júní 2009 og í því símtali og öðrum símtölum þar á undan hafi hann verið upplýstur um að hann yrði að koma heim til Íslands til að komast aftur á atvinnuleysisbætur og sækja um E303/E301 vottorð.

Vinnumálastofnun vitnar til 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og tekur fram að eitt af meginskilyrðum nefndrar lagagreina sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í liðum a–h í 1. mgr. 14. gr. laganna hvað teljist vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggi atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-liði 1. mgr. 14. gr. laganna. Þessi ákvæði er lúti að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð svo að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé ekki á sama tíma heimilt að dvelja erlendis, enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi nefndum skilyrðum laganna. Þessi túlkun sé í samræmi við áralanga framkvæmd stofnunarinnar á þessu sviði.

Fram kemur að Vinnumálastofnun sé, sbr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Vinnumálastofnun gefi út E303 vottorð til staðfestingar á rétti viðkomandi í slíku tilfelli.

Kærandi hafi í apríl verið fengin tvö atvinnutilboð sem hann hafi ekki talið henta sér og hafi hann í kjölfarið farið til Noregs í starfsviðtal. Ráða megi af atvikalýsingu og samskiptasögu að kæranda hafi verið veitt töluvert svigrúm við meðferð máls. Kærandi hafi fengið að fara utan í skamman tíma til að sinna starfsviðtali í Noregi án þess að til skerðinga kæmi á atvinnuleysisbótum hans. Fulltrúi Vinnumálastofnunar hafi verið þess fullviss eftir samtal sitt við kæranda að einungis um stutta ferð væri að ræða í þeim tilgangi að sækja umrætt starfsviðtal.

Kærandi hafi ekki mætt í boðað viðtal þann 10. júní 2009 hjá þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar þar sem hann var enn í Noregi. Í símtali við kæranda þann 18. júní 2009 var honum bent á að hefði ætlunin verið að vera í Noregi í atvinnuleit væri nauðsynlegt að sækja um heimild til þess í samræmi við VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi jafnframt verið ítrekað að atvinnuleysisbætur yrðu ekki greiddar á meðan hann væri erlendis í samræmi við a- og c-liði 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og frekari gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust með bréfi frá lögmanni kæranda, dags. 20. október 2009 og bréfi kæranda dags. 19. október 2009.

2. Niðurstaða

Meðal skilyrða sem uppfylla þarf til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 13. gr. og vera búsettur hér á landi, sbr. c-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Frá þessu skilyrði er hægt að veita undanþágu að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar meðal annars um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Svo að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit þarf hann að vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. d-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá í virkri atvinnuleit sem er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. ber atvinnuleitanda án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt þessum málslið.

Á sama tíma og kærandi þáði atvinnuleysisbætur dvaldi hann erlendis án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það og hann gat ekki talist í virkri atvinnuleit á sama tíma. Sú ákvörðun að fella niður greiðslu atvinnuleysisbóta til hans er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. júní 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta