Hoppa yfir valmynd
21. desember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

   

í málinu nr. 21/2009

 

Dýrahald: Páfagaukur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 29. júní 2009, beindi A, í umboði B, C og D, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við E, hér eftir nefndur gagnaðili.

Í bréfi kærunefndar, dags. 1. júlí 2009, var óskað eftir umboði álitsbeiðanda sem barst nefndinni 10. júlí 2009. Gagnaðila var sent bréf, dags. 10. júlí 2009, þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Hins vegar urðu mistök við útsendingu bréfs sem uppgötvaðist 12. ágúst 2009 og var því gagnaðila sent bréf á ný, dagsett sama dag.

Greinargerð gagnaðila barst 23. ágúst 2009 þar sem bent var á að ekki hafi verið haldinn húsfundur um ágreiningsefnin sem greint var frá í álitsbeiðni. Kærunefnd sendi því aðilum málsins bréf, dags. 27. ágúst 2009, þar sem tilkynnt var að málinu væri frestað þar til að húsfundi afloknum. Gefinn var frestur til 1. október 2009.

Hinn 6. október 2009 barst bréf álitsbeiðanda þar sem hann útlistaði helstu niðurstöður húsfundar sem haldinn var 30. september sama ár. Í kjölfar þess var óskað eftir skýrri kröfugerð og rökstuðningi álitsbeiðanda með bréfi nefndarinnar, dags. 7. október 2009.

Með bréfi álitsbeiðanda, dags. 22. október 2009, beindi hún til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við gagnaðila.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með bréfi nefndarinnar, dags. 3. nóvember 2009 sem var ítrekað í öðru bréfi, dags. 4. desember sl., að því er tæki til fyrri kröfuliðs í síðari álitsbeiðninni.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 11. desember 2009, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar mánudaginn 21. desember 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 3, alls átta eignarhluta, á þremur hæðum. Ágreiningur er um dýrahald.

 

Kærunefnd telur að krafa álitsbeiðanda sé:

Að gagnaðila beri að fjarlægja páfagauk úr íbúð sinni.

 

Í álitsbeiðni kemur fram haustið 2008 hafi gagnaðili, sem búi í íbúð 101 í umræddu húsi en sú íbúð er staðsett undir íbúð 201, þ.e. íbúð álitsbeiðanda, keypt sér millistærð af páfagauki sem skræki hvellt oft á dag. Páfagaukurinn hafi valdið álitsbeiðanda miklu ónæði í íbúð hans þar sem að fuglinn sé staðsettur í stofu gagnaðila sem sé undir stofu álitsbeiðanda og þar þurfi álitsbeiðandi næði til þess að læra. Skrækir páfagauksins berist um stigagang og út í sameiginlegt port nokkurra íbúða og húsa. Í desember 2008 hafi álitsbeiðandi farið niður til gagnaðila og sagt honum að páfagaukurinn væri með mikil læti og að hann truflaði sig mjög. Álitsbeiðandi hafi jafnframt bent gagnaðila á að samkvæmt lögum um fjöleignarhús sé dýrahald, svo sem með hunda og ketti, ekki leyft. Gagnaðili hafi svarað því til að þetta ætti ekki við um páfagauka, aðeins væri átt við hunda og ketti. Annan skilning leggi álitsbeiðandi í þessa reglu sem telur að þarna sé verið að tiltaka dæmi um dýr en ekki einungis þau dýr sem sé bannað að halda. Gagnaðili hafi bent álitsbeiðanda á að sá hafi haldið dverghamstra um skeið árin 2004–2005 sem gagnaðili hafi ekki sett neitt út á. Álitsbeiðandi segir að sér hafi aldrei borist kvörtun um hamstrana og þeir séu ekki lengur í húsinu.

Á húsfundi 28. október 2009 hafi gagnaðili hvorki svarað í neinu beiðni álitsbeiðanda um að páfagaukurinn fari né hvað gert yrði í vandamálinu.

Álitsbeiðandi vísar máli sínu til stuðnings til 3. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, þar sem fjallað er um ónæði sem sé verulegt og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyri ekki því umhverfi sem um ræðir, svo sem vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis. Í 56. gr. sömu reglugerðar komi fram að gæludýr skuli þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Jafnframt vísar álitsbeiðandi til 26. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26 /1994.

 

Í greinargerð gagnaðila er greint frá því að á húsfundinum í september 2009 hafi eftirfarandi verið bókað „Málið var tekið fyrir á fundi og ekki náðust sættir deiluaðila. Aðkoma húsfélagsins að málinu er ekki frekari.“ Á umræddum fundi hafi komið fram að enginn íbúa hússins hafi kvartað undan ónæði frá fuglinum í íbúð 101 utan álitsbeiðanda. Fundurinn hafi lagt að álitsbeiðanda og gagnaðila að ræða málið og fá niðurstöðu. Gagnaðili hafi reynt að ávarpa álitsbeiðanda en án þess að vera virtur svars þannig að ekki hafi fengist tækifæri til að ræða málið.

Gagnaðili mótmælir því að ónæði stafi af fuglinum, það sé ekki rétt.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 13. tölul. A-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsi. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Í lögunum er ekki fjallað um önnur dýr en hunda og ketti.

Fullyrt er af hálfu álitsbeiðanda að umræddur páfagaukur valdi miklu ónæði enda berist skrækir frá honum í íbúð álitsbeiðanda svo og út á stigagang og sameiginlegt port.

Samkvæmt 3. tölul. 13. gr. laga nr. 26/1994 er það ein af helstu skyldum eigenda í fjöleignarhúsum að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreignar, sbr. einnig 2. mgr. 26. gr.

Málið var tekið fyrir á húsfundi í september síðastliðnum og kom þar fram að enginn íbúa hússins utan álitsbeiðanda hafi kvartað undan ónæði frá fuglinum.

Í 74. gr. laga nr. 26/1994 er fjallað um húsreglur, hvernig þær skuli settar og hvaða fyrirmæli þær skuli hafa að geyma. Húsreglur skulu þannig fjalla um hagnýtingu séreignar að því marki sem lögin leyfa, meðal annars ákvæði um sambýlishætti.

Í 3. mgr. 74. gr. eru í sjö töluliðum tilgreind atriði sem húsreglur skulu meðal annars fjalla um. Ljóst er að í reglum þessum felast takmarkanir á hagnýtingarrétti eiganda, bæði á séreign og sameign, sem leiðir af búsetu í fjölbýlishúsi og almennum reglum nábýlisréttar, sbr. einnig 3. mgr. 57. gr. Húsreglur fyrir X nr. 3 hafa ekki verið samþykktar.

Í 10. tölul. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 kemur fram að samþykki allra þurfi til að taka ákvarðanir um meiri og víðtækari takmarkanir á ráðstöfunar- og hagnýtingarrétti eiganda yfir séreign en leiðir af ákvæðum laganna eða eðli máls, sbr. 3. mgr. 57. gr. Dýrahald, innan eðlilegra marka, verður að teljast hluti af daglegu lífi manna í híbýlum sínum. Það er álit kærunefndar að algert bann við páfagauk í íbúð gagnaðila sé slík skerðing á umráða- og afnotarétti eiganda séreignar að því verði ekki við komið nema með samþykki allra eigenda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðili skuli fjarlægja páfagauk úr íbúð sinni.

 

Reykjavík, 21. desember 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Karl Axelsson

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta