Hoppa yfir valmynd
7. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 56/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. febrúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði fjallað um umsókn kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsókninni var hafnað með vísan 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, eins og fram kemur í bréfi til kæranda, dags. 24. febrúar 2010. Kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 14. apríl 2010. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt en Vinnumálastofnunar krefst þess að ákvörðunin standi.

Kærandi kveðst hafa starfað sem leirlistakona frá því að hún lauk fjögurra ára námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989 og rekið eigin vinnustofu síðan þá. Hún hafi byggt sitt eigið gallerí við vinnustofu sína skömmu fyrir bankahrunið þar sem henni hafi gengið afar vel á listasviðinu. Eftir hrunið hafi fótunum verið kippt undan starfsemi hennar og hafi ástandið farið versnandi síðan. Hún hafi mjög takmarkaðar tekjur af list sinni og engan veginn nóg til að framfleyta sér. Síðustu þrjá mánuði hafi hún haft um 20.000 kr. í meðaltekjur. Hún kaupi allt hráefni frá útlöndum og hafi það hækkað um 100%. Kærandi kveður að hingað til hafi henni tekist að lifa á list sinni án þess að þiggja styrki eða bætur. Hún hafi greitt sína skatta og skyldur til samfélagsins alla tíð, en nú hafi hún þörf fyrir bætur og geri því kröfur um að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og hún fái þær bætur sem henni beri sem íslenskum þegn.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 5. janúar 2010. Vinnumálastofnun tilkynnti henni með bréfi, dags. 24. febrúar 2010, að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar nái ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 20. september 2010, kemur fram að skv. 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr. laganna, að fullu tryggður samkvæmt lögunum, hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald, áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Eðlismunur á starfstengdum aðstæðum sjálfstætt starfandi einstaklinga annars vegar og launamanna hins vegar leiði til þess, að svo finna megi vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli miða við skrár skattyfirvalda, sbr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi fyrir árið 2009 þann 29. desember 2009. Þar sem hún hafi ekki greitt sér laun sem numu lágmarks-viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein þá ákvarðist tryggingarhlutfall hennar af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds og viðmiðunarfjárhæðinni, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Ávinnsla kæranda sé vegna starfa við rekstur á eigin kennitölu. Starfsemi kæranda falli undir tekjuflokk C-5 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settar skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og nemi lágmarksviðmiðunarfjárhæð í þeim flokki 414.000 kr. Kærandi hafi greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu sinnar árið 2009, þann 29. desember 2009 að fjárhæð 881.600 kr. Meðaltal mánaðarlauna á árinu 2009 sé því 73.467 kr. og reiknist kærandi því í 17,7% bótahlutfalli. Teljist kærandi ekki tryggð samkvæmt lögunum þar sem bótahlutfall hennar nái ekki því 25% lágmarki sem mælt sé fyrir um í 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Beri því að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. september 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. október 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar skuli taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr.

Fallist er á þær forsendur Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi 414.000 kr. á mánuði miðað við reglur skattyfirvalda um lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald einstakling sem starfa við eigin rekstur sem listamaður. Kærandi greiddi staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu sinnar 881.000 kr. vegna alls ársins 2009 og greiddi þar með staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sínu 73.467 kr. á mánuði.

Með vísan til 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, reiknast bótahlutfall kæranda því 17,7%. Með vísan til h-liðar 1. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 24. febrúar 2010 um synjun á bótarétti A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta