Mál nr. 10/2009: Dómur frá 1. nóvember 2010
Ár 2010, mánudaginn 1. nóvember, var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2009
Alþýðusamband Íslands f.h.
Rafiðnaðarsambands Íslands vegna
Jóhannesar Más Dagbjartssonar
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Háskólans á Bifröst
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R:
Mál þetta var dómtekið 7. september sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna Jóhannesar Más Dagbjartssonar, Hólavegi 7, Siglufirði.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Háskólans á Bifröst, Bifröst, Borgarnesi.
Dómkröfur stefnanda
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að uppsögn stefnda á Jóhannesi Má Dagbjartssyni, trúnaðarmanni Háskólans á Bifröst, þann 27. maí 2009, verði dæmt brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og ólögmæt af þeim sökum.
Að auki er þess krafist að Jóhannesi Má Dagbjartssyni verði dæmdar skaðabætur að fjárhæð 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. maí 2009 til þingfestingardags þessa máls, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess aðallega að sýknað verði af dómkröfum stefnanda, en til vara að bótakrafa stefnda verði lækkuð.
Jafnframt er gerð krafa um að stefnandi verði í báðum tilvikum dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Með úrskurði Félagsdóms, uppkveðnum 1. mars 2010, var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
Málavextir
Málavextir eru þeir að Jóhannes Már Dagbjartsson hóf störf hjá stefnda 22. ágúst 2007. Var hann starfsmaður í viðhaldsdeild og starfaði hann hjá stefnda þar til honum var sagt upp störfum frá og með 1. júní 2009 með þriggja mánaða fyrirvara.
Hinn 8. janúar 2008 var Jóhannes tilnefndur öryggistrúnaðarmaður við Háskólann á Bifröst og sú kosning tilkynnt til Vinnueftirlitsins 5. febrúar 2008.
Stefndi heldur því fram að af hálfu stefnda hafi verið tilnefndir tveir fulltrúar í öryggisnefnd eins og skylt sé samkvæmt 6. gr. laga nr. 46/1980, en starfsmenn hafi þá verið um 70. Fyrir misskilning, og án heimildar, hafi skólinn auk þess tilnefnt tvo starfsmenn til viðbótar sem öryggistrúnaðarmenn og hafi stefnandi verið annar þeirra tveggja, sbr. tilkynningu til Vinnueftirlitsins. Engin kosning hafi farið fram meðal starfsmanna.
Stefndi kveður stefnanda aldrei hafa starfað sem öryggistrúnaðarmaður eða komið fram sem slíkur fyrir hönd starfsmanna gagnvart skólanum. Öryggisnefndin hafi aldrei tekið til starfa og því aldrei komið saman til fundar á þessu tímabili. Eina aðkoma stefnanda að vinnuverndarmálum hafi verið sú að stefndi hafi sent hann, ásamt öðrum öryggisverði sínum, á námskeið Vinnueftirlitsins fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði 11.-12. júní 2008.
Jóhannes leitaði til stéttarfélags síns, Rafiðnaðarsambands Íslands, vegna uppsagnarinnar sem hann taldi ólögmæta vegna starfa hans sem öryggistrúnaðarmanns, og þeirrar staðreyndar að hann var sá eini sem var sagt upp störfum.
Hinn 23. júní 2009 sendi lögmaður Jóhannesar stefnda bréf vegna uppsagnarinnar. Hinn 1. september 2009 barst lögmanni Jóhannesar svar við bréfi sínu en Háskólinn á Bifröst hafði fengið Samtök atvinnulífsins til að svara bréfinu fyrir sína hönd. Í bréfinu var því haldið fram að vernd trúnaðarmanna væri háð því að stéttarfélag hefði falið þeim að gegna trúnaðarstörfum fyrir sig en að ekki hefði verið heimild til að ráða hann sem öryggistrúnaðarmann. Tilnefning Jóhannesar væri því marklaus og skapaði honum ekki vernd samkvæmt lögum nr. 46/1980.
Að mati stefnda lýtur ágreiningur aðila aðallega að því hvort stefnandi, Jóhannes Már Dagbjartsson, hafi verið rétt kjörinn öryggistrúnaðarmaður starfsmanna samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og á grundvelli 2. mgr. 9. gr. þeirra laga notið þeirrar verndar, sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að uppsögn Jóhannesar hafi verið ólögmæt. Hann hafi sem trúnaðarmaður félagsins notið sérstakrar verndar gegn uppsögnum og hafi átt að sitja fyrir um að halda vinnunni, hafi stefnda verið nauðsynlegt að fækka starfsmönnum. Jóhannes hafi aldrei verið aðvaraður formlega eða áminntur um misfellur eða brot í starfi og ekki hafi verið bornar á hann neinar sakir fyrir störf hans fyrir stefnda. Þar sem engar ástæður hafi verið gefnar fyrir uppsögn Jóhannesar sé ekki hægt að álykta annað en að hann hafi verið látinn gjalda fyrir starfa sína sem trúnaðarmaður RSÍ stéttarfélags hjá stefnda. Slíkt sé með öllu ólögmætt.
Um lagarök sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum en þar komi fram að í fyrirtækjum, þar sem séu 50 starfsmenn eða fleiri, skuli stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósi úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefni tvo fulltrúa. Í 2. mgr. 9. gr. sömu laga komi svo fram að öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóti þeirrar verndar, sem ákveðin sé í 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Í 11. gr. laga nr. 80/1938 komi fram að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmenn eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hafi falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Jafnframt sé þar tekið fram að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Aðalkrafa stefnanda sé því að uppsögn Jóhannesar sem slík verði dæmd ólögmæt og brot á 11. gr. laga nr. 80/1938.
Stefnandi kveður málið eiga undir Félagsdóm, sbr. 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, enda sé um að ræða mál sem varðar brot á lögunum. Um aðild sóknarmegin í málinu sé vísað til 1. mgr. 45. gr. sömu laga, en sambönd verkalýðsfélaga reki mál meðlima sinna fyrir dóminum. Um aðild varnarmegin sé vísað til sömu málsgreinar 45. gr. laganna þar sem komi einnig fram að sambönd atvinnurekendafélaga reki mál meðlima sinna fyrir dóminum.
Auk þess að krefjast þess að uppsögnin verði dæmd ólögmæt, er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða Jóhannesi skaðabætur vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Stefnandi kveður þá kröfu byggjast á 1. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938 og hinni almennu skaðabótareglu. Forsendur kröfunnar séu að stefndi hafi með hinni ólögmætu uppsögn valdið röskun á stöðu og högun Jóhannesar, auk þess að valda honum ófjárhagslegu tjóni, s.s. hugarangri, áhyggjum, niðurlægingu og verulegum óþægindum. Hin ólögmæta uppsögn hafi þannig fyrir það fyrsta bakað Jóhannesi tjón, og þá einkum í núverandi árferði og efnahagsástandi. Byggir stefnandi á því að skaðabætur til hans skuli nema launum í þrjá mánuði umfram kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest. Stefnandi kveður laun Jóhannesar hafa verið 300.000 krónur á mánuði.
Um málskostnaðarkröfu stefnanda kveðst hann vísa til 65. gr. laga nr. 80/1938. Um vaxtarkröfu vísast til 1. mgr. og 8. gr. laga nr. 38/2001.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og að hann hafi notið samningsbundins þriggja mánaða uppsagnarfrests.
Með sömu rökum og færð hafi verið fram til stuðnings frávísunarkröfu stefnda sé því mótmælt að stefndi hafi með uppsögn stefnanda brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938.
Uppsögn stefnanda hafi heldur ekki brotið gegn 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Stefnandi hafi ekki verið öryggistrúnaðarmaður í skilningi II. kafla þeirra laga og því ekki notið verndar gegn uppsögn samkvæmt fyrrgreindu ákvæði þeirra eins og stefnandi haldi fram.
Það skýrist af því að stefnandi hafi ekki verið kjörinn öryggistrúnaðarmaður eins og áskilið sé í 1. mgr. 6. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Slík kosning hafi ekki farið fram og hvorki starfsmenn né stefnandi, Rafiðnaðarsamband Íslands, haft frumkvæði að því að efna til kosningar um val öryggistrúnaðarmanns. Í því sambandi bendi stefndi á ítarlegar reglur um undirbúning og framkvæmd slíkra kosninga í reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á að slík kosning hafi farið fram og að Jóhannes sé réttkjörinn trúnaðarmaður og njóti þar af leiðandi verndar samkvæmt áður nefndu ákvæði laga nr. 46/1980 en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því.
Þegar stefndi hafi tilkynnt Vinnueftirlitinu um tilnefningu öryggisfulltrúa sinna í öryggisnefnd hafi stefndi, fyrir misskilning og án heimildar, tilnefnt tvo aðra sem öryggistrúnaðarmenn án kosningar eða annarrar aðkomu starfsmanna að því vali. Stefnandi sé annar þeirra. Ástæða þess að stefnandi varð fyrir valinu sé sú að hann er rafvirki sem stefndi taldi að gæti komið að gagni við umfjöllun um öryggismál.
Samkvæmt tilvitnaðri 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1980, og reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, kjósi starfsmenn úr sínum hópi tvo fulltrúa í öryggisnefnd. Frumkvæði og undirbúningur slíkrar kosningar sé á hendi félagslegra trúnaðarmanna starfsmanna eða trúnaðarmanna viðkomandi stéttarfélaga. Atvinnurekandi skuli síðan tilkynna um þá aðila sem tilnefndir séu sem öryggisverðir og kosnir séu sem öryggistrúnaðarmenn, sbr. 12.-14. gr. reglugerðarinnar.
Öryggistrúnaðarmenn skuli samkvæmt ofangreindu kosnir af samstarfsmönnum sínum og sækja umboð sitt til þeirra. Það sé forsenda þess að þeir njóti réttarstöðu sem öryggistrúnaðarmenn og þeirrar verndar gegn uppsögnum sem kveðið sé á um í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980. Sú forsenda sé önnur og í meginatriðum ólík þeim skilyrðum sem sett séu varðandi tilnefningu trúnaðarmanna samkvæmt lögum nr. 80/1938.
Stefndi byggi aðallega á því að engin slík kosning hafi farið fram meðal starfsmanna og stefndi njóti þar af leiðandi ekki verndar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980. Tilnefning stefnanda sem öryggistrúnaðarmanns sé því marklaus. Stefndi bendir jafnframt á að stefnandi hafi í reynd verið fulltrúi stefnda enda tilnefndur af honum en fulltrúar atvinnurekanda í öryggisnefnd njóti ekki verndar gegn uppsögnum samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980.
Stefndi hafi auk þess aldrei starfað sem öryggistrúnaðarmaður. Að því er forsvarsmönnum skólans sé kunnugt hafi hann ekki haft milligöngu um að koma á framfæri kvörtunum starfsmanna í vinnuverndarmálum.
Því sé mótmælt að stefnanda hafi verið sagt upp vegna starfa hans sem öryggistrúnaðarmanns. Auk þess fái sú málsástæða ekki staðist þegar af þeirri ástæðu að það hafi verið stefndi sem tilnefndi hann til þeirra starfa.
Jafnvel þótt litið yrði svo á að stefnandi hafi verið öryggistrúnaðarmaður og sem slíkur notið verndar samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938 þá sé ekkert fram komið sem bendi til þess að samband sé milli hlutverks hans sem slíks og þeirra forsendna sem hafi leitt til þess að honum var sagt upp störfum.
Stefndi mótmæli því einnig að stefnandi hafi átt forgangsrétt til áframhaldandi starfa. Við fækkun starfsmanna í viðhaldsdeildinni taldi stefndi brýnt að deildin, svo fáliðuð sem hún væri orðin, gæti áfram mætt þjónustuþörfum stefnda sem best og því horft til fjölhæfni og frammistöðu. Stefnandi hafi því orðið fyrir valinu sökum þess að hann sé ekki jafn fjölhæfur og aðrir starfsmenn deildarinnar. Ríkir rekstrarhagsmunir hafi því legið að baki þeirri ákvörðun.
Hvað varðar bótakröfu stefnanda liggi ekkert fyrir um að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á. Frá kröfunni beri að draga þær tekjur sem Jóhannes hafði næstu þrjá mánuði eftir að kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti hans hjá stefnda lauk þann 31. ágúst. Það sé það tímabil sem bótakrafa stefnanda taki til.
Stefndi mótmæli því sem röngu að stefnandi hafi orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni sem stefnda beri að bæta enda ekki gerð krafa um miskabætur, né krafan rökstutt á annan hátt.
Kröfu stefnda um upphafsdag vaxta sé mótmælt á þeirri forsendu að miða beri vaxtakröfuna við gjalddaga þeirra launa sem bótakrafan miðast við.
Varðandi lagarök byggir stefndi fyrst og fremst á 6. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, nr. 920/2006, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og almennum reglum skaðabótaréttarins. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.
Niðurstaða
Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að uppsögn stefnda hinn 27. maí 2009 á Jóhannesi Má Dagbjartssyni, er verið hafi öryggistrúnaðarmaður, verði dæmd brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og ólögmæt af þeim sökum. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að Jóhannesi Má verði dæmdar skaðabætur að fjárhæð 900.000 kr. Í þriðja lagi er þess krafist að stefnanda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.
Stefnandi byggir á því að Jóhannes Már Dagbjartsson hafi verið tilnefndur öryggistrúnaðarmaður starfsmanna við stefnda, Háskólann á Bifröst, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Því hafi hann átt að sitja fyrir um vinnu við fækkun starfsmanna hjá stefnda í samræmi við þá vernd trúnaðarmanna sem mælt sé fyrir um í 11. gr. laga nr. 80/1938, sbr. tilvísun 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 til þess ákvæðis. Skaðabótakrafan er reist á því að Jóhannes Már hafi bæði orðið fyrir fjártjóni og miska vegna hinnar ólögmætu uppsagnar.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda, enda hafi uppsögn Jóhannesar Más Dagbjartssonar verið lögmæt. Jóhannes Már hafi ekki verið öryggistrúnaðarmaður í skilningi II. kafla laga nr. 46/1980, enda hafi í tilviki hans ekki verið gætt ákvæða þeirra laga og reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Þá hafi Jóhannes Már í raun ekki gegnt hlutverki öryggistrúnaðarmanns. Því hafi stefndi ekki með uppsögninni brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938. Þá er skaðabótakröfunni enn fremur mótmælt á þeim grundvelli að af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að Jóhannes Már hafi orðið fyrir tjóni, hvorki fjárhagslegu tjóni né miska. Þvert á móti verði ráðið af framlögðum launaseðlum september til desember 2009 að hann hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni.
Í II. kafla laga nr. 46/1980 er mælt fyrir um tilnefningu og kosningu öryggisvarða og öryggistrúnaðarmanna í fyrirtækjum. Í reglugerð nr. 920/2006 eru nánari ákvæði um þetta efni. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1980 segir að í fyrirtækjum, þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri, skuli stofna öryggisnefnd. Kjósa starfsmenn úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Skal öryggisnefnd skipuleggja aðgerðir varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins, annast fræðslu starfsmanna um þessi efni og hafa eftirlit á vinnustöðum með því að ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi komi að tilætluðum notum. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 er mælt svo fyrir að öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóti þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938.
Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938 er mælt svo fyrir að á hverri vinnustöð, þar sem a.m.k. fimm menn vinna, hafi stjórn stéttarfélags þess, sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein, rétt til að tilnefna tvo menn til trúnaðarmannsstarfa úr hópi þeirra sem á staðnum vinna. Skal atvinnurekandi samþykkja annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni. Samkvæmt 1. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Í 2. málsl. lagagreinarinnar er tekið fram að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Þess er og að geta að altítt er að í kjarasamningum séu ákvæði um trúnaðarmenn.
Ljóst er að tilhögun á tilnefningu trúnaðarmanna samkvæmt lögum nr. 80/1938 annars vegar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, og öryggistrúnaðarmanna samkvæmt II. kafla laga nr. 46/1980 hins vegar, er með ólíkum hætti, einkum hvað varðar aðkomu stéttarfélags. Engu að síður verður að álíta að inntak verndar sé hið sama, sbr. óskilyrta tilvísun 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 til 11. gr. laga nr. 80/1938.
Fram er komið í málinu að Jóhannes Már Dagbjartsson réðst til starfa hjá stefnda, Háskólanum á Bifröst, hinn 22. ágúst 2007 sem umsjónarmaður nemendagarða, sbr. ráðningarsamning, dags. 29. október 2008. Með bréfi rektors, dags. 27. maí 2009, var Jóhannesi Má sagt upp störfum með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt eigin ósk hætti hann störfum fyrr eða 21. ágúst 2009, en tók síðan út orlofsdaga og fór af launaskrá hinn 10. september 2009. Ástæða uppsagnarinnar var í greindu bréfi rektors tilgreind „vegna endurskipulagningar“.
Í tilkynningu stefnda til Vinnueftirlitsins, dags. 5. febrúar 2008, um kosningu öryggistrúnaðarmanns og tilnefningu öryggisvarðar eða stofnun öryggisnefndar, sem liggur fyrir í málinu, var tilgreint að kosning öryggistrúnaðarmanna hefði farið fram hinn 8. janúar 2008 og kosnir hefðu verið þeir Jóhannes Már Dagbjartsson, stefnandi í máli þessu, í starfi sem umsjónarmaður nemendagarða, og Gunnar Garðarsson, yfirmaður kaffihúss (kokkur). Sama dag hefði farið fram tilnefning öryggisvarða og þau Alda Baldursdóttir, sviðsstjóri húsnæðis, og Einar Valdimarsson, sviðsstjóri fjármála, verið tilnefnd.
Samkvæmt þessu er óumdeilt að Jóhannes Már var ekki kosinn öryggistrúnaðarmaður af starfsmönnum í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 920/2006, heldur tilnefndur af stefnda ásamt öðrum fulltrúa. Fyrrnefnd tilkynning stefnda til Vinnueftirlitsins var því ekki rétt að þessu leyti. Fram kemur af hálfu stefnda, sbr. og skýrslutökur í málinu, þar á meðal af rektor Háskólans á Bifröst, Ágústi Einarssyni, og sviðsstjóra húsnæðis, Öldu Baldursdóttur, að misskilningur og ókunnugleiki hafi orðið þess valdandi að ekki tókst betur til. Þá kom fram við skýrslutökur að hvorki öryggisnefnd né Jóhannes Már hefðu sinnt hlutverki sínu og þessi málefni ekki komist í rétt og lögmætt horf fyrr en sl. vor. Eins og fram er komið telur stefndi að þessi atvik eigi að leiða til þess að Jóhannes Már teljist ekki hafa verið öryggistrúnaðarmaður og njóti því ekki þeirrar verndar sem í málinu greinir. Þá ber stefndi því við að jafnvel þótt litið verði á Jóhannes Má sem öryggistrúnaðarmann hafi með uppsögn hans ekki verið brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938, enda hafi honum ekki verið sagt upp vegna starfa hans sem öryggistrúnaðarmaður heldur vegna rekstrarlegra hagsmuna stefnda.
Ekki verður talið að doði í rækslu öryggismála hjá stefnda á greindum tíma, þar á meðal starfa Jóhannesar Más að þeim verkefnum, en aðilum ber ekki saman um þátt hans, geti skipt sköpum við ákvörðun þess hvort hann telst hafa verið öryggistrúnaðarmaður í skilningi II. kafla laga nr. 46/1980. Fram er komið í málinu, sbr. skýrslutöku af Öldu Baldursdóttur, að Jóhannes Már sótti námskeið fyrir trúnaðarmenn í maí 2008. Þá þykir ekki ástæða til að draga í efa að hann hafi að einhverju leyti rækt þennan starfa. Enn fremur er til þess að líta að ekki liggur annað fyrir en stefndi hafi litið á Jóhannes Má sem öryggistrúnaðarmann. Í því sambandi ber að hafa í huga að langur tími leið frá tilnefningu Jóhannesar Más til starfsloka hans án þess að stefndi gerði reka að því að koma málum í rétt horf. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir nægilega sýnt fram á að Jóhannes Már Dagbjartsson var öryggistrúnaðarmaður í skilningi II. kafla laga nr. 46/1980 á greindum tíma.
Eins og fram er komið var tilgreint í uppsagnarbréfi, dags. 27. maí 2009, að ástæða uppsagnarinnar væri endurskipulagning. Í skýrslutökum kom fram að uppsögnin hefði tengst sparnaðarráðstöfunum og fækkun starfsmanna á umræddu sviði um einn starfsmann til lækkunar á launakostnaði. Hefði valið staðið á milli Jóhannesar Más, sem væri rafvirki, og smiðs í þjónustu stefnda. Hefði smiðurinn talist stefnda mikilvægari og Jóhannesi Má því verið sagt upp störfum, sbr. skýrslutöku af Öldu Baldursdóttur. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þar sem engar ástæður hafi verið gefnar fyrir uppsögn Jóhannesar Más sé ekki hægt að álykta annað en að hann hafi verið látinn gjalda starfa sinna sem trúnaðarmaður. Ekki verður á þetta fallist og þykir ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að umrædd uppsögn hafi átt rætur að rekja til þess. Var uppsögnin því ekki andstæð 1. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980. Fyrir liggur að uppsagnarástæða var ekki að neinu leyti byggð á ávirðingum í starfi heldur einvörðungu rekstrarástæðum stefnda þar sem val stóð á milli Jóhannesar Más og annars starfsmanns á þeim grundvelli. Verður því ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á nægilega ríkar ástæður fyrir þeirri ákvörðun að segja Jóhannesi Má upp starfi. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af fordæmum Félagsdóms verður að telja að uppsögnin hafi verið brot á meginreglu 2. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980. Á þeim grundvelli er dómkrafa stefnanda tekin til greina.
Víkur þá að bótakröfum stefnanda.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 900.000 krónur. Fram kemur að bótafjárhæðin taki mið af launum í þrjá mánuði umfram kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest er Jóhannes Már hafi unnið, sbr. laun samkvæmt framlögðum launaseðlum. Í málinu liggja fyrir launaseðlar Jóhannesar Más frá september til desember 2009 vegna starfa hjá Jobzone A/S í Risør í Noregi. Í ljósi þeirra gagna, og þar sem ekkert hefur komið fram um fjártjón hans, verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna uppsagnarinnar. Þá þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum fyrir miskabótum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda engin krafa sett fram um miskabætur af hans hálfu. Ber því að sýkna stefnda af skaðabótakröfu stefnanda.
Dæma ber stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.
D Ó M S O R Ð:
Uppsögn stefnda á Jóhannesi Má Dagbjartssyni, öryggistrúnaðarmanni Háskólans á Bifröst, þann 27. maí 2009, var brot á 2. málslið 11. gr. laga nr. 80/1938 og því ólögmæt.
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Háskólans á Bifröst, skal vera sýkn af skaðabótakröfu stefnanda, Alþýðusambands Íslands, f.h. Rafiðnaðarsambands Íslands, vegna Jóhannesar Más Dagbjartssonar, í máli þessu.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Valgeir Pálsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson