Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 72/2003

Fimmtudaginn, 19. febrúar 2004

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. október 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. október 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. október 2003, um að synja kæranda um greiðslu sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Neitun sem ég fæ er vegna fæðingaorlofs en ég sótti um fæðingarstyrk og tel mig hafa fullan rétt á honum sem og öðrum réttindum sem koma við 6 mánaða búsetu. Eins fékk vinkona mín sem flutti hingað í desember 24-12-02 fæðingarstyrk en viðkomandi fékk ekki kennitölu fyrr en í júní á þessu ári. Ég hlýt að hafa sama rétt og hún.“

 

Með bréfi, dags. 3. nóvember 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 12. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 10. september 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk vegna fæðingar barns 25. desember 2002. Á umsókninni var gerð grein fyrir því að kærandi hefði flutt til Íslands 3. apríl 2002 og hefði áður verið búsett í B-landi. Samkvæmt skráningu þjóðskrár Hagstofu Íslands flutti hún hingað til lands tveimur dögum seinna, þ.e. 5. apríl 2002.

Skv. 2. mgr. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að jafnaði að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er í 12. og 13. gr. að finna ákvæði þar sem kveðið er á um undanþágur frá skilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. um lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag barns. Þær varða annars vegar heimild til að meta búsetutímabil í öðrum ríkjum sem gerður hefur verið samningur við sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og hins vegar heimild til að greiða foreldri sem hefur þurft að flytja lögheimili sitt erlendis vegna náms.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 17. október 2003 var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði um búsetu hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Í bréfinu hefur af misgáningi verið vísað í 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 sem giltu um greiðslur í fæðingarorlofi fram til þess að ffl. tóku gildi en búsetuskilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. er óbreytt frá áður gildandi lagaákvæðum.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. janúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi, þar segir m.a.:

„v/synjunar á fæðingarstyrk fyrir A, vill hún koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri Úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála fyrir það fyrsta þá var sótt um fæðingarstyrk en það svar sem henni barst var synjun á “fæðingarorlofi”.

Í öðru lagi þá eru þessi tvö nýleg dæmi um að konur frá B-landi frá sömu borg meira segja sem hafa verið styttri tíma hér á landi með lögheimili, fengið þennan styrk og var í báðum þeim tilfellum skýrt frá því að þær hefðu ekki búið hérlendis í þennan 12 mánaða lágmarkstíma eins og stendur í lögunum (að jafnaði eins og það er orðrétt þar) þessi tilfelli sýna svo ekki verður um villst að það er verið að mismuna A með þessari neitun. Eftirfarandi er kennitölur og nöfn þeirra tveggja kvenna sem fengu þennan fæðingarstyrk og ætti nefndinni að vera í lófa lagið að afla upplýsinga um hvers vegna þessi mismunun er á milli þessara þriggja kvenna.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Í máli þessu er því haldið fram að misræmi hafi verið á afgreiðslu mála hjá Tryggingastofnun ríkisins og dæmi nefnd. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurð um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það er eigi á valdsvið nefndarinnar að taka til umfjöllunar aðrar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins en til hennar er vísað.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. ffl. öðlast foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna er 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl. skal foreldri að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag, sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu, þar sem heimilt er að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig er heimilt að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu þegar foreldri flytur lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.

Kærandi ól barn 25. desember 2002. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands skráir hún sig inn í landið 5. apríl 2002. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. sbr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar að hafa átt lögheimili á Íslandi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Framangreindar undanþágur frá skilyrðinu um lögheimili eiga ekki við í máli þessu.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta