Hoppa yfir valmynd
2. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2003

Þriðjudaginn, 2. mars 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá D f.h. A, dags. 23. maí 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 14. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Til mín hafa leitað B og A og falið mér að kæra fyrir sína hönd þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að hafna umsókn þeirra um greiðslu fæðingarstyrks, sbr. bréf stofnunarinnar til umbjóðenda minna, dags. 16. apríl 2003 og 14. maí 2003.

Gera umbjóðendur mínir þá kröfu að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi og tekin ný ákvörðun um að taka umsókn þeirra til greina.

  

I. Málavextir.

Þann 20. september 2002 eignuðust umbjóðendur mínir son, en þann 19. júní 2002 höfðu þau flust til E-lands vegna náms í F. Fyrir brottför fengu umbjóðendur mínir þær upplýsingar hjá kærðu að þau ættu ekki möguleika á fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk frá stofnuninni. Umbjóðendur mínir gerði því ítrekaðar tilraunir til að fá fæðingarorlofsgreiðslur frá E-landi. 

Þær tilraunir skiluðu ekki árangri og með bréfi til kærðu í febrúar 2003 útskýrðu umbjóðendur mínir stöðu mála og sóttu um fæðingarstyrk frá stofnuninni. Með bréfi, dags. 16. apríl 2003, var umsókn þeirra hafnað með svofelldum rökstuðningi:

„Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er það að jafnaði skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að foreldri eigi lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldis sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá áttuð þið ekki lögheimili á Íslandi samfleytt í fimm ár fyrir flutning til E-lands og verður því að synja umsókn ykkar.“

Þann 12. maí 2003 hringdi umbjóðandi minn, B, í kærðu til að fá ítarlegri rökstuðning og útskýringu á höfnuninni. Þá var henni tjáð að bréf kærðu frá 16. apríl væri bara „að flækja málið“ og að þetta „væri ekki satt“. Var henni síðan tjáð að ástæða höfnunarinnar væri önnur en fram kæmi í bréfinu. Var henni tilgreind ástæðan lauslega í símtalinu en tjáð að bréf með nýjum rökstuðningi myndi berast fljótlega. Í bréfi dags. 14. maí 2003, stíluðu á A, kom síðan fram svohljóðandi rökstuðningur:

„Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og fæðingarorlof er það að jafnaði skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks að foreldri eigi lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Samkvæmt 13. gr. reglugerðar er heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Samkvæmt framlögðum gögnum ert þú í starfi í E-landi frá 1. júlí 2002 og verður því ekki litið svo á að þið hafið flutt lögheimili ykkar tímabundið vegna náms erlendis. Umsókninni er hér með synjað.“

Í öðru bréfi, dags. 14. maí 2003, stíluðu á B, kemur fram sami rökstuðningur nema að í stað orðanna „Samkvæmt framlögðum gögnum ert þú í starfi...“stendur „Samkvæmt framlögðum gögnum er maki þinn í starfi...“ 

Þar sem umbjóðendur mínir geta ekki fellt sig við framangreinda ákvörðun hafa þeir óskað eftir því við undirritaðan að kæra þessi verði lögð fram

  

II. Málstaður.

Umbjóðendur mínir byggja á því að ótvírætt sé að þau eigi rétt á fæðingarstyrk samkvæmt lögum nr. 95/2000 og reglugerð nr. 909/2000. 

Grundvöllur höfnunar kærðu virðist vera töluvert á reiki. Í ljósi ofangreindra samskipta kæranda við kærðu og síðara bréfsins virðist höfnunin ekki lengur byggja á þeim rökstuðningi sem fram kom í bréfinu dags. 16. apríl 2003. Verður þeim rökstuðningi sem þar kemur fram því ekki svarað sérstaklega hér, enda verður að líta svo á að kærða hafi sjálf fallist á að sú ástæða sem þar er tilgreind geti ekki orðið grundvöllur höfnunar. Rétt er hins vegar að árétta þá skoðun umbjóðenda minna, að höfnun verði ekki byggð á ástæðunum í fyrra bréfinu, og áskilja þau sér fullan rétt til að koma að rökstuðningi þar að lútandi síðar ef ástæða verður til. 

Samkvæmt bréfinu, dags. 14. maí 2003, virðist höfnunin byggja á því að þar sem annar umbjóðenda minna, A, hafi hafið störf í E-landi 1. júlí 2002, verði ekki litið svo á að þau hafi flutt lögheimili sitt „tímabundið vegna náms erlendis“ í skilningi 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Af hálfu umbjóðenda minna er þessari niðurstöðu alfarið mótmælt. A hefur frá 1. september 2002 stundað fullt nám við F-háskóla. Ástæða veru umbjóðenda minna í E-landi er nám en ekki vinna, en A hyggst klára það G-nám sem hann hóf við F-háskóla árið 1998. Umbjóðendur mínir áttu von á barni í september og fóru því að sjálfsögðu nokkru áður til E-lands, eins og fæðingarlæknir hafði ráðlagt þeim, eða þremur mánuðum áður en von var á barninu og námið hófst. Vitanlega hóf A vinnu um leið og hann gat til að ala önn fyrir hinni væntanlegu fjölskyldu. Sú vinna hans getur að fráleitt orðið til þess að ferðin til E-lands, sé ekki „tímabundin vegna náms erlendis“, enda stundar hann sem fyrr segir fullt háskólanám. Hér skal einnig bent á að í bréfi kærðu er engin tilraun gerð til skýra hvað við umrædda vinnu umbjóðanda míns veldur því að hann telst ekki lengur „tímabundið vegna náms erlendis.” Veldur vinna einstaklings með fullu námi erlendis því að hann teljist ekki lengur „tímabundið“ erlendis? Eða telst hann þá ekki lengur í námi? Vandséð er hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að vinna umbjóðanda míns þýði að hann sé ekki lengur tímabundið í námi erlendis. Rétt er að ítreka að taka skýrt fram að hér er einungis um hlutastarf að ræða og launin í samræmi við það. Meðfylgjandi eru launaseðlar sem sýna að mánaðarlegar greiðslur nema H kr. 

Umbjóðendur mínir telja niðurstöðu kærðu samkvæmt framansögðu ekki standast lög nr. 95/2000 og reglugerð 909/2000, auk þess sem það sé í brýnni andstöðu við megintilgang laga nr. 95/2000 að íslenskum ríkisborgurum, sem stunda nám erlendis, sé hafnað um fæðingarstyrk vegna vinnu föðurins í örfáa mánuði meðan beðið er eftir að barnið komi í heiminn og námið hefjist.

  

III. Kæra.

Með hliðsjón af framangreindu er kærð sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að umsókn umbjóðenda minna um greiðslu fæðingarstyrks, sbr. bréf stofnunarinnar til umbjóðenda minna, dags. 16. apríl 2003 og 14. maí 2003. 

Gera umbjóðendur mínir þá kröfu að framangreind ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og tekin ný ákvörðun um að taka umsókn umbjóðenda minna til greina.“

  

Með bréfi, dags. 6. júní 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 27. ágúst 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Samkvæmt 18. gr. ffl. eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á fæðingarstyrk. Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk (sem er hærri fjárhæð en fæðingarstyrkur foreldra utan vinnumarkaðar). Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 18. gr. ffl. og 2. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu mánuði á undan.

Í 12. gr. reglugerðarinnar er áréttað að foreldri þurfi að hafa átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan og síðan tekið fram að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. 

Í 13. gr. reglugerðarinnar er Tryggingastofnun ríkisins heimilað, þrátt fyrir skilyrði 12. gr. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan, að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Skilyrði fyrir greiðslum er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandinu um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum í því ríki. Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur.

Í 9. gr. a. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (sem er í I. kafla A. laganna) er kveðið á um að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum og að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Í 9. gr. c. er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er skv. lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í námslandinu. Sama gildi um maka hans sem var tryggður hér við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast. Í 9. gr. d. segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd þessa kafla, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis. 

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 er að finna skilgreiningu á því hver sé námsmaður sem er svohljóðandi:

„Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.“

Þessi skilgreining á því hver getið notið réttinda sem námsmaður og það skilyrði að viðkomandi einstaklingur sé ekki launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur í samræmi við þá meginreglu 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, að einstaklingur sé tryggður í því landi sem hann er ráðinn til starfa. 

Kærandi fluttist til E-lands 19. júní 2002 og eignaðist barn þar 20. september 2002. Hann og maki hans sóttu um greiðslu fæðingarstyrks með ódagsetti umsókn sem barst 12. mars 2003. Með umsókninni fylgdi bréf frá maka hans þar sem fram kom að þau sæktu um fæðingarstyrk foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 26% starfi þar sem þau lendi bæði á milli þess að uppfylla skilyrðin fyrir fullt nám eða vinnu. Í bréfinu kom einnig fram að hann hefði byrjað á handboltasamningi í E-landi 1. júlí 2002 og að hann hefð tekið upp þráðinn í G-námi sínu í september síðastliðnum. Með umsókninni fylgdi hvorki staðfesting á námi hans í E-landi né staðfesting á því að hann ætti ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þar.

Með bréfi lífeyristryggingasvið dags. 16. apríl 2003 var kæranda og maka hans synjað sameiginlega um greiðslu fæðingarstyrks á grundvelli þess að þau uppfylltu ekki skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks um að hafa átt lögheimili á Íslandi samfleytt í fimm ár fyrir flutning til E-lands. Þar sem búseta þeirra erlendis á þessum tíma var í E-landi var ekki rétt að synja á þeim grundvelli þar sem búseta innan EES-svæðisins verður á grundvelli reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 lögð að jöfnu við búsetu á Íslandi þegar litið er til þess hvort þetta skilyrði sé uppfyllt.

Kæranda var síðan að nýju synjað um greiðslu fæðingarstyrks með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 14. maí 2003 á grundvelli þess að samkvæmt framlögðum gögnum hafi hann verið í starfi í E-landi frá 1. júlí 2002 og verði því ekki litið svo á að þau hafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi er í starfi í E-landi. Þar sem hann er launþegi þar og á skv. 13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 að vera tryggður þar verður ekki litið svo á að hann geti jafnframt notið réttinda á Íslandi sem námsmaður á grundvelli undanþáguheimildar í 13. gr. reglugerðar 909/2000.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. september 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 11. febrúar 2004, þar sem kærandi ítrekar kröfur sínar og leggur fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. 

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga rétt til fæðingarstyrks á grundvelli 18. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Barn kæranda er fætt 20. september 2002. Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til E-lands 19. júní 2002 og nám 1. september 2002. Fyrir liggur ljósrit af umsókn kæranda um endurinnritun í F-háskóla sem dagsett er 3. maí 2002 og stimpluð móttekin 27. maí sama ár af skrifstofu F-háskóla.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir nægjanlega í ljós leitt að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda hafi verið fyrirhugað nám hans. Samkvæmt því telst hann hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna námsins og uppfylla skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hafnað. 

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks er hafnað.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta