Ræddi samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar við fulltrúa OECD
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti höfuðstöðvar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París. Efnahags- og framfarastofnunin er alþjóðastofnun 38 þróaðra ríkja sem aðhyllast fulltrúalýðræði og markaðshagkerfi. Hlutverk stofnunarinnar er að miðla og bera saman gagndrifna stefnumótun stjórnvalda á víðtæku sviði í þágu efnahags- og félagslegrar velferðar, standa vörð um sameiginleg gildi og stuðla að þróun um allan heim. Ísland hefur verið stofnaðili að stofnunni allar götur síðan 1961 þegar henni var komið á fót.
Lilja fundaði með fulltrúum OECD á sviði nýsköpunar, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, landsvæða og borga, en sviðið fer með málefni ferðaþjónustu og menningargeirans. Ræddi Lilja meðal annars vinnu við aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu á Íslandi sem unnið er að á vettvangi menningar- og viðskiptaráðuneytisins og stefnumótun í hinum ýmsu menningargreinum. Sérstaklega var rætt um stöðu og horfur í alþjóðlegri ferðaþjónustu og samkeppnishæfni ferðaþjónustu m.t.t gjaldtöku í greininni og sjálfbærni.
"Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem skilar mestum gjaldeyristekjum fyrir þjóðarbúið. Í yfirstandandi vinnu við aðgerðaáætlun í greininni er mikilvægt að huga í hvívetna að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu og tryggja að Ísland verði áfram eftirsóknarverður áfangastaður fyrir ferðamenn. Í því ljósi höfum við meðal annars verið að hrinda í framkvæmd tillögum úr samkeppnismati OECD á íslenskri ferðaþjónustu og ryðja þannig úr vegi samkeppnishindrunum í greininni" segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.