Ávarpaði hjólaráðstefnu í lok samgönguviku
Samgönguviku sem hefur staðið yfir frá síðasta laugardegi lýkur í dag. Meðal dagskrárliða í dag var ráðstefnan Hjólum til framtíðar – ánægja og öryggi og flutti Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarp og fjallaði meðal annars um fjölbreytta samgöngumáta og nýjar áherslur sem þeim tengjast.
Sveitarfélög í Evrópu hafa frá árinu 2002 hvatt til árlegs átaks sveitarfélaga um að ýta undir sjálfbærar samgöngur og er evrópsk samgönguvika haldin ár hvert í þessum tilgangi. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Á dagskrá vikunnar að þessu sinni voru fundir og ráðstefnur um hjólreiðar, víða var boðið upp á hjólaferðir og átakinu lauk í dag með bíllausum degi.
Þá var efnt til ráðstefnunnar Hjólum til framtíðar. Hjólafærni og Landssamtök hjólreiðamanna stóðu að henni í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Meginþemað var ánægja og öryggi hjólandi vegfarenda en aðalræðumaður var Ton Daggers, hollenskur sérfræðingur um þróun nytjahjóla og nýtingu á þeim í borgum.
Ráðherra sagði í upphafi að vitundarvakning hefði orðið um mikilvægi fjölbreyttra samgöngumála og að vinsældir hjólreiða hefðu aukist mjög hérlendis. Hann sagði að í mörgum markmiðum samgönguáætlunar kæmu fram áherslur á hjólreiðar og innviði fyrir þær. Hjólreiðar skuli vera raunhæfur kostur enda dragi þær úr umhverfisáhrifum, lækki samgöngukostnað og minnki orkuþörf. Hann sagði Vegagerðina hafa fjármagnað nýja hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu og að meðaltali hefði kringum 250 milljónum króna verið varið til stígagerðar. Að leiðarljósi væri að hjólreiðar verði greiður og öruggur ferðamáti með gerð stofnstíga með aðskilnaði frá annarri umferð meðfram þjóðvegum. Ríkið hefði staðið undir helmingi kostnaðar á móti viðkomandi sveitarfélagi.
Fram á þetta ár hefði fjármagni einkum verið varið til stígagerðar á höfuðborgarsvæðinu en sveitarfélög á landsbyggðinni væru í vaxandi mæli farin að standa að gerð hjólastíga. Í smíðum væru hjólastígar milli Akureyrar og þéttbýlisins í Hrafnagili, í Snæfellsbæ og í Árborg. Á næsta ári verður m.a. stutt við gerð hjólastíga í Mývatnssveit og í Fellabæ.
Á ráðstefnunni voru flutt erindi um hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu og víðar, um hjólahraðbraut og reynslu hjólreiðamanna af hjólastígum.