Hoppa yfir valmynd
2. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

„Við komum til bæjarins í leit að lífi“

Ljósmynd: FAO/Arete/Ismail Taxta - mynd

Í útjaðri bæjarins Belet Sveina í Suður-Sómalíu brýtur Maryam Muse Duale litlar spýtur með höndunum og kveikir eld í moldinni til að halda hita á börnum sínum um nætur. Maríaam hefur komið sér upp fátæklegu skýli úr stöfum og klæðum sem skýlir þó ekki fyrir kalda næturloftinu. Börnin sitja á mottu og bíða eftir mat frá mannúðarstofnunum. Þegar maturinn kemur deilir hún honum fyrst til barnanna. Foreldrar borða afganginn.

Á þessa leið hefst frásögn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um bágindin í Sómalíu vegna langvarandi þurrka og yfirvofandi hungursneyðar. Líkt og margt annað sveitafólk stendur Maryam frammi fyrir nýjum veruleika, ólíkum þeim sem hún bjó við fyrir fáeinum misserum. Þurrkatímabilið sem hófst síðla árs árið 2020 kallar á sífellt ömurlegri aðstæður.

Fyrir ekki svo löngu stundaði fjölskylda Maryams geitabúskap, safnaði eldiviði og hafði ofan í sig og á. Eftir þrjú regntímabil án úrkomu er landið uppþornað, geiturnar hafa drepist og fjölskyldan að örmagnast. Tekin var sú ákvörðun að fara til bæjarins Belet Sveina í leit að stuðningi. „Við komum til bæjarins til að leita að lífi,“ segir Maryam.

Í flóttamannabúðum farandfólks í þorpinu þar sem Maryam og börn hennar hafa fengið tímabundið skjól þarf að útvega þeim allt sem til þarf, mat, vatn og lyf. Feðurnir eru farnir í burtu til að leita uppi tilfallandi störf eða dvelja í sveitinni til að líta eftir eigum fjölskyldunnar. Konur og börn í búðunum lifa meðal ókunnugra og fjarri vernd ættingja með aukinni hættu á því að verða fyrir kynbundnu ofbeldi eða öðrum líkamlegum skaða, að ekki sé minnst á sjúkdómsfaraldra. Efnahagslegur og sálrænn tollur fylgir því að flýja að heiman.

„Það er mikill munur á fortíð okkar og nútíð vegna þess að í fortíðinni bjuggum við á heimilum okkar og ef okkur skorti eitthvað vissum við alltaf hvert við ættum að leita. Nú erum við algerlega háð velvild annarra,“ segir Maryam.

Níu hundruð þúsund manns hafa flosnað upp af heimilum sínum á yfirstandandi þurrkatímabili í Sómalíu og reiknað er með að sú tala hækki á næstunni. Sjö milljónir íbúa búa við sult.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta